133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:18]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð og raunar ágætan stuðning í mörgum málum í þinginu. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þennan góða samning. Hann verður bændum mikilvægur og neytendum einnig og framtíð sauðfjárræktarinnar. Hann kemur inn á byggðasvæði sem sannarlega þurfa á þessum stuðningi að halda og mun á næstu sex til sjö árum skapa miklu sterkari sauðfjárrækt í landi sem er eitt besta sauðfjárræktarland heims með frábærar afurðir.

Hv. þingmaður velti því upp að ég myndi tímana tvenna og það er rétt. Ég kom fyrst inn á þing árið 1987, gríðarlega erfið ár frá 1987–1991, allt að fara norður og niður, erfiðleikar í fyrirtækjunum og samdráttur í þjóðfélaginu, gríðarleg kreppa frá 1991–1995 og miklir erfiðleikar, atvinnuleysi og landflótti. Svo komu síðustu 12 ár hagsældar með jafnri og sterkri þróun þannig að Ísland er á ný búið að ná sér í fremstu röð á mörgum sviðum og menn horfa til þessa lands hvernig þetta hefur gengið. Útrás fyrirtækjanna, ný tækifæri og störf hafa haft gríðarlega mikið að segja. Ég hygg að þjóðin muni ekki kjósa gegn þessari hagsæld 12. maí. Þess vegna trúi ég því að hún muni átta sig, blessuð þjóðin. Hún kann sitt fag þegar kemur að kosningum. Hún kýs ekki gegn hagsmunum sínum heldur vill þessa þróun áfram. Hún mun ekki treysta kaffibandalaginu til að taka við og það væri náttúrlega einstakt ef sósíalistarnir á Íslandi næðu völdum 12. maí og færu að stjórna.