133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[12:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar og breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem honum tengjast. Samningurinn sem liggur til grundvallar er gerður á milli fulltrúa Félags sauðfjárbænda annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Þetta er samningur um umgjörð sauðfjárræktarinnar hvað ríkið varðar, bæði hvað snertir fjárhagslegan stuðning við atvinnugreinina, við framleiðsluna og skilgreinda þætti hennar, og þær skyldur og kvaðir sem lagðar eru á greinina á móti. Þetta er því tvíhliða samningur. Hann kveður að sjálfsögðu á um ákveðin markmið sem ég held að sé ágætt að rifja upp. Það er ágætt að hafa klárt að markmið samningsins eru tilgreind í 1. gr. hans. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið með ákvæðum þessa kafla um framleiðslu sauðfjárafurða eru:

a. að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda,

b. að stuðla að nýliðun í hópi sauðfjárbænda og styrkja búsetu í dreifbýli,

c. að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu,

d. að örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar,

e. að stuðla að framþróun í sauðfjárrækt.“

Þetta er hin pólitíska yfirlýsing sem samningurinn grundvallast á.

Áður en ég vík að öðrum þáttum þessa máls vil ég geta þess að í nýgerðri skoðanakönnun frá Gallup um afstöðu þeirra til íslensks landbúnaðar sem spurðir voru kom fram að sterk samstaða er meðal þjóðarinnar og vilji til að standa að baki öflugum íslenskum landbúnaði. Þetta finnum við sem erum mjög tengdir greininni og fylgjumst með umræðunni. Hvernig svo sem það yrði gert verða stjórnvöld og Alþingi að útfæra. En skilaboðin eru afar skýr, að þjóðin vill öflugan og sterkan landbúnað, framboð af hollum og góðum landbúnaðarvörum og að sjálfsögðu á eins lágu verði og mögulegt er. Ég held að það sé nokkuð sem við eigum að taka höndum saman um að varðveita. Varðveita þessa ímynd, varðveita þessa kröfu og þær væntingar sem við erum sammála um að hafa beri til íslensks landbúnaðar og standa vörð um.

Ég sagði við 1. umr. að ég teldi að jafnframt hefði í markmiðslýsingu samningsins átt að tilgreina hagsmuni allra neytenda. Hagsmunir neytenda varðandi landbúnaðarframleiðsluna eru hin stóra krafan. Taka hefði átt á þeim væntingum í samningnum þannig að umgjörðinni um greinina væri lokað. Gjörðin sem við viljum mynda líkt og sáttmála um búsetuna, sjálfbæra nýtingu landkostanna, framleiðsluna og hollustuna og framboð vörunnar til neytenda, allt þetta hangir saman í einni stórri heild sem við viljum (JÁ: Sex ára áætlun.) standa vörð um.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson kallar: Sex ára áætlun. Það er í sjálfu sér ekki löng áætlun í landbúnaði. Við sem þekkjum framleiðsluferlið í landbúnaði vitum að það er býsna langt. Ekki er hægt að reka landbúnað á stöðugum skyndisamningum. Það er sama hversu mjög fólk langar til að vinna hratt. Framleiðsluferlið er langt frá því að hús eru byggð og frá því að land er ræktað, frá því að fé er sett á í sauðfjárræktinni og þar til það fer svo aftur að skila lömbum til slátrunar. Þetta er langur tími.

Framleiðsluferlið er býsna langt og því mjög mikilvægt að öll samningsumgjörð sem greininni er búin og hún skyldug til að fara inn í sé líka til langs tíma, hvort sem við erum ánægð eða óánægð með einstaka þætti hennar og vildum hafa þá öðruvísi. Annað væri að mínu viti óábyrgt. Að sjálfsögðu má endurskoða ýmsa þætti innan þessa tímabils enda eru ákvæði um það. Ég segi þetta, frú forseti, til að menn átti sig á því að landbúnaðurinn hefur sérstöðu. Þetta er ekki eins og vörusala þar sem hægt er að breyta umgjörðinni með skömmum fyrirvara, án þess að ég mæli með slíkum vinnubrögðum almennt.

