133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[12:01]
Hlusta

Frsm. minni hluta landbn. (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var gott að heyra að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er áhugasamur um búháttabreytingar og mun styðja þær ef tillögur um þær koma fram. Ég dreg hins vegar þá ályktun að hann sé meiri áhugamaður um að viðhalda ástandinu í sauðfjárræktinni eins og það er frekar en að hraða breytingum vegna þess að tillaga hans lýtur að því að viðhalda ástandinu en ekki að breyta um form á atvinnu þeirra sem nú stunda sauðfjárrækt, en það þarf að gera að einhverju leyti.

Það er hárrétt hjá hv. formanni landbúnaðarnefndar, Drífu Hjartardóttur, að sauðfjárrækt er undirstöðuatvinnugrein í vissum hlutum landsins. Það er sorglegt að rifja upp að einmitt í þeim sömu sveitum eru meðaltekjur mjög lágar og með þeim allra lægstu á landinu. Á Norðurlandi vestra, þar sem sauðfjárrækt er mjög ríkur þáttur í atvinnulífi, er hagvöxtur sennilega hátt í tíu prósent undir landsmeðaltali ef við tökum allan tímann fram að síðustu áramótum. Hagvöxtur var 1% neikvæður á ári til ársins 2004 og hefur örugglega verið a.m.k. 1% neikvæður á ári á þeim tíma sem síðan er liðinn.