133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[13:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður velkist í vafa um stefnu Vinstri grænna í landbúnaðarmálum liggur hún fyrir. Ég hef m.a. rakið hana hér. Hins vegar get ég alveg skilið vandamál hv. þingmanns, ég veit ekki alveg um stefnu Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum. Hún er sérstök og kannski vantar meiri heild án þess að ég ætli nokkuð að ræða hana hér.

Hitt ætla ég að segja að það er verið að gera þennan samning um sauðfjárræktina. Menn geta deilt um hvort eigi að gera svona samning eða ekki. Það er pólitísk ákvörðun að svona samningur sé gerður. Hann hefur verið gerður undanfarin ár. Hann hefur tekið til ákveðinna þátta sem hafa snúið að framleiðendum, líka pólitískum markmiðum eins og búsetu og tryggingu á framboði á landbúnaðarvörum og enn fremur hafa þeir þar af leiðandi snúið líka að neytendum með framboði á hollum og góðum vörum.

Almenningur í landinu hefur sýnt það, m.a. í nýjustu Gallup-könnun, að yfir 90% af þjóðinni vilja standa vörð um þetta. Eigum við bara að segja að það komi okkur ekkert við? Eigum við bara að segja að þessi sameiginlegi vilji, þessi sterki vilji þjóðarinnar um öflugan íslenskan landbúnað, hollar landbúnaðarvörur, komi okkur bara ekkert við? Ég er ekki þeirrar skoðunar.

Ég tel að við eigum að búa þessari búgrein einmitt þá umgjörð sem standi undir þeim væntingum sem almenningur í landinu gerir, einmitt vegna hagsmuna almennings. Þá verðum við líka að vara okkar á því að grípa til aðgerða sem geta veikt þessa stöðu. Við skulum vona að ekki þurfi að grípa til þessarar heimildar um útflutningsskylduna en henni hefur verið beitt á undanförnum árum til að styrkja þennan grunn. Menn geta deilt um hvort það hafi verið rétt.

En fáránlegt er gagnvart greininni og neytendum að kippa henni bara allt í einu í burt, (Gripið fram í.) það er bara fáránlegt. (Forseti hringir.) Þess vegna verðum við að (Forseti hringir.) standa vörð um það að hún sé með nokkuð (Forseti hringir.) trausta umgjörð þótt útflutningsheimild sé, og vonandi þarf aldrei að beita henni.