Hitt skal líka tekið fram, að þessi samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar er einhliða unnin af meiri hluta ríkisstjórnarinnar. Aðkoma minni hlutans og annarra þingflokka að samningsgerðinni er engin. Við vitum í sjálfu sér um hvað umræðan snýst á hverjum tíma en þetta hef ég gagnrýnt. Ég hefði talið að það skipti máli að reyna að skapa eins mikla þjóðarsátt og þjóðarvitund um þá umgjörð sem landbúnaðinum er sköpuð í formi samninga milli ríkisins og búgreinanna. Pólitískir flokkar ættu að vinna saman að því. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ítrekað flutt tillögu þess efnis á undanförnum þingum. Ég minnist þess meira að segja að hæstv. landbúnaðarráðherra, sem tekst oft vel upp, hafi í einni af sinni ágætu ræðum, líklega við setningu búnaðarþings fyrir tveimur eða þremur árum, minnst á að skipa þyrfti nefnd með sem breiðastri aðild samtaka atvinnulífs, samtaka bænda, samtaka neytenda og þingflokka um að taka á framtíðarskipan landbúnaðarmála.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, lögðum á 130. löggjafarþingi svohljóðandi tillögu til þingsályktunar varðandi þessi mál, um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum. Flutningsmenn voru allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Tillagan hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og Bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.“

Ég held að einmitt slík nálgun eins og við leggjum til hér, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sé hin rétta og mjög mikilvægt að einmitt svona sé unnið. Við sjáum það og ég vísa aftur til þeirrar skoðanakönnunar sem birt var nýverið um afstöðu svarenda, sem voru býsna margir, til íslensks landbúnaðar þar sem yfir 90% af þeim sem voru spurðir telja miklu varða að hér sé stundaður öflugur og góður landbúnaður með framleiðslu hollra vara og ríkuleg áhersla lögð á að landið sé í byggð. Þetta er líka mjög sterk vísbending um að við eigum að standa saman og vinna saman að þeirri umgjörð að tryggja að svo verði.

Þess vegna gagnrýni ég þau vinnubrögð sem hæstv. landbúnaðarráðherra ber ábyrgð á fyrir hönd stjórnvalda og fjármálaráðuneytisins að leita ekki víðtækara samstarfs um gerð samningsins. (JÁ: Við hverja?) Við okkur t.d., hv. þm. Jóhann Ársælsson. Mér finnst að aðrir þingflokkar eigi að eiga aðgang að því þegar verið er að gera samninga sem eru eins konar þjóðarsáttarsamningar um landbúnaðinn og verður, eðli málsins samkvæmt, að gilda allmörg ár fram í tímann vegna þess að eðli landbúnaðarins er með þeim hætti að það er ekki verjanlegt að breyta umgjörð hans í stórum dráttum, a.m.k. ekki þannig að það komi mjög hratt til framkvæmda, því að framleiðsluferlið er langt og búseta fólks sem á afkomu sína undir sauðfjárrækt er með þeim hætti að það getur ekki verið að sveiflast til og frá eftir ramma ríkisins um landbúnaðinn.

Þetta vildi ég nefna hér og tillögur okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði miða einmitt að því að efla íslenskan landbúnað á þeim forsendum sem ég hef nefnt. Ég hef áhyggjur af þeirri þróun sem er víða í íslenskum landbúnaði, þ.e. fækkun býla í byggð, fækkun framleiðenda, æ dreifðari búseta sem gerir ekki aðeins framleiðsluna ótryggari heldur líka þann félagslega bakgrunn og félagslega styrk sem sú atvinnugrein þarf að eiga að baki sér. Það er alveg hárrétt að ýmsir nýir koma í staðinn og flytja inn þótt þeir stundi ekki landbúnaðarframleiðslu. Það er í sjálfu sér gott mál, þeir eru virkir þátttakendur í samfélaginu, en það er mjög mikilvægt að einmitt þessi félagslegi grunnur landbúnaðarins sé treystur, og því færri framleiðendur sem verða þeim mun meira óöryggi verður að baki framleiðslunnar.

Þess vegna hef ég lagt til og flutt tillögu á Alþingi sem kveður á um að sett verði ákveðið þak á bústærðir hvað varðar þátttöku ríkisins t.d. í beingreiðslum. Við þekkjum það í sjávarútvegi að þar er samþjöppunin orðin býsna mikil. Sumum finnst hún óhóflega mikil og hún er það. Þar gripu menn þó til þess seint og um síðir að setja þak á kvótaeign lögaðila, hámark, og einmitt þegar verið var að breyta lögum um aflahlutdeildir smábáta eða smærri báta í því kerfi var á síðasta ári sett í lög hámark á hlutdeild þess lögaðila að heildaraflamarki sem var í þeim flokki. Þetta er því víða svona og ég held að það sé fyllilega tímabært að við hugum einnig að þessu innan landbúnaðargreinanna og gerum það í tíma áður en það orðið of seint, áður en samþjöppunin er orðin svo mikil að erfiðara verður að koma að til þess að beita stýritækjum eða hafa umgjörð um.

