133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

þingstörfin fram undan.

[11:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég geri enga athugasemd við það að hér sé fylgt prentaðri dagskrá. Ég vil einungis ítreka það sem ég benti á áðan, við erum í miðjum klíðum í sérnefndinni um stjórnlagafrumvarpið. Við þurfum í sjálfu sér ekki mikinn tíma til að ljúka fyrstu yfirferð, þ.e. fyrirtöku, en hins vegar tel ég að það sé nokkurra klukkustunda vinna í bara því að komast til botns í því hvort hægt sé að ná samstöðu um að breyta málinu og leggja það þannig fyrir þingið.

Ég spyr hæstv. forseta með tilliti til þess að hún telur sjálf að hér sé samkomulag um mjög mörg mál og ætti að vera auðvelt að ljúka þeim: Hvenær ætlar forseti að gefa tíma fyrir sérnefndina til að starfa og komast a.m.k. að einhvers konar niðurstöðu um framhald málsins? Ég held að það mundi flýta fyrir þinglokum og hugsanlega leiða til þess að hægt yrði að ljúka þingi fyrir miðja næstu viku, og hugsanlega fyrir helgi ef það væri hægt að gefa sérnefndinni færi á að a.m.k. láta glitta til botns í því máli. (Gripið fram í.)