133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:00]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér erum við að ræða samning við þá stétt eða þann hóp fólks í landinu sem stendur hvað verst Mér finnst merkilegt að verða vitni að því að hæstv. landbúnaðarráðherra komi í þessa umræðu og gefi það í skyn að ef breyting verður á stjórn landsins muni það hafa slæmar afleiðingar fyrir þennan atvinnuveg. Ég held að fólk sem starfar í landbúnaði, bændur, ætti að velta því fyrir sér hvernig þróunin hefur verið á síðustu árum, hvort hún hafi verið fram á við eða hvort miðað hafi aftur á bak, hvort fólk hafi það betra í þessum atvinnuvegi nú en það hafði áður en hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, tók við völdum. Ég er sannfærður um að fólk mun örugglega segja að ástandið sé ekkert betra. Þess vegna furða ég mig á því að hæstv. landbúnaðarráðherra komi hér og tali eins og ástandið standi og falli með Framsóknarflokknum. Það má miklu frekar dæma það út frá ástandi landsbyggðarinnar, að lífsskilyrðum hafi miklu frekar hrakað á landsbyggðinni og meðal annars hjá sauðfjárbændum.

Það er óumdeilt að Framsóknarflokkurinn hefur leikið byggðir landsins gríðarlega illa og einnig þann hóp sem hér um ræðir og við erum að fjalla um og hefur samþykkt þennan samning. Við í Frjálslynda flokknum erum talsmenn landsbyggðarinnar og teljum að þó svo við ætlum að fallast á þennan samning þá sé hann ekki algóður. Hann er mjög gallaður. Einn helsti gallinn við samninginn er sá að verið er að úthluta styrkjum, stórum hluta af þeim peningum sem við erum að tala um hér, sem er upp á um 19 milljarða samtals, eftir því hvernig bústarf manna var í byrjun 9. áratugarins. Það er sem sagt verið að úthluta styrkjum eftir því hvernig menn framleiddu fyrir liðlega 20 árum. Það er auðvitað gagnrýnisvert að verið sé að útdeila miklum opinberum fjármunum út frá svo gömlum tölum, út frá því hvernig menn framleiddu fyrir 25 árum.

Ég vil einnig taka upp hanskann fyrir bændur í umræðunni um hátt matarverð, sem hefur blandast inn í umræðuna um þennan samning, og minna enn og aftur á það að innlend hefðbundin landbúnaðarframleiðsla er ekki nema einn þriðji af matarreikningi heimilanna. Þegar menn tala um og halda því á lofti að hátt verð á innlendum landbúnaðarvörum valdi miklum búsifjum hjá heimilum landsmanna, þá er það ekki alveg rétt. Ef menn skoða þetta grannt er þetta einn þriðji, eins og ég sagði áðan, af matarreikningi heimilanna.

Síðan verðum við líka að líta til þess að þegar lækkanir hafa komið til, svo sem nýlegar lækkanir á virðisaukaskatti, þá hefur það ekkert skilað sér til heimilanna og má færa rök fyrir því að þó svo að miklar lækkanir fengjust á afurðum bænda þá þarf það ekki endilega að skila sér til neytenda eins og markaðurinn er nú um stundir.

Það sem mér finnst að við verðum að athuga þegar við ræðum landbúnaðarmál er hvernig stjórnvöld hafa staðið sig á síðustu árum. Þau hafa staðið sig afar illa og leikið í rauninni sauðfjárbændur mjög grátt. Það hefur verið gefið í skyn að verið sé að fara í einhverja hagræðingu með fækkun sláturhúsa og opinberir fjármunir hafa verið notaðir, hugsið ykkur, í að loka atvinnutækjum á minni stöðum á landinu og úrelda sláturhús. Það hefur verið gert með þeim hætti að hæstv. landbúnaðarráðherra, sem lætur stundum í það skína að hann sé einhver brjóstvörn bænda, sem hann er alls ekki, telur að þetta sé leið til að komast að hagræðingu. Hver hefur árangurinn verið? Hann hefur ekki verið góður. Þetta hefur ekki skilað sér í vasa bænda. Hvað notuðu menn þegar þeir voru að rökstyðja að fara ætti í þessa úreldingu? Hvaða rök notuðu menn? Menn notuðu einhverja útreikninga sem voru gerðir fyrir sláturhús sem höfðu sameinast undir nafni Goða og höfðu farið þráðbeint á hausinn. Þetta eru útreikningarnir en hæstv. landbúnaðarráðherra kemur ekki og segir okkur frá því hvað þetta hafi í rauninni komið sér betur fyrir bændur eða hvað þá neytendur. Það kemur ekkert fram. Honum dettur ekki í hug að rökstyðja það og vissulega er öfugsnúið að Sjálfstæðisflokkurinn, sem kennir sig við frelsi í viðskiptum, stundum, skuli nota opinbera peninga til þess að úrelda og loka atvinnutækjum.