Við hljótum öll að viðurkenna að það er óréttlátt að áskrift á beingreiðslum frá ríkinu, hvort heldur það er til sauðfjárræktar eða ég tala nú ekki um til mjólkurframleiðslu, sé alveg óháð bústærð. Komin er takmörkun á beingreiðslum vegna mjólkurframleiðslu og þó að hún sé ekki mikil þá lækkar hluturinn á hverja framleiðslueiningu eftir ákveðna bústærð og inn kemur annar stuðningur eins og á grip og þess háttar. Þar er þetta að byrja að koma inn og sumir hafa talið að það hefði jafnvel mátt koma sterkar inn þegar samningurinn var gerður.

Ég tel að þetta hefði líka átt að koma inn í sauðfjársamninginn, ekki vegna þess að sauðfjárbúin séu nú þegar orðin svo stór að það þurfi að fara að takmarka það þess vegna, heldur að einmitt áður en slík þróun gengi miklu lengra væru sett slík mörk á þátttöku ríkisins í beingreiðslum til sauðfjárbúa sem miðuðust við einhverja ákveðna stærð og færu svo lækkandi úr því, því að ef stærðarhagkvæmnin er fyrir hendi ætti hún leysa af væntingarnar og kröfurnar um beingreiðslur. Þetta mundi líka virka sem hvati á að halda dreifðri byggð og dreifðri framleiðslu sem er líka fólgin í því. Ég hef flutt tillögu á Alþingi um að þetta verði gert og vísa til ályktana hinna ýmsu búgreinafélaga hvað þetta varðar þar sem þau telja þetta eðlilegt. Þetta er aðgerð sem ríkisvaldið verður að taka en einstök búgrein getur ekki gert. Ég get vitnað hér í ályktun, þó að hún lúti að svínakjötsframleiðslunni, þar sem varað er við að framleiðsla svínakjöts fari á örfáar hendur. Ég ætla, frú forseti, að lesa ályktunina til að árétta þessi sjónarmið. Þetta er erindi frá Svínaræktarfélagi Íslands frá árinu 2004 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Framleiðsluöryggi, samkeppni og sjálfbær þróun í íslenskum landbúnaði:

Búnaðarþing 2004 samþykkir að beina þeim tilmælum til stjórnvalda að skipuð verði nefnd til að kanna umgjörð og starfsskilyrði kjötframleiðslunnar í landinu. Markmiðið verði að leita leiða til að tryggja, eftir því sem unnt er, að íslensk kjötframleiðsla verði rekin á forsendum sjálfbærrar þróunar og að framleiðendur og neytendur búi við ákveðið framleiðsluöryggi og lágmarkssamkeppnisskilyrði. Reynt verði að finna leiðir til að hindra fákeppni í kjötframleiðslu hér á landi.

Sérstaklega verði hugað að eftirfarandi:

1. Að sett verði þak á hámarkshlutdeild hverrar framleiðslueiningar innan sömu framleiðslugreinar, í því skyni að ná fram markmiðum um framleiðsluöryggi og til að hindra fákeppni.

2. Að komið verði á fót sérstöku innra eftirliti með því að vara sé ekki seld langtímum saman undir sannanlegu kostnaðarverði.“ — Þarna er verið að vitna til þess að niðurboð var á kjöti þegar heilu bankarnir ráku kjötbúin, svínabúin, og gátu þess vegna ákveðið hvaða verð var á því hverju sinni. Við munum þann tíma og sá tími getur þess vegna komið aftur. — „Jafnframt verði hugað að breytingum á samkeppnislögum í sama tilgangi.

3. Að öll kjötframleiðsla í landinu lúti sömu grundvallarskilyrðum varðandi starfsleyfi.

4. Að skilyrði verði sett í starfsleyfi bús, um að það hafi yfir að ráða nægilega stóru landi til að dreifa á búfjáráburði, í samræmi við íslenskar aðstæður.“

Þarna eru tilgreind atriði sem snerta landbúnað framtíðarinnar, sjónarmið sem hefði einmitt átt að koma líka í sauðfjársamninginn.

