133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:56]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við 1. umr. um þetta mál áttum við nokkurn orðastað, ég og hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég setti samninginn sem hér er til umræðu í samhengi við ýmsa aðra samninga sem gerðir hafa verið og skoðaði hvernig að slíkum málum er staðið. Ég tengdi það ráðherraræðinu sem því miður hefur farið vaxandi undanfarin ár. Við höfum kynnst því vel í fjárlaganefndinni þar sem þessir samningar koma flestir til skoðunar. Við sjáum því mjög vel í fjárlaganefndinni alla þessa samningagerð og hvernig ráðherraræðið hefur aukist ár frá ári. Nú eru gerðir samningar stórir og flóknir um ýmsa hluti til langs tíma. Það er rétt, svo það valdi ekki misskilningi, að auðvitað getur verið eðlilegt að samningar séu gerðir til langs tíma. Það er t.d. mjög eðlilegt gagnvart sauðfjárbændum að nægur fyrirvari sé þegar málið snýst um framtíðaráform þeirra, t.d. um bústofn og stærð hans. Það er líka eðlilegt að það sé gert til nokkuð langs tíma þannig að fjárfestingar og annað þess háttar geti tekið mið af slíku. Þetta er allt saman eðlilegt.

En það sem er óeðlilegt, sem ég vék að í ræðu minni við 1. umr., er að engir aðrir skuli koma að slíkum samningum en viðkomandi ráðherrar. Nú geri ég ráð fyrir því að ráðherrum líði vel með vald sitt og vilji sýna það og nýta svona eins og kostur er. (Landbrh.: Þetta er líkt og með kjarasamninga.)

Hæstv. ráðherra. Ef við skoðum líkingu við kjarasamninga þá sem hæstv. ráðherra vill gera þá er meginreglan þar sú að samið sé milli viðsemjenda. En vissulega kemur ríkisvaldið oft að lausn kjarasamninga sem þriðji aðli, nema þegar ríkisvaldið semur við ríkisstarfsmenn, þá er það nú yfirleitt samninganefndin sem kemur að því. (Landbrh.: Þeir eru æðimargir.) Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra. Þeir eru æðimargir. En ég er ekki viss um að þeir séu margir til svo langs tíma sem hér er gert. Ég er ekki viss um að þeir séu mjög margir sem eru gerðir til svo langs tíma (Gripið fram í.) að hægt sé að líkja því saman. Hér er um flóknara fyrirbæri að ræða sem þarf að skoða í því samhengi.

Ég nefni þetta ekki síst vegna þess að á fundi í fjárlaganefnd í gær var dreift nýrri skýrslu frá ríkisendurskoðun þar sem er samantekt á skuldbindandi samningum ráðuneyta og styrkveitingum ríkissjóðs á árinu 2006. Þar er farið yfir alla þá samninga sem gerðir eru með þeim hætti og þar með er samningur sá sem við ræðum hér. Til að gefa örlitla mynd og ég ætla mér ekki, frú forseti, að ræða þessa skýrslu í smáatriðum heldur aðeins að setja hana í samhengi, eru 19 samningar yfir milljarð. Nítján samninganna sem gerðir hafa verið eru yfir milljarð. Þarna eru miklir peningar á ferðinni og um margs konar samninga að ræða. Undir landbúnaðarráðuneytinu segir, með leyfi forseta:

„Alls eru skráðir átta samningar sem ráðuneytið hefur gert og nema skuldbindingar ríkissjóðs vegna þeirra 34,4 milljörðum kr. á tímabilinu 2006–2010. Stærstu samningarnir eru vegna mjólkurframleiðslu og framleiðslu á sauðfjárafurðum, 29,2 milljarðar kr. Aðrir stórir samningar eru við Bændasamtök Íslands, 3,2 milljarða kr. skuldbinding á tímabilinu, og við Samband garðyrkjubænda 1,7 milljarða kr. skuldbindingu á tímabilinu.“

Þetta er sem sagt yfirlit yfir þá samninga sem landbúnaðarráðuneytið hefur gert og það er eðlilegt að þessir stærstu samningar séu nefndir hér. Þeir vega auðvitað mjög þungt. En það sem þeir hafa fram yfir mjög marga aðra samninga að þeir koma þó fyrir Alþingi. Þeir eru lagðir fram til umræðu sem er því miður ekki hægt að segja um alla samninga sem gerðir eru. Það ber auðvitað að þakka hæstv. ráðherra að slíkt sé gert og færi betur á að aðrir hæstv. ráðherrar tækju hæstv. landbúnaðarráðherra til fyrirmyndar að því leyti.

