133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi búvörusamninginn 1991 var einmitt reynt að skapa mjög víðtæka sátt á bak við hann. Grunnur að þeim samningi var lagður í víðtæku samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Eftir föngum var leitað pólitísks samstarfs um það mál líka. Sá samningur var í raun skilgetið afkvæmi þjóðarsáttarinnar og það er ágætt að halda því til haga að bændur áttu stóran hlut í þjóðarsáttinni, og samstarf landbúnaðarins við stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins skipti á þeim tíma mjög miklu máli. Þannig varð t.d. verðlagning búvara stór liður í því að ná niður verðlagi og verðbólgu í kringum 1990 og ætli landbúnaðarráðherra hafi ekki eitthvað komið þar við sögu.

Varðandi orðræðuna að öðru leyti telur hæstv. ráðherra sig sjálfsagt mjög orðprúðan þegar hann ber á aðra að þeir séu kommúnistar í hinum austur-evrópska skilningi sem hæstv. ráðherra vitnar þar til. Ég tel að það sé alvarlegur áburður á menn ef það er það sem hæstv. ráðherra á við, að hann ýi að því að maður eigi eitthvað sammerkt með flokkseinræðisharðstjórum kommúnistaríkja Austur-Evrópu eins og þau urðu verst. Ég frábið mér að mér sé líkt við slíkt. Ég á ekkert skylt við það hugarfar. (Gripið fram í.) Sem lýðræðissinnuðum róttækum vinstri manni á Íslandi, einlægum þingræðis- og lýðræðissinna finnst mér það alveg fráleitur áburður.

Hæstv. landbúnaðarráðherra finnst þetta allt í lagi. Hann slengir þessu hér fram og er svo hissa þegar honum er aðeins svarað, vælir þá eins og þeir framsóknarmenn gjarnan gera ef eitthvað er tekið á þeim. Ég verð bara að fara að fá einhverja leiðsögn um það hvað má yfirleitt segja við framsóknarmenn og hvað ekki til þess að þeir hrökkvi ekki af hjörunum.