Búnaðarþing ályktar svo áfram árið 2004, með leyfi forseta:

„Búnaðarþing árið 2004 beinir því til landbúnaðarráðherra að skipuð verði nefnd til að kanna umgjörð og starfsskilyrði landbúnaðarins. Markmiðið verði að tryggja, eftir því sem unnt er, að íslenskir framleiðendur og neytendur búi við ákveðið framleiðsluöryggi.“ — Segja má að sauðfjársamningurinn hafi það að hluta til að markmiði. Það er alveg rétt.

„Sérstaklega verði hugað að eftirfarandi:

1. Að sett verði hámarkshlutdeild einstaka framleiðslueininga innan hverrar framleiðslugreinar, byggt á öryggis- og umhverfissjónarmiðum fyrir neytendur og framleiðendur.“ — Þarna eru sem sagt dregnir saman hinir sameiginlegu hagsmunir bæði neytenda og framleiðenda hvað þetta varðar.

„2. Að opinbert eftirlit með búvöruframleiðslu verði samræmt um land allt. Einnig að skilyrði starfsleyfa verði samræmd í þeim greinum þar sem þeirra er krafist.

3. Að starfsleyfisskyld bú geti sýnt fram á að þau hafi nægilegt land til dreifingar á búfjáráburði, eða að þau geti ráðstafað honum á annan viðunandi hátt, í samræmi við íslenskar aðstæður og umhverfissjónarmið.“

Í þessum ályktunum er verið að draga mun sterkar inn umhverfissjónarmiðin varðandi íslenskan landbúnað en það sem við sjáum í þeim samningi sem hér er.

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda ályktar, 7. apríl árið 2005, með leyfi forseta:

„Skilyrði fyrir greiðslum úr sauðfjársamningi er að greiðsluþegi hafi fasta búsetu á svæðinu (innan 50 km) þar sem framleiðslan fer fram. Sé sauðfjárbú rekið af lögaðila skal einn af eigendum, sem á að lágmarki 25% af félaginu, hafa búsetu á svæðinu þar sem framleiðslan fer fram.“

Þarna eru þeir að leggja áherslu á fjölskyldubúin og að þau séu í eigu og forsjá þeirra sem sitja og búa á jörðunum, það sé meginreglan.

Síðan kemur í ályktun frá búnaðarþingi einnig, 10. maí 2005, með leyfi forseta:

„Búnaðarþing 2005 beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að meta hvort setja eigi reglur, og þá hvers konar, um hámarkshlutdeild framleiðslueininga í beingreiðslum í landbúnaði.“ — Akkúrat það sem ég er að benda á að hefði átt að skoðast við gerð sauðfjársamningsins. — „Hópurinn fái enn fremur það hlutverk að meta hvort þörf sé á aðgerðum sem beinast gegn samþjöppun á eignarhaldi bújarða. Stjórn Bændasamtaka Íslands leiti eftir því við Landssamband kúabænda, Landssamtök sauðfjárbænda og Samband garðyrkjubænda að þau tilnefni einn mann hvert í starfshópinn og að tveir komi frá stjórn Bændasamtaka Íslands.“

Nú er mér kunnugt um að Bændasamtökin hafa skipað nefnd til að kanna samþjöppun á jörðum en í þessu áliti þeirra, um að setja hámark á hlutdeild einstakra lögaðila í búgreinum til beingreiðslna, benda þeir á að fara ætti að horfa til þess. Það er reyndar þegar komið í mjólkurframleiðslunni, lítillega, eins og ég vék að áðan. Ég hefði talið að það ætti líka að færa það í sauðfjársamninginn áður en búin eru orðin það stór að mönnum finnist orðið óþægilegt að fara að beita slíkum aðgerðum. Þetta er að mínu viti mjög mikilvægt til að búa sáttmála milli ríkisins og búgreinarinnar þá umgjörð sem eðlileg er.

Ég ætla síðan, frú forseti, að víkja aðeins frekar að samningnum með tilliti til þeirra markmiða sem í honum eru og hvar veikleikarnir eru. Í 4. gr. samningsins er tíundað að hluti fjármagnsins skuli renna til svæðisbundins stuðnings. Talað er um 43 millj. kr. á ári sem renni til svæðisbundins stuðnings. Það er vissulega pólitísk yfirlýsing um að sauðfjárræktin sé mjög mikilvæg fyrir búsetu og atvinnulíf á tilteknum svæðum. Það vitum við sem þekkjum vel til að það er einmitt svo. Ég verð að segja að mér finnst upphæðin vera allt of lág. Upphæðin sem kæmi þarna inn til jöfnunar ætti að vera hærri. Einnig hef ég grun um að reglurnar sem gilda um úthlutun á þessu fjármagni, þetta var upprunalega bundið við u.þ.b. 7.500 ærgildi sem samið var um að færi í þennan svæðisbundna stuðning, séu með þeim hætti að einmitt þau bú sem helst þyrftu á þessu að halda hafi ekki eðlilegan aðgang að stuðningnum en fyrst og fremst er hann lágur.