Því er hins vegar ekki að neita að samningar landbúnaðarráðuneytisins eru háir eins og ég sagði áðan. Þessir tveir stærstu eru við mjólkurframleiðendur og sauðfjárbændur. Þeir vega þungt. En hér segir líka í skýrslunni, þegar samningarnir eru flokkaðir, þá er talað um samninga sem gerðir eru við samtök og þar segir, með leyfi forseta:

„Aðeins er um að ræða samtök bænda og hafa verið gerðir þrír samningar við þá um mjólkurframleiðslu, framleiðslu sauðfjárafurða og garðyrkju. Áhættan hér liggur fyrst og fremst í þeim fjárhæðum sem um ræðir og hve flóknir samningarnir eru. Nauðsynlegt er að skoða framkvæmd þeirra árlega.“

Ég held að tvær síðari setningarnar skipti gífurlega miklu máli. Það er annars vegar er um mjög flókna samninga að ræða og síðan þarf að tryggja að framkvæmd þeirra sé skoðuð reglulega, t.d. árlega eins og Ríkisendurskoðun segir. Þetta var eitt af því sem ég nefndi í ræðu minni við 1. umr. Það væri mjög nauðsynlegt að meta árangur slíkra samninga og meta allar hliðar málsins.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra, vegna væntanlega kennslustunda í merkum stjórnmálaskóla Framsóknarflokksins, datt ofan í áróðurstækni, þ.e. þá að draga ályktanir af orðum mínum í aðra átt heldur en eðlilegt hefði verið að skilja þau. Ég sagði að meta þyrfti árangur samninganna þegar um slíkar upphæðir er að ræða, í báða enda eins og ég orðaði það. Ég hélt því fram að framsóknarmenn skildu að það væri mikilvægt að skoða báða enda. En ég átti ég við að annars vegar væri endinn sem sneri að bændunum sjálfum, hvernig skilar þetta sér til bænda, og síðan hinn endinn, þ.e. hvernig skilar þetta sér síðan til neytenda.

Þá kom gamalkunnur ræðubútur frá hæstv. ráðherra um að bændunum væri kennt um hátt matvöruverð, sem hvarflaði ekki að nokkrum manni. Ég held að það sé varla til sá maður, nema einhver áróðursmeistari Framsóknarflokksins sem hefur hugmyndaflug í að tengja hlutina þannig saman.

Það blasir við að bændurnir fá ef eitthvað er of lítið fyrir framleiðsluna en ekki öfugt. Skýringin á hinu háa matarverði er því annars staðar en hjá bændunum sjálfum. Það er m.a. þess vegna sem ég sagði að það þyrfti að skoða báða enda. Það getur vel verið að hægt sé að auka hlut bænda án þess að auka fjármagnið í samninginn og um leið megi lækka matarverð.

Ég tel að það séu sameiginlegir hagsmunir neytenda og bænda að lækka matarverð. Það styrkir stöðu íslensks landbúnaðar ef hægt verður að lækka verðið á þeim vörum. Ég held ég hafi einmitt sagt það í fyrri ræðu minni og get endurtekið að íslenskar landbúnaðarafurðir hafa auðvitað gæðin fram yfir flestar aðrar. Staða þeirra á markaði er þar af leiðandi mun sterkari, sé verðið á þeim ekki íþyngjandi hátt.

Hluti af þeim vanda sem snýr að íslensku samfélagi er of hátt matarverð og eðlilegt að minna á tilraun til þess um síðustu mánaðamót að lækka og það virðist vera að það hafi tekist býsna vel í matvöruverslunum að fá lækkunina fram þrátt fyrir að ýmsir hafi haft af því áhyggjur. En það er hins vegar meira áhyggjuefni að veitingahúsin skuli ekki hafa tekið þátt í því að sama skapi.

