133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[13:40]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Fjallar frumvarpið aðallega um samning við sauðfjárbændur.

Við getum haft skiptar skoðanir á því hvort og hvernig eigi að styrkja landbúnað hér á landi eða yfirleitt í heiminum, en það er viðurkennt að landbúnaður flestra landa þurfi ákveðinn stuðning. Það er m.a. gert til að tryggja framleiðslu á matvörum, að tryggja holla og góða matvöru og í rauninni að tryggja fæðuframboð í viðkomandi landi. Það þykir öllum þjóðum eðlilegt að hvert land sé sem næst því að brauðfæða þjóð sína og tryggja það að framleiðsla á landbúnaðarvörum sé til staðar.

Margt hefur breyst á síðustu öld og núna á allra síðustu tímum þegar flutningar landshorna, landsvæða og heimsálfa á milli hafa aukist og nú er flogið með korn, sáðvöru og jafnvel viðkvæma vöru eins og grænmeti heimshornanna á milli. Hin svokallaða hnattvæðing stuðlar að því að hinar iðnvæddu þjóðir nýta sér markaði þar sem vinnuframlag er ódýrt og auðvelt að rækta eða framleiða þær vörur sem vantar í viðkomandi landi. Þar með hefur innflutningur á ýmsum vörum breyst, bæði útflutningur og innflutningur á vörum hefur breyst hin síðari ár. Þetta er að sumu leyti góð þróun en að mörgu leyti líka mjög slæm þróun fyrir heimsbyggðina með tilliti til þess að hinar ríku þjóðir eru oft að nota bágt ástand í þróunarríkjum til þess að fá ódýrt vinnuafl eða notfæra sér löggjöf sem er ekki það trygg eða það sterk að hún hindri að notað sé eiturefni eða vöru eins erfðabreytta framleiðslu þar sem viðkomandi efni eða vara væri bönnuð í þeim löndum sem varan er svo flutt til. Við sem búum í hinum sterkari og þróaðri iðnríkjum heims fleytum því rjómann af þessari þróun en vanþróaðri ríki þar sem vinnuaflið er ódýrt fá að vísu möguleika til atvinnutækifæra en að sama skapi er launum haldið niðri og verið að nota efni á mörgum stöðum sem eru ekki æskileg.

Þetta kemur aðeins inn á sauðfjársamninginn að því leytinu til að við verðum að horfa til þess að fylgja búskaparháttum og styrkjum nágrannalanda okkar og því sem viðgengst. Við þurfum líka að fylgja þeirri þróun og sjá með hvaða hætti best er að styrkja byggð í landinu og framleiðslu bænda án þess að það valdi háu vöruverði eða komi á einhvern annan hátt við búskap í sveitum landsins eða raski búskap. Beingreiðslur til bænda í þeirri mynd sem við höfum fram til þessa stundað, þ.e. framleiðsluhvetjandi greiðslur, eru á undanhaldi en þær eru í þessum samning. Greiðslur til bænda sem frekar stuðla að öruggari búsetu, ræktun og búsetu í sátt við umhverfið og sjálfbæra þróun, eru styrkir sem eru, að ég tel, styrkir framtíðarinnar og að því umhverfi verður Alþingi og bændastéttin að laga sig og bændur eru að því.

Það er önnur þróun í gangi og hún hefur náð bólfestu hér á landi, það er að ná tryggari framleiðslu með hagkvæmni stærðarinnar, þ.e. búin hafa verið að stækka og á það aðallega við um kjúklingabúin, svínaræktina og mjólkurframleiðsluna núna. Þessi þróun er greinilega að teygja anga sína í sauðfjárræktina líka, búum fækkar, búin stækka og beingreiðslurnar til sauðfjárbænda og til mjólkurframleiðslunnar, kvótinn, gengur orðið kaupum og sölu. Þar af leiðandi getur þetta kerfi okkar og sú þróun sem þarna hefur orðið einnig orðið til þess að búseta í sveitum veikist því að bændur verða færri þó að búin stækki og það hefur áhrif á búsetu annarra í viðkomandi sveitarfélagi og viðkomandi svæði getur veikst að þessu leyti.

Ef við erum sammála því að styrkja þurfi bændur til framleiðslu í sauðfjárræktinni og mjólkurframleiðslunni, þá skiptir líka máli hvernig við gerum það. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum tryggja örugga matvælaframleiðslu og við viljum standa þannig að verki að við getum verið örugg með að brauðfæða landsmenn. Við viljum tryggja matvælaöryggi og því viljum við stuðla að styrkjum til bænda og gera samninga við viðkomandi félög bænda eins og hér er verið að gera við bændur í sauðfjárframleiðslu. Eins og hæstv. landbúnaðarráðherra sagði fyrr í dag fara þessir samningar fram eins og hverjir aðrir samningar á milli launþega og atvinnurekanda eða hins opinbera. Þessir samningar eru ef til vill örlítið flóknari og snerta fleiri en eingöngu bændur, en það er mikilvægt að samningar sem þessir séu gerðir til langs tíma, hvort heldur það er í sauðfjárræktinni, mjólkurframleiðslunni eða skógræktinni þar sem framleiðsluferlið er á þann veg að bændur verða að vita hvernig samningarnir standa nokkur ár fram í tímann. Þetta er eðlilegt.