Síðan er gert ráð fyrir að verja 80 millj. kr. á ári í nýliðun og átaksverkefni. Reglurnar í því eru reyndar ekki tilgreindar nákvæmlega en þær eru sjálfsagt útfærðar sérstaklega. Af þessum 80 millj. kr. er gert ráð fyrir því að til nýliðunar í stétt sauðfjárbænda verði varið 35 millj. kr. á ári í formi styrkja til bústofnskaupa, bæði til frumbýlinga og við ættliðaskipti á jörðum. Þarna er einmitt nefnt það atriði sem ég tel langveikast varðandi sauðfjárræktina. Það eru möguleikarnir til nýliðunar og möguleikarnir til ættliðaskipta á jörðum. Þegar framleiðslurétturinn, greiðslumarkið gengur kaupum og sölum og það verður að leysa það út með fjármagni, jarðaverð hefur hækkað gríðarlega og öll umgjörðin um það að stofna bú, þá er það ekkert smámál fyrir nýjan aðila að koma inn í búskap, hvort sem er til að taka við jörðinni, því þá verður oft að leysa út eignarhluta annarra á markaðsvirði eða kaupa sig inn og þetta er orðinn einn erfiðasti þátturinn varðandi landbúnaðinn, þ.e. hvað erfitt er með nýliðun. Atvinnugrein sem hafa verið búin þau skilyrði að nýliðun sé mjög erfið er á hættulegri braut. Ég held að ef við eigum að uppfylla þær pólitísku væntingar sem gerðar eru, en þær komu m.a. fram í skoðanakönnun sem ég var að vitna til sem var gerð meðal almennings í landinu sem vill öflugan, traustan og góðan landbúnað til framtíðar, þá verðum við heldur betur rækilega að huga að þessum hinum veikasta þætti í sauðfjárræktinni, sem er möguleiki til nýliðunar.

Illu heilli lögðu menn niður Lánasjóð landbúnaðarins, lögðu hann inn í markaðspúkkið í peningaheiminum. Lánasjóðurinn hafði einmitt það hlutverk að veita lán, kannski það pólitíska stóra hlutverk að veita sérstök lán til bygginga og búskapar í sveitum. Ég man að við þingmenn Vinstri hreyfingar – græns framboðs lögðum til að lánasjóðnum væri breytt í þá veruna að hann væri til stuðnings nýliðunar í sveitum. Ég er enn þeirrar skoðunar að það hefði átt að gera. Nú er verið að reyna að koma fátæklega til móts við þetta í sauðfjársamningnum með því að tileinka þar ákveðið fjármagn til nýliðunar og til að taka við búum. Menn eru að átta sig á því gapi sem varð þegar þeir misstu lánasjóðinn og eru núna aftur að reyna að koma þessu inn í, þ.e. að ríkið komi að stuðningi við nýliðun og nýja bændur en þetta er bara svo ósköp smátt. Það sér hver heilvita maður að 35 millj. kr. á ári til þessa atriðis, þó að það sé virðingarverð viðleitni þá dugir það á engan hátt að mínu mati til að taka á þeirri þörf sem þarna er. Skortur á nýliðum og möguleikum nýrra til að koma inn í landbúnaðinn er einmitt ein mesta ógn þessarar búgreinar sem við viljum að sé öflug og eftirsótt og möguleikarnir til að koma inn í hana séu líka fyrir hendi. Þetta vil ég nefna, frú forseti.

Sama er með þennan svæðisbundna stuðning. Við tölum um það og hæstv. landbúnaðarráðherra hefur meira að segja gert það og oft talað vel um hina pólitísku þýðingu sauðfjárræktarinnar fyrir búsetu í landinu. Hvað það varðar erum við sammála. En þá þurfum við líka að láta það sjást í verki og möguleikarnir til þess eru einmitt í gegnum svona sauðfjársamning. Ég tel hann einum um of framleiðslutengdan en taka ekki nægilegt tillit til þeirra pólitísku markmiða sem sett eru um möguleika sauðfjárræktarinnar og eflingu hennar og þar á meðal er líka svæðisbundinn stuðningur. Við vitum að mörg svæði sem standa nokkuð veikt hvað atvinnu varðar eru mjög háð því að sauðfjárræktin sé, þ.e. þar sem menn sækja aðra atvinnu en sauðfjárræktina. Við viljum ekki að þessi svæði fari í eyði, við viljum halda þeim í byggð. Við viljum viðhalda öflugu mannlífi og þar er sauðfjárræktin og atvinnugreinar tengdar henni grunnurinn.

