133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:45]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Kæru landsmenn. Frjálslyndi flokkurinn er afl hugsjóna. Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér af alefli gegn sérhagsmunaklíkum sem hafa sópað til sín ríkiseigum og stefna í að gera það áfram, svo sem stefnir í að sópa til sín raforkunni og orku landsmanna. Núverandi stjórnarflokkar hafa setið allt of lengi. Valdaþreyta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er dekur við sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna.

Hver man ekki eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, algerlega óábyrgum aðgerðum? Svo eru menn að boða hér einhverja ábyrgð og deila á stjórnarandstöðuna, jafnvel maður eins og hv. formaður fjárlaganefndar deilir á stjórnarandstöðuna fyrir ábyrgðarleysi, maður sem hefur sýnt af sér vítavert kæruleysi í meðferð opinbers fjár. Þá er ég að tala um Byrgið, ágætu þingmenn. (Gripið fram í.)

Við í Frjálslynda flokknum sjáum bjartari framtíð fyrir okkur þar sem við setjum í öndvegi hagsmuni heildarinnar, við teljum skynsamlegt að byggja allt landið og við teljum skynsamlegt fyrir þjóðina að búa til sátt um sjávarútveginn, sátt sem snýr að því að sætta þjóðina við breytt fiskveiðistjórnarkerfi en snýr ekki eingöngu að því að sætta núverandi handhafa kvótans við eitthvert kerfi sem hefur skilað þjóðinni engu öðru en tjóni.

Við sjáum bjarta framtíð fyrir landsmenn ef þessum flokkum sérhagsmuna verður velt úr valdasessi. Við eigum einfaldlega að horfa á þau tækifæri sem bjóðast ef við breytum þessu kerfi sem hefur valdið landsbyggðinni sárindum og þjóðinni minni afla og minni verðmætasköpun. Við í Frjálslynda flokknum höfum þor og dug til að gera mun betur og breyta þeirri stefnu sem hefur verið viðvarandi nú á síðustu árum svo allt of lengi og skilað þjóðinni ekki öðru en tjóni, sérstaklega hinum dreifðu byggðum.