Mér þótti nokkuð miður að verða vitni að og hlusta á lestur bréfs frá fulltrúum sauðfjárbænda þar sem þeir rekja með hvaða hætti þeir telja að vanefndir séu í samningnum, að það sem þeim hafði verið lofað að yrði í samningnum hefði verið tekið út, þ.e. að í samningnum ætti áfram að vera kveðið á um útflutningsskylduna en það ákvæði yrði svo tekið upp aftur 2008 þegar komin væri einhver reynsla á aukinn innflutning á kjötvörum, því að þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar á niðurfellingu á tollum og heimild til innflutnings á kjötvörum munu hafa áhrif á sauðfjárframleiðsluna og eins á nautakjötsframleiðslu, svínakjötsframleiðslu og kjúklingaframleiðslu. Ef við höfum lært eitthvað af markaðsmálum þar sem offramboð er á íslenska markaðnum þá höfum við mörg dæmi en nýlegustu dæmin eru að öllum líkindum offramleiðsla bæði í kjúklingaframleiðslunni og þó sérstaklega í svínakjötsframleiðslunni sem var nærri búin að setja þá framleiðslu alla á hausinn. Af þeim sökum tel ég að það þurfi að varast allar kollsteypur. Ef aukinn innflutningur á kjöti hefur áhrif á sölu á íslensku lambakjöti á innanlandsmarkaði mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Þar sem framleiðsluferlið er langt þurfa bændur að hafa möguleika á að aðlagast breyttum aðstæðum. Þar af leiðandi tel ég að útflutningsskyldan eða möguleikar til útflutnings sem stýritæki hefði átt að vera enn þá inni.

Hæstv. forseti. Þar sem ég tel að aukinn innflutningur á kjöti muni halda markaðnum í nokkurri óvissu þrátt fyrir samninginn tel ég að við þurfum sem neytendur að horfa á það innflutta kjöt sem kemur á markaðinn, við þurfum að skoða verðið. Við höfum örugglega möguleika á því að flytja inn kjöt sem er mun ódýrara en íslensk framleiðsla, hvort heldur það er svínakjöt, kjúklingakjöt eða nautakjöt. Þar með tel ég að hagsmunum neytenda sé ekki að öllu leyti borgið því að það sem mér finnst skipta miklu máli er að við höfum upplýsingar um það og að fyrir liggi hvers konar kjöt þetta er. Hvaða gæði erum við að flytja inn? Hægt er að benda á reynslu Dana, sem gerð var skil í einu dagblaðanna í gær eða fyrradag, sem ég hafði fengið upplýsingar um að Danir höfðu verið að berjast við sýkingar í kjúklinga- og svínakjötsframleiðslunni hjá sér, stafýlókokka- og kampýlóbaktersýkingar. Þeir fóru í mjög róttækar aðgerðir og réðust á vandann til þess að framleiða heilnæmari og betri vöru neytendum í hag. Danski markaðurinn er opinn fyrir innflutningi af Evrópska efnahagssvæðinu og þegar þeir fóru að skoða kjötvörur sem voru til sölu í verslunum í Danmörku kom í ljós að margt af því sem var þar í kjötborðunum var í raun ekki mannamatur. Kjötið var yfirfullt af bakteríum og sýkt vara, hvort sem það kom þannig frá bóndanum, hvort það kom upp í sláturhúsinu eða hvort það magnaðist upp sýking á löngum flutningi eða hvernig það var en alla vega var mikill munur á gæðum vörunnar hvað þetta varðaði á danskri vöru og innfluttri en þarna var innflutta varan mun ódýrari. Þannig var verið að höfða til neytenda að það væri þeirra hagur að kaupa hið ódýra kjöt.