Þess vegna held ég að okkur öllum finnist sá stuðningur sem hérna er veittur sérstaklega til svæðisbundins stuðnings, upp á 43 millj. kr. á ári, allt of lágur. Við hefðum viljað sjá þar hærri tölur til þess að koma til móts við þessa þörf og koma til móts við þá pólitísku sýn sem við viljum standa vörð um um byggðir landsins, búsetu og uppbyggingu sauðfjárræktarinnar. Ég tel að þarna hefðu átt að vera nokkuð aðrar áherslur.

Síðasta málið sem ég ætla síðan að víkja að, frú forseti, er útflutningsskyldan. Á undanförnum árum var gerður samningur um og sett í lög að landbúnaðarráðherra gæti á grundvelli ákveðinna forsendna gripið til og skyldað framleiðendur og afurðastöðvar til að flytja út ákveðinn hluta framleiðslunnar til að tryggja stöðugleika bæði á innlendum markaði og líka til að tryggja stöðugleika í framleiðslu í greininni.

Við vitum að í sauðfjárrækt getur framleiðslan breyst á milli ára, bara vegna breytinga á árstíðum, breytinga á veðri og breytinga á heyskap, þó að það sé æ minna eftir því sem tæknin er meiri, en engu að síður er það. Skattlagning og verðástandið í þjóðfélaginu sem sauðfjárbændur hafa kannski engin bein áhrif á getur verið með þeim hætti að neyslan á vörunni getur sveiflast til. Það eru ýmis atriði sem bændur hafa ekki bein áhrif á sem geta samt haft mikil áhrif á framleiðsluna þannig að hún sveiflast til á milli ára. Áfram höfum við það sem markmið að tryggja að hér sé alltaf á boðstólum og uppfyllt eftirspurn eftir hollum og góðum landbúnaðarvörum og þá verðum við líka að búast við að geta tekið á okkur svona sveiflur án þess að það skerði tekjuafkomumöguleika einstakra bænda eða þeir fari að taka það persónulega á sig. Þess vegna var þessi útflutningsskylda sett á, að landbúnaðarráðherra hefði heimild til þess að beita henni, til að tryggja jöfnuð í slíkum sveiflum ef á þyrfti að halda.

Síðan hafa menn rætt um möguleika á útflutningi á ákveðnu verði en að meginstofni er þetta pólitísk aðgerð. En nú er gripið til þess að fella brott heimild ráðherrans til þess að beita útflutningsskyldu. Það hafa samtök bænda bent á að sé mikið óráð og ég tel að ef við horfum á hagsmuni neytenda þá sé það líka mikið óráð að fella niður útflutningsskylduna því það skapar bara hættu á enn þá meiri sveiflum og áhættu innan greinarinnar. En þetta var einmitt eitt af þeim atriðum sem steytti á í samningum milli sauðfjárbænda og ríkisins. Eftir því sem mér hefur verið tjáð hafa fulltrúar ríkisins nánast sett hnefann í borðið og sagt að ef samningar ættu að nást um aðra þætti samningsins þá væri það krafa af hálfu ríkisins að útflutningsheimildin væri felld niður.

Ég skil þetta ekki og mér finnst þetta mjög óábyrgt af hálfu stjórnvalda, því það er svo útlátalítið að hafa þessa heimild inni. Það þarf ekki að beita henni nema í þeim tilvikum þar sem bæði hagsmunir framleiðenda og neytenda geta beðið hnekki. Þetta er þá hluti af þeirri umgjörð sem við viljum skapa greininni til að tryggja bæði öryggi í framleiðslu og einnig öryggi gagnvart neytendum. Þess vegna var svo útlátalítið að hafa þessa heimild inni í lögum þó að farið yrði mjög sparlega í að grípa til hennar.

