133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:56]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ef við viljum fjalla um þessi mál af sanngirni þá verðum við auðvitað að hafa í huga sérstöðu landbúnaðarins og alveg sérstaklega þeirra tveggja greina hans sem eru bundnar af búvörusamningum. Þeir samningar eru ekki bara samningar um tiltekinn ríkisstuðning, þeir eru líka um leið starfsgrundvöllur þeirra greina.

Að mínu mati er í raun og veru ekki hægt að líkja landbúnaðinum, og þá sérstaklega sauðfjár- og mjólkurframleiðslunni, saman við neina aðra atvinnustarfsemi.

Nú getum við lengi deilt um það hvernig það kerfi er og af hverju það er eins og það er. Staðreyndin er auðvitað sú að það eru sögulegar, pólitískar, landfræðilegar og byggðarlegar ástæður fyrir því að hlutirnir eru eins og þeir eru. Það á sér allt sínar skýringar ef við viljum leita þeirra í sögunni.

Menn hafa að mínu mati verið að vinna sig út úr þeim hlutum og í rétta átt, meira og minna samfellt síðastliðin tuttugu ár eða svo. Sérstaklega má þó segja að það hafi verið frá því á ofanverðum 9. áratugnum, með samningum og aðgerðum sem þá var farið í til þess að draga úr offramleiðslu sem þá var mjög mikil og var ríkisstyrkt og flutt út með miklum kostnaði, til þess ástands sem nú er og er náttúrlega til muna heilbrigðara en hlutirnir voru þá. Svo við tölum ekki um hversu lítið brot af ríkisútgjöldunum rennur til þessara verkefna í dag borið saman við það sem var hér fyrir ekkert óskaplega löngum tíma og við munum báðir, ég og hv. þingmaður.

En ég held að hlutirnir hafi þokast mjög langt í rétta átt. Það hefur orðið mikil hagræðing í landbúnaðinum og matvælaiðnaðinum. En það má vissulega betur gera. Það er sameiginlegt viðfangsefni og sameiginlegt keppikefli og ég held að það sé farsælast að reyna að gera það í samstarfi. Samstarfi aðila vinnumarkaðarins, neytenda og bænda og reyna að hafa sem mestan frið um þetta mál. Það er okkar viðhorf.