En frú forseti, varðandi slíka samninga sem þann sem við ræðum hér, flókinn samning til langs tíma, er auðvitað eðlilegt að viðhöfð séu önnur vinnubrögð við gerð slíkra samninga. Það er eðlilegt að það komi fleiri aðilar að borði. Það er ekki eðlilegt að ráðherrann einn með völdu aðstoðarfólki gangi frá slíkum samningum. Ég held að vinnubrögðin væru betri ef tryggð yrði meiri aðkoma að því, m.a. mætti kalla fulltrúa þingflokka til við slíka iðju í undirnefnd þar sem málið yrði kynnt og leitað hugmynda.

Ég geri mér grein fyrir því að allar samningaviðræður eru flóknar. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að baknefndir séu að störfum til að tryggja sem mesta sátt, ég tala nú ekki um vegna þess að við vitum að það er breytingaskeið fram undan. Það er breytingaskeið fram undan í þessum málum. Við þurfum að vanda okkur við það. Enginn vill að bændur fari illa út úr þeim breytingum. Það er auðvitað eðlilegt að í samningum sé fyrirvari um niðurstöðu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í þeim samningum sem þar er unnið að. Eðlilegt væri að við skoðuðum hvernig við ætlum að mæta því.

Þessi iðja, sem hefur verið stunduð allt of lengi og það verður því miður líklega bara verkefni sagnfræðinga að velta því fyrir sér hvernig það hefur skilað sér í hag bænda, að binda málin í svo þröngum hópi, þessa samningagerð. Vert væri að skoða hvort ekki væri á stundum gott að fá einhverja nýja hugsun við hlutina en vera ekki of fastir í sama farinu.

Gleymum því ekki, frú forseti, að hér er auðvitað stigið ákveðið skref þótt lítið sé, þ.e. að taka útflutningsskylduna af. Hún hefur valdið að vísu nokkrum deilum, meira að segja í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherra sér væntanlega sjálfur um þann slag. En í þingstörfunum er farið að bera of mikið á að ráðherraræði. Þegar það kemur fram í þessari mynd þá er Alþingi stillt upp við vegg.

Það liggur ljóst fyrir að ef breytingartillaga frá einum hv. stjórnarþingmanna yrði samþykkt þá yrði samningurinn ekki lengur við lýði. Þá þyrfti að taka upp nýjar samningaviðræður og endurtaka alla kosninguna og ferlið sem slíkt. Menn hafa í raun og veru ekki þessa möguleika. Það er enginn möguleiki í raun og veru að koma með breytingartillögur og setja allt málið í uppnám. Málið er í raun frágengið. Það er búið að ganga frá því og ekkert nema leikaraskapur að fara með málið í gegnum umræður, í nefndarstörf o.s.frv. vegna þess að engu er hægt að breyta. Þetta er allt saman frágengið. Hæstv. ráðherra hefur geirneglt allt. Hann hefur engan áhuga sýnt á því að taka með sér neina aðra en sérvalda aðstoðarmenn með sér. Þeir virðast vera í svipuðum þankagangi og hæstv. ráðherra. Það er skortur á nýrri hugsun í málinu. Ég hélt þó að ýmsir hefðu á því áhuga að reyna að finna betri lausnir. Vegna þess að það er þó sameiginlegt mat, trúi ég flestra, að hag bænda þurfi að bæta og eðlilegt að menn leiti allra leiða til þess.

Það hefur sigið látlaust á ógæfuhlið ráðherraræðisins undanfarin ár. Ég er viss um að hæstv. ráðherra gæti rifjað þetta upp með mér því hann hefur lengri þingreynslu en ég. Ég hef ekki verið hér nema í um átta ár og hef séð margt gerast á þeim tíma. Ég trúi því að þessi þróun hafi hafist fyrr. Ef hæstv. ráðherra leyfði sér þann munað að velta fyrir sér stöðu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds þá trúi ég að honum mundi bregða mjög hversu hallað hefur á löggjafarvaldið í þeim samanburði.

Frú forseti. Ég ætla ekki að tala mjög lengi um þetta mál þó brýnt sé og stórt. Ég vildi aðeins tengja þessa umræðu inn á þetta svið. Ég held að á haustdögum, ef ekki strax á sumarmánuðum, verði lagður sérstakur grunnur að því að snúa við þeirri óheillaþróun sem við höfum horft upp á of lengi, þar sem framkvæmdarvaldið hefur aukið hlut sinn á kostnað löggjafarvaldsins.