Bændur töldu að þó að þeir yrðu að láta undan og þeim væri stillt upp við vegg hvað útflutningsskylduna varðaði, þá töldu þeir sig samt vera búna að ná því að samningurinn kvæði á um að það eða það væri heiðursmannasamkomulag um að lögunum yrði ekki breytt á þessum vetri hvað það varðaði að afnema útflutningsskylduna heldur yrði beðið næsta vetrar. Þannig gæfist visst svigrúm til þess að átta sig á þessum forsendum. Þannig segja þeir að málin hafi verið kynnt meðal bænda, það hafi verið heiðursmannasamkomulag um að lögunum hvað varðaði útflutningsskylduna yrði ekki breytt. En síðan þegar lagafrumvarpið kemur fram þá er það einn liðurinn í því lagafrumvarpi sem við erum að tala um, að afnám útflutningsskyldunnar verði komið strax inn í lög. Í tilefni af því hafa þrír fulltrúar í félagi sauðfjárbænda, í samninganefndinni, sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu til landbúnaðarnefndar hvað þetta varðaði og ég vil fá að lesa hana upp, með leyfi forseta:

„Til landbúnaðarnefndar Alþingis, Drífa Hjartardóttir.

Við undirrituð sem störfuðum í samninganefnd bænda um nýgerðan sauðfjársamning gerum eftirfarandi athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Við mótmælum harðlega þeirri breytingu sem kemur fram í 23. gr. frumvarpsins, en þar segir: „Frá og með 1. júní 2009 fellur útflutningsskylda kindakjöts skv. 29. gr. laga nr. 99/1993 brott.““

Þetta er sem sagt komið strax inn í frumvarpið. Og áfram segir í þessu erindi bændanna:

„Eftir að samninganefnd bænda hafði fallist á að útflutningsskylda kindakjöts skyldi falla niður frá og með 1. júní 2009 var alltaf samkomulag um að lagabreyting sem staðfesti þetta yrði lögð fram á haustþingi 2008 en ekki nú.“

Lagabreytingin var framan af í lagatextanum, ég er með eitt eintak þar sem það stendur: vinnuplagg, þannig að það þýðir ekkert að neita því ef einhverjum dettur það í hug. Þetta var síðan tekið út, eins og þeir segja á grundvelli þess að heiðursmannasamkomulag þurfi ekki að vera inni. Eins og segir í bréfinu, með leyfi forseta:

„Framan af var þetta ákvæði inni í samningstextanum en var fellt niður undir lokin eftir að lögfræðingur landbúnaðarráðuneytisins taldi það betra og mundi engu breyta þar sem fullt samkomulag væri um að þetta kæmi ekki fram fyrr en 2008. En nú bregður svo við að þetta er sett inn í lagatextann.“

Og áfram segir í bréfinu:

„Í öllu kynningarferlinu var bændum greint frá þessu. Á þessum fundum voru annars vegar fulltrúar bænda og hins vegar stundum landbúnaðarráðherra eða aðstoðarmaður hans og tóku undir þetta sjónarmið eða mótmæltu ekki.“

Síðan segir feitletrað í lok bréfsins:

„Við undirrituð mótmælum þessu harðlega og skorum á landbúnaðarnefnd Alþingis að sjá til þess að við áðurnefnt fyrirheit verði staðið.“

Undir þetta rita Gunnar Sæmundsson bóndi, Jóhanna E. Pálmadóttir bóndi og Fanney Ólöf Lárusdóttir bóndi.

Mér finnst þetta mjög alvarlegt óháð pólitískum skoðunum hvers og eins á því hvort útflutningsskyldan sé felld brott eða ekki. En ef þetta hefur verið með þeim hætti sem greint er frá hér, og ég hef enga ástæðu til að rengja og trúi ekki að neinn rengi það í sjálfu sér, er hægt að taka þetta ákvæði út og setja það inn í lagatexta á allt annan hátt en litið er á sem hluta af því samkomulagi sem gert var.

Ég hef því, frú forseti, ákveðið að leggja fram breytingartillögu sem er að mörgu leyti samhljóða breytingartillögu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Við höfum rætt þetta en ég var ekki alveg viss um að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mundi leggja fram breytingartillögu og lagði því mína fram. Hún er orðuð á annan hátt og ég vil leyfa mér að lesa hana hér upp, það sem lýtur að útflutningsskyldunni. Lagt er til að 2. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Í stað 3.–6. mgr. 29. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, sem hljóða svo:

Landbúnaðarráðherra getur ákveðið að tiltekið hlutfall dilkakjöts skuli flutt á erlendan markað. Slíka ákvörðun skal aðeins taka ef ráðherra metur stöðu kjötbirgða, framleiðslu- og söluhorfur með þeim hætti að fyrirsjáanlegt sé verðhrun eða afkomubrestur hjá sauðfjárbændum og að fengnu áliti Bændasamtaka Íslands. Slíka ákvörðun skal tilkynna fyrir 1. ágúst ef hún á að gilda fyrir sláturtíð að hausti og getur hún gilt fyrir allt að tólf mánaða framleiðslu- og sölutímabil.

