133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[11:38]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég tók fram í fyrra andsvari mínu deila menn ekki um að styðja þarf við sauðfjárbændur en vandinn við það fyrirkomulag sem við höfum haft hefur verið sá að það virðist ekki hafa gagnast sauðfjárbændum til að hafa þá framfærslu sem við hljótum að ætla að þurfi á okkar tímum né heldur neytendum til að njóta þess vöruverðs sem við gerum kröfu til árið 2007. Það hlýtur auðvitað að segja hverjum skynsömum manni að það gefi fullt tilefni til að yfirvega vel og endurskoða með hvaða hætti staðið er að þessum stuðningi.

Ég vil segja það fyrir mitt leyti að mér finnst það vont verklag þegar þing sem er að fara frá og ríkisstjórn sem er að fara frá semur til lengri tíma en eins kjörtímabils inn í framtíðina, í þessu tilfelli þing sem er að hætta í maí 2007 semur fyrir tímabilið frá síðari hluta árs 2008 og fram til ársins 2014. Ég tel að miklu betur færi á því — því auðvitað þurfa menn að skipuleggja sig fram í tímann — að ný ríkisstjórn hefji kjörtímabil á að gera samninga til viðlíka tíma og kjörtímabilin eru, fjögur ár, því að umboð okkar nær einfaldlega fram í maí og við verðum að ætla því þingi sem hér kemur saman í haust svigrúm til ákvarðana og endurskoðunar í jafnmikilsverðum málum og þessu og sérstaklega þegar þessi fjárstuðningur, sem út af fyrir sig er ekki deilt um, hefur ekki verið að skila meiri árangri en raun ber vitni, hvorki fyrir sauðfjárbændur né fyrir neytendur.