133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:52]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi eitthvað misskilið viðhorf okkar í þessum efnum ef hann leggur út af því þannig að okkur sé það eitthvert sérstakt keppikefli og kappsmál að halda við útflutningsskyldum um aldur og ævi. Það er allt annað mál að hafa heimildir til þess að mögulegt sé að grípa inn í ef þannig aðstæður skapast tímabundið, t.d. hér á kjötmarkaði, að til hreinna vandræða horfir.

Ég veit að hv. þingmaður þekkir það vel til þessara mála að hann man það ástand sem t.d. skapaðist hér á kjötmarkaði um skeið og varð engum til framdráttar eða til góðs og ekki heldur neytendum. Þetta kostaði samfélagið allt mikla fjármuni vegna þess að hlutir fóru algjörlega úr böndunum. Það urðu fjöldagjaldþrot í vissum kjötgreinum og umtalsvert þjóðhagslegt tap í raun og veru af því ástandi sem þar skapaðist.

Sem betur fer hefur kjötmarkaðurinn jafnað sig og almennt hefur landbúnaðarmarkaðurinn leitað og náð miklu betra jafnvægi nú síðustu árin. Það á að vera öllum fagnaðarefni og vonandi getur það haldist þannig. Vonandi reynir ekkert á einhverja sameiginlega útflutningsskyldu hjá bændum.

En vegna þess hvernig kerfið er uppbyggt og vegna þess hversu óskaplega viðkvæmur þessi markaður er þá hafa margir áhyggjur af þessari mögulegu stýringu sem þarna hefur getað átt sér stað, að henni verði alveg varpað fyrir róða og engin tæki eða möguleikar séu til að grípa inn í ef svona ástand virðist vera að skapast. Í mínum huga eru það að minnsta kosti aðalrökin fyrir því að æskilegt væri að hafa möguleika til inngrips af þessu tagi jafnvel þótt við getum verið sammála um að það sé ekki æskilegt að þurfa það. Ég held að það sé ekki, a.m.k. ekki eins ég hugsa það, markmið í sjálfu sér eða keppikefli eða eitthvað sem menn vilji gera. Spurningin er hvort það skaðar einhvern að það séu möguleikar til þess ef svona aðstæður skapast.