133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

menntunarmál blindra og sjónskertra.

[10:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er dapurlegt að þurfa að standa hér og reka á eftir hæstv. menntamálaráðherra í því efni sem hér er um rætt, að koma af stað þekkingarmiðstöð fyrir blind og sjónskert börn. Því miður er þetta ekki einsdæmi því að við þekkjum að málefni heyrnarskertra og heyrnarlausra hafa líka verið látin reka á reiðanum hjá þessari ríkisstjórn.

Nú hefur borið svo við í menntamálanefnd að að öllum líkindum verður stórt og viðamikið frumvarp hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur um réttarstöðu heyrnarlausra og réttarstöðu táknmálsins ekki afgreitt frá menntamálanefnd á þessu þingi þrátt fyrir að í orði kveðnu sé veruleg samstaða þingmanna úr öllum flokkum um það mál. Dæmið sem hér er tekið um þekkingarmiðstöð fyrir blind eða sjónskert börn er af sama toga. Í orði kveðnu eru þessi stjórnvöld öll af vilja gerð — en hvar eru efndirnar? Sleifarlagið er ófyrirgefanlegt. Hæstv. menntamálaráðherra verður að grípa í taumana, tala mun skýrar og ekki bara setja nefnd sem hún segir að eigi að vera aðgerðanefnd. Hér þarf aðgerðir og það strax. Auðvitað erum við að gera þetta allt of seint. Eins og ég segi er algerlega nauðsynlegt að við komum þannig fram að öllum sé tryggt aðgengi að þessu samfélagi. Blindum og sjónskertum börnum er ekki tryggt aðgengi að því öðruvísi en komið sé til móts við þær óskir sem þau hafa sett fram í þeim efnum.