133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

þingstörfin fram undan.

[11:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki nógu góður bragur á því að við skulum hér vera stödd þann dag sem starfsáætlun þingsins gerir ráð fyrir að þingi verði lokið og við vitum ekki hversu lengi á að halda áfram. Ég er þó ekki að kveinka mér undan því álagi sem alltaf fylgir síðustu dögum þings. Það er eðlilegt og undir það göngumst við.

Hins vegar hlýtur líka að teljast eðlilegt að rætt sé við stjórnarandstöðuna fyrr en nú virðist eiga að gera. Hæstv. forsætisráðherra lætur okkur vita hér að til standi að ræða við stjórnarandstöðuna þegar líður á daginn. (Gripið fram í: Það er gaman að því.) Já, já, það er allt í fína að eiga von á því. Auðvitað munum við ekki skorast undan að mæta á þann fund frekar en við skorumst undan því að mæta á fundi í nefndum þingsins til að taka út fjöldann allan af málum í miklum ágreiningi, sum hver, svo að ég upplýsi hæstv. forsætisráðherra um ýmislegt af því sem er að gerast í nefndum þingsins. Það hefur gerst síðustu tvo daga sem við í raun og veru héldum að kæmi ekki til, það hafði ekkert bent til þess að mikil ágreiningsmál yrðu tekin út úr nefndunum á síðasta sprettinum. En það hefur nú verið gert.

Í ljósi þessa alls hlýtur að vera eðlilegt að hæstv. forseti Alþingis kalli stjórnarandstöðuna til samráðsfundar um þetta áður en lengra er haldið. Það hlýtur að vera eðlilegt að gera kröfu um slíkt af því að við viljum öll ljúka þinghaldinu í sátt. Ef við náum ekki sátt um það hvernig þinghaldinu á að ljúka, hvernig ætlum við þá að ná sátt um önnur mál stærri sem eru í sérnefndum?