Hafi landbúnaðarráðherra ákveðið útflutningshlutfall skv. 3. mgr. er sláturleyfishafa skylt að leggja til kjöt til útflutnings samkvæmt ákvörðun hans. Geri hann það ekki skal innheimta af honum gjald sem landbúnaðarráðherra ákveður og skal svara til mismunar á áætluðu heildsöluverði og viðmiðunarverði sem miðast við meðalverð fyrir útflutt dilkakjöt í heilum skrokkum undanfarna tólf mánuði. Allir framleiðendur dilkakjöts skulu taka þátt í þessum útflutningi eða sæta útflutningsuppgjöri fyrir sama hlutfall af framleiðslu sinni.“

Þarna legg ég áherslu á að þessi heimild sé inni fyrir ráðherra til að grípa til ef nauðsyn kallar og ef það er nauðsynlegt vegna greinarinnar, markaðarins og neytenda. Ég tel að okkur beri skylda til að hafa slík atriði inni. Þessi heimild hefur verið mikilvægur þáttur í umgjörð sauðfjárræktarinnar á undanförnum árum, þó að við vonum að ekki þurfi að beita henni. Það væri mjög óábyrgt að kippa henni burt í einu vetfangi. Samtímis er verið að rýmka heimildir til innflutnings á erlendum landbúnaðarvörum, sem eru samkeppnisvörur við sauðfjárræktina. Gott og vel. Við vitum ekki enn hver áhrif það hefur á stöðugleika innlendrar framleiðslu, innlendrar kjötvinnslu og matvælavinnslu o.s.frv.

Ef við viljum vera heiðarleg gagnvart greininni og gagnvart neytendum eigum við að halda þessari umgjörð með þeim hætti sem hún verið, þ.e. heimild ráðherra til að grípa inn í ef nauðsyn krefur, bæði hvað varðar hagsmuni framleiðenda og hagsmuni neytenda. Vonandi þurfum við ekki að grípa til hennar. Vonandi verða hlutir með þeim hætti að hagsmunir allra aðila verði tryggðir án þess en það væri mjög óábyrgt að hafa heimildina ekki til staðar.

Sá munur er á breytingartillögu minni og tillögu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem er efnislega á sömu lund og mín, að ég tel að ábyrgðin á heimildinni eigi að vera í höndum landbúnaðarráðherra en ekki Bændasamtakanna eins og hann leggur til. Varðandi útflutningsskylduna tel ég eðlilegt að við mundum kanna hvort ekki væri hægt að samræma þessi atriði.

Frú forseti. Ég hefði talið að hafa ætti samninginn um sauðfjárræktina á breiðari grunni. Tryggja hefði þurft aðkomu annarra þingflokka en ríkisstjórnarflokkanna. Það er mikill vilji, bæði á þingi og meðal allrar þjóðarinnar, til að standa vörð um öflugan íslenskan landbúnað. Það er enginn sem vill svara á þann veg að hann vilji ekki gera það. Þá er þetta líka mikilvægt fjöregg sem við erum saman með í höndum okkar. Nýgerð skoðanakönnun sýndi að yfir 90% þjóðarinnar, þeirra sem voru spurðir, vilja að staðinn sé vörður um öflugan íslenskan landbúnað og hollustu íslenskra landbúnaðarvara. Við eigum að halda vel utan um það fjöregg. Það er mjög dýrmætt. Við eigum því að standa saman, hafa meira samvinnu við gerð svona samninga en gert var varðandi þennan samning. Engu að síður geri ég ráð fyrir að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs muni styðja að málið fari hér í gegn. En ég legg áherslu á breytingartillöguna sem ég flyt um heimild til að breyta útflutningsskyldu. Ég tel hana mjög mikilvægan þátt í þessum samningi til að undirstrika þá ábyrgð og þær skyldur sem bæði þingið og þjóðin vill axla varðandi íslenskan landbúnað og íslensku sauðfjárræktina. Ég hvet þingið til að samþykkja tillöguna sem ég hef lagt fram.