133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:36]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tíð hv. þingmanns sem landbúnaðarráðherra hygg ég að gerður hafi verið einn búvörusamningur. Ég hygg að hann hafi staðið að honum með svipuðum hætti og gert er við þennan búvörusamning.

Ég vil segja um orð hv. þingmanns að framsóknarmenn hafa ekki staðið mikið í því að verja sig. Þeir hafa þolað mikla gagnrýni, ósvífna umræðu af hálfu vinstri grænna og margra annarra, mjög ósvífna og ódrengilega umræðu. Framsóknarmenn (Gripið fram í.) eru drengskaparmenn og hafa látið mikið yfir sig ganga. Nú segir hv. þingmaður að ég sé meistari útúrsnúninganna, ég hafi einkarétt á að skamma aðra og nefni menn ónefnum. Hver hefur oftast nefnt menn og ráðherra ónefnum, kallað þá druslur og ég veit ekki hvað? Auðvitað vita þeir sem fylgjast með íslenska þinginu að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem er prýðilegur ræðumaður tekur oft ljótari orð upp í sig en nokkur annar í þessum þingsal. Það má hann eiga. Það hef ég ekki tamið mér úr þessum ræðustól og ég hef reynt að vera málefnalegur þó að ég sé óhræddur við að fara í pólitískar glettur við þá sem hér eru og takast á um stefnu Framsóknarflokksins og stefnumið. Ég endurtek að ég vorkenni hv. þingmanni hversu litla gagnrýni hann þolir.

Ég minntist á blessaðan Pútín áðan. Ætli það hafi ekki farið fyrir brjóstið á honum? Pútín sem er mjög framsýnn maður og er að reyna að breyta Rússlandi er aðdáunarverður. Hann vildi auðvitað að sín staða í sínu landi væri eins og hún hefur verið hjá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum síðustu árin, vaxandi hagsæld og velmegun. Ég minntist á blessaðan Pútín. Kannski hefur það farið fyrir brjóstið á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, svo viðkvæmur er hann vegna fortíðar sinnar, þessi hv. þingmaður, og þeirra skoðana sem hann hafði. Menn vita hvernig Austur-Evrópa fór. Hún fór illa vegna þess að pólitíkin (Forseti hringir.) tók frelsið af fólkinu. (Forseti hringir.) Hér hafa Íslendingar frelsi og mikla möguleika, (Forseti hringir.) og hagsældin hefur verið mikil síðustu árin, hæstv. forseti.