Þegar við horfum á íslenska framleiðslu fáum við því miður sem neytendur ekki að njóta þess að sjá hvað við höfum í höndunum þegar kemur að samanburði við innflutt kjöt því að það vantar allar merkingar. Eina sem við höfum eru verðmerkingarnar, annað hefur neytandinn ekki. Fyrir bóndann skila gæðin sér að einhverju leyti í verði til bóndans, allt of lítið að mínu mati, hvort sem hann er í gæðastýrðri framleiðslu eða ekki. En þetta rennur allt saman út í sömu bakkana í kjötborðinu hvort heldur það er framleiðsla frá bónda sem er með gæðastýringu og tekur á sig það sem sú framleiðsla krefst eða hvort að það er frá bændum þar fyrir utan sem hafa ekki sama eftirlit og þessir bændur. Þetta er hluti af því sem ég hvet íslenska sauðfjárbændur og aðra bændur til að huga vel að, að ef að við ætlum að standast innfluttu kjöti einhvern snúning, þ.e. við vitum að barist verður um verðlagið. Við getum ekki keppt við vinnuafl sem tekur lægri laun, bændur og sérstaklega sauðfjárbændur geta ekki farið neðar hvað varðar afkomu og tekjur af sauðfjárræktinni. Við munum því að öllum líkindum verða með kjötverð sem er og verður hærra en á innfluttu kjöti og þá er það okkur auðvitað til vansa, bændastéttinni eða þeim sem hafa staðið í vegi fyrir því að koma vörunni til neytenda þannig að við getum vitað hvaða vöru við erum með í höndunum.

Þá vil ég nefna það líka að mér finnst metnaður í sauðfjárræktinni ekki vera nægilega mikill hvað varðar hlutfall lífrænt ræktaðrar vöru. Það verður að segjast eins og er að ég tel eðlilegt að sauðfjárbændur sjálfir hafi ekki mikinn metnað eða þörf eða áhuga á að fara út í slíka framleiðslu því að í fyrsta lagi vantar stuðninginn, það vantar hvatann og það vantar allt aðgengi bæði að sláturhúsum og markaði til þess að þessi framleiðsla verði áhugaverð og gefi eitthvað í aðra hönd. Ég tel að þetta séu hlutir sem við þurfum að skoða.

Hæstv. forseti. Ég ætla á eftir að fara nokkrum orðum um frumvarp sem ég hef flutt og hefur orðið eftir á borðinu mínu. Ég ætla að biðja hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um að rétta mér frumvarpið sem er í sæti nr. 29.

Hæstv. forseti. Ég bað hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að færa mér gögn sem liggja á borðinu mínu. Það er eðlilegt að ekki sé mikill áhugi hjá íslenskum bændum fyrir því að fara út í lífrænan landbúnað og þá í framleiðslu á lífrænt ræktuðum dilkum því að það er svo margt sem stendur í vegi fyrir því. Ég tel að hvað varðar lífræna framleiðslu eigi stjórnvöld og þá hæstv. landbúnaðarráðherra einnig sök á því að hafa ekki hvatt frekar til að taka einu skrefi lengra en gert er með gæðastýrðri framleiðslu því að með henni er lagður mjög góður grunnur að því að fara út í lífrænt vottaða framleiðslu. Þarna tel ég vanta skilning, áhuga og metnað fyrir hönd þeirra bænda sem gætu farið í þessa framleiðslu.

Það skiptir miklu máli, hæstv. forseti, að það sé jafnvægi í sauðfjárframleiðslunni, jafnvægi á innanlandsmarkaðnum og eins hvað varðar útflutning, hvort sem hann er samkvæmt útflutningsskyldu eða að bændur finni sér sjálfir markaði. Auðvitað skiptir máli að hinn erlendi markaður sé með þeim hætti að fyrir kjötið fáist ásættanlegt söluverð. Það gengur ekki til lengri tíma að niðurgreiða þessa vöru en því miður höfum við þurft að gera það fram undir þetta til að koma henni hreinlega inn á markaðinn og þá sérstaklega Bandaríkjamarkað þar sem möguleikar eru til að fá ásættanlegt verð fyrir kjötið. Slíkir markaðir eru líka mjög viðkvæmir og ef bændur eiga að standa sjálfir í þeirri markaðssetningu og án útflutningsskyldu er eins gott að yfirvöld hafi heildræna sýn á aðrar aðgerðir sem geta þá kippt fótunum undan slíkum markaði, eins og t.d. hvalveiðar sem munu hafa og hafa haft áhrif á markaðssetningu á íslensku kjöti í Bandaríkjunum. Einnig það að fara varlega í innflutningi á erfðabreyttu fóðri því að nú er staðan sú að innflutningur á erfðabreyttu fóðri er alls ráðandi í fóðurblöndum og fóðri á markaði okkar og þó svo að meiri hlutinn af þessu fari í fóður til mjólkur- eða nautgripaframleiðslu og sérstaklega þá svína- og kjúklingaframleiðslunnar fer eitthvað af þessu erfðabreytta fóðri einnig í sauðfjárframleiðsluna. Ef sú vitneskja kæmist á leiðarenda og til neytenda er hætt við því að þessum veika markaði yrði endanlega kippt út. Það er ekki nóg að fara í markaðssetninguna og koma vörunni á markað erlendis. Það verður að gæta þess að kippa ekki undan henni fótunum. Það hefur enginn hvatt til þess að fara í offramleiðslu á dilkakjöti en gæðastýringin hefur og mun hafa m.a. takmarkandi áhrif á þá framleiðslu.

