133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

menntunarmál blindra og sjónskertra.

[10:40]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Menntun sjónskertra og blindra snýst ekki eingöngu um rétt þeirra til kennslu við hæfi, heldur er þetta hreinlega spurning um mannréttindi þeirra einstaklinga sem búa við þessa fötlun. Það er alveg ljóst að allt frá því að sérdeild Álftamýrarskóla var lögð niður hefði önnur þjónusta þurft að koma í staðinn, eitthvað annað en að vísa menntun þessara barna og unglinga yfir í hið almenna skólakerfi, grunnskólana og framhaldsskólana. Þó að við Álftamýrarskóla starfi nú einn sérfræðingur til að sinna stuðningi við kennara er það engan veginn nóg. Tæplega 200 börn og unglingar þurfa á sérstakri aðstoð að halda og það sjá allir að það dugar ekki að hafa einn sérfræðing til að sinna þessum stóra hópi. Það gengur heldur ekki að við séum með sérdeild í hverjum einasta skóla því að sem betur fer er þetta ekki það algeng fötlun að það sé ástæða til að hafa sérdeild í hverjum skóla.

Sérfræðiþekkingin þarf að vera til staðar og öllum hefur verið ljóst að svona miðstöð, þekkingarmiðstöð, þarf að vera rekin af myndarskap og það að borgin, ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga komi að þessu máli á ekki að vera til að tefja. Þarfirnar eiga að ganga fyrir, greiðsluþátttaka þessara aðila og hvernig hún skiptist á svo að koma á eftir. Fyrst og fremst á að greina þarfirnar og þjónustuna og (Forseti hringir.) síðan á að ganga frá hinu á eftir.