133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[13:01]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur hér uppi athyglisverð sjónarmið hvað varðar útflutningsskylduna. Það virðist ekki sem hv. þingmaður hafi neinar áhyggjur af því hvaða verð neytendur fá hér á vörum. Það hefur verið reiknað út hjá WTO að menn séu að tala um 1,5 milljarða á ári sem bætast ofan á stuðning við bændur með því að hafa þessa útflutningsskyldu á.

Þar fyrir utan er útflutningsskyldan sennilega brot á samkeppnislögum og afar óeðlilegt fyrirkomulag. Ég bið menn bara að velta því fyrir þér ef tekið yrði upp á því að setja einhverjar svona reglur um aðrar atvinnugreinar þar sem einstakir framleiðendur í greininni væru skyldaðir til að flytja framleiðslu sína á aðra markaði en þeir kjósa að selja á (Gripið fram í: Og á lægra veði.) og á lágu verði.

Ég spyr bara: Finnst hv. þingmanni ekki nóg að ríkissjóður greiði 500 kr. með hverju einasta kílói af dilkakjöti sem er undir greiðslumarki? Finnst hv. þingmanni það ekki nóg? Eiga menn ekki að geta staðið í lappirnar og keppt á markaði með slíkan stuðning frá ríkinu upp á vasann?

Ég held að Vinstri grænir skuldi neytendum útskýringar á afstöðu sinni, að þeir skuli sækja fram hér og heimta að haldið verði uppi óeðlilegu kerfi sem þessi útflutningsskylda er, eingöngu til þess að bæta því ofan á þann stuðning sem fyrir hendi er í sauðfjárframleiðslunni. Hvað er hæstv. verðandi landbúnaðarráðherra að fara?