Eins og hv. þm. Jón Bjarnason kom hér inn á eru möguleikar til nýliðunar í þessari grein orðnir mjög erfiðir og takmarkaðir. Það hefur orðið fækkun á sauðfjárbúunum. Þau eru orðin stærri. Það er erfiðara fyrir nýliða að kaupa jarðir. Jarðaverð hefur hækkað og þar af leiðandi hefur orðið erfitt fyrir niðja bænda að taka við búum. Ofan á allt bættist svo að Lánasjóður landbúnaðarins var lagður niður þannig að möguleikar okkar til að nota hann til að veita lán til nýliðunar í sveitum eru úr sögunni. Ákvæði um að styrkja ákveðin svæði og veita styrki til nýliðunar eru inni í þessum samningi en þeir eru því miður lágir og þurfa örugglega endurskoðunar við þannig að ég hefði talið það öryggisatriði að endurskoða samninginn 2008 með tilliti til útflutningsskyldunnar og eins með tilliti til þeirrar upphæðar sem hér er getið hvað varðar nýliðun í greininni.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan liggur fyrir þinginu á þskj. 29, 29. mál, tillaga til þingsályktunar um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað. Hún er flutt af mér og þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jóni Bjarnasyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni, og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir aðgerðum til að veita bændum sérstakan aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað sambærilegan þeim sem veittur er annars staðar á Norðurlöndum.“

Þessi tillaga hefur verið flutt fjórum sinnum áður, hefur ekki fengið afgreiðslu og aldrei verið útrædd og er því endurflutt hér óbreytt ásamt ítarlegri greinargerð. Í henni kemur fram að lífrænn landbúnaður er styrktur mun meira annars staðar á Norðurlöndunum og víðast hvar í Evrópu en gert er hér á landi. Við sjáum það líka í verslunum í dag að innflutningur á lífrænt vottuðum vörum, þá sérstaklega matvörum, eykst dag frá degi. Nú er svo komið að í flestum matvöruverslunum landsins eru orðnar sérstakar deildir sem selja eingöngu lífrænt vottaðar vörur, hvort heldur er matvöru, snyrtivöru eða annað. Ég tel að íslenskir bændur séu í raun og veru að missa af lestinni. Af hverju eiga íslenskir bændur ekki að eiga stærri hlutdeild í þeirri söluaukningu sem er á lífrænt vottuðum vörum? Þarna eru tækifæri. Við höfum möguleika á að stuðla að sjálfbærri þróun, styrkari búsetu og verða við kröfu neytenda hvað varðar öryggi og hollustu. Við eftirlátum þessa þörf neytenda öðrum bændum í öðrum löndum og þar af leiðandi drögum við úr mikilvægum þætti sjálfbærrar þróunar, þ.e. bætum við mengun af löngum flutningi á þeim vörum sem hér eru seldar undir vottun lífrænnar framleiðslu. Því nær sem við erum markaðnum með þá framleiðslu því betra er það fyrir umhverfið og náttúruna.

Ég tel að við séum að missa af tækifæri. Við búum í tiltölulega hreinu landi, við búum við aðstæður þar sem í miklu meira mæli er hægt að nota jarðvarma fyrir lífræna ylrækt en gert er í dag. Auk þess virðist hlýnun andrúmsloftsins og hlýnun yfirleitt hafa náð til okkar og þar af leiðandi megi búast við því að öll útiræktun verði auðveldari. Margir bændur hafa verið hræddir við að ekki væri hægt að vera hér með lífrænt vottaða landbúnaðarframleiðslu vegna þess hversu norðarlega við búum en sauðfjárframleiðslan liggur mjög vel við lífrænni ræktun. Það vantar svo lítið upp á að sú vara sem framleidd er undir stjórn gæðastýringar nái þessu takmarki. Það er aðeins eitt sem stendur út af og það er áburðargjöfin. Ég tel að bændur þurfi miklu frekar hvatningu og stuðning til að fara út í þetta en að einhverjar aðrar takmarkanir eigi að hafa þar áhrif á. Og stuðningurinn þarf að vera til lengri tíma en tveggja ára. Hann þarf a.m.k. að vera til fimm ára til að koma á þessari framleiðslu svo að hún nái hérna fótfestu og sé í einhverjum mæli.

Hæstv. forseti. Ég hvet hæstv. landbúnaðarráðherra, þó að stutt sé eftir af þinginu og að öllum líkindum stutt eftir af embættisferli hans, til að taka á þessum stutta tíma sinnaskiptum og hvetja til og stuðla að því að inn í frumvarpið komi viðbótarákvæði um frekari stuðning til bænda sem fara í lífrænt vottaða framleiðslu, hvort heldur er sauðfjár eða aðra.