Rökstuðningur þessara flokka, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, var m.a. sá að verið væri að uppfylla einhverjar Evrópureglur. Það var í rauninni bara plat og mjög ódrengilegt og ósvífið að þeir flokkar skuli nota þá röksemd vegna þess að landbúnaður er algerlega undanþeginn Evrópureglum og við getum hagað okkar málum eins og við viljum. Þar að auki er mun meira frelsi í Evrópusambandinu til að vera með heimasláturhús eða minni sláturhús þar sem ekki eru gerðar eins ríkar kröfur og hér. Hér erum við að setja upp kröfur sem eru mjög strangar og þær eru það strangar að það eru hvað hörðustu reglur sem hæstv. landbúnaðarráðherra gat fundið í Evrópusambandinu, sem eru í rauninni ekkert annað en viðskiptahindranir, til að koma í veg fyrir innflutning. Evrópusambandið setur strangar reglur um hvernig sláturhús eiga að líta út sem eru að flytja sláturafurðir á milli markaða og langt að. Þær reglur tók landbúnaðarráðherra upp en hann tók aldrei fram að hægt er að kaupa jafnvel heimaslátraðar afurðir í Frakklandi á mörkuðum. Hægt er að kaupa í Lúxemborg kjöt sem er slátrað í minni húsum. Hann tók það ekki fram heldur kom og setti í rauninni viðskiptahindranir á minni byggðir og neyddi þær til að loka sláturhúsunum og rétta þeim sem voru eigendur skuldanna þær upphæðir sem þeir höfðu veðsetningu fyrir í húsunum. Þetta er í rauninni byggðaeyðingarstefna sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir á síðustu árum. Mér finnst þetta vera fyrir neðan allar hellur, sérstaklega vegna þess að það hefur kostað það að flytja hefur þurft sláturfé um langan veg, mjög langar leiðir, alla leið af Vestfjörðum og í Skagafjörðinn og í Húnavatnssýslurnar og síðan af Austfjörðum og alla leið í Skagafjörðinn, um mörg hundruð kílómetra leiðir sem er verið að flytja sláturdýr. Þetta er í raun ómannúðleg meðferð á dýrum að flytja þau svo langt í ljósi þess að reglurnar sem farið er eftir eru hálfrar aldar gamlar eða frá 1957. Það er reglugerðin sem hæstv. landbúnaðarráðherra starfar eftir og síðan deilir hann út styrkjum að miklu leyti eftir 25 ára gömlum viðmiðum. Þetta lýsir auðvitað hvernig hæstv. landbúnaðarráðherra hefur komið hlutunum fyrir en það er ekki af einhverjum illvilja heldur er það miklu frekar að hann hefur ekki komið hlutunum í verk. Það er mikið að gera í að halda ræður í veislum og hafa gamanmál en að fara að snúa sér að verkefnum dagsins í landbúnaðarráðuneytinu. (Gripið fram í: Ertu að tala um framsóknarmann?) Ég er að tala um hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég hélt að ekki léki vafi á því hverjum ég væri að lýsa.

En þetta er alvarleg staða, sérstaklega í ljósi þess að byggðirnar standa víða og falla með þessari atvinnugrein. Við í Frjálslynda flokknum höfum haft ýmsar efasemdir t.d. um hvernig hæstv. landbúnaðarráðherra deilir út styrkjum til mjólkurframleiðslu, af því að ég sé hv. þm. Drífu Hjartardóttur í salnum sem þekkir vel til þessara mála. (Gripið fram í.) Í sjálfu sér er það í lagi ef það bitnar ekki á öðrum verkum. En mér finnst þetta vera alvarleg mál sem við erum að ræða vegna þess sauðfjárræktin er víða undirstaðan í hinum dreifðu byggðum þannig að það skiptir afar miklu máli að sátt sé um þá atvinnugrein og hún fái að vaxa og dafna og ekki sé verið að setja einhver óþarfahöft á greinina.

Ég hef sjálfur lagt það til að við eigum frekar að aflétta reglum og auka frelsi í atvinnugreininni. Það sé miklu nær í stað þess að flytja inn þunglamalegar Evrópureglur um hvernig eigi að slátra þannig að safna þurfa öllum gripum saman á örfáum stöðum á landinu. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að þetta sé rétt og það væri óskandi að hæstv. landbúnaðarráðherra gæti rökstutt það hverju þetta hafi skilað, en hann er kannski staddur í einhverju öðrum verkum, frú forseti. Er hann í húsinu?

(Forseti (SAÞ): Landbúnaðarráðherra er í húsinu.)

Ég treysti því að hann sé þá að hlusta. En ég held að ekki sé á vísan að róa með það frekar en að hann standi vörð um hagsmuni bænda en hann hefur ítrekað sannað það að hann gerir það ekki. Það hefur hann sýnt m.a. í þjóðlendumálunum, þar hefur hann ekki sinnt því kalli bænda þar sem hæstv. fjármálaráðherra hefur gengið mjög hart fram í kröfum um eignarland þeirra og hefur ekki tekið að nokkru tilliti til þinglýstra gagna og virðist fara hringinn í kringum landið á meðan hæstv. landbúnaðarráðherra er í einhverju öðru og virðist ekki hafa áhyggjur af því. En samt sem áður kemur hann hér og skammar stjórnarandstöðuna og telur að hagur bænda muni að einhverju leyti versna þó að stjórnarskipti verði. Ég get alveg fullyrt að ég er sannfærður um að hagur bænda væri miklu betur borgið ef Frjálslyndi flokkurinn færi með þau málefni. Við mundum ekki sætta okkur við að hægt væri að safna saman t.d. styrkjum, að kaupa upp styrki til mjólkurframleiðslu. Til dæmis að það sé óheft hvað hægt væri að styrkja eitt bú mikið. Mér finnst það vera vitleysa. Ef einhver ákveður t.d. að kaupa upp greiðslumark í mjólk þannig að búið mundi framleiða eina milljón lítra árlega mundi það þýða að til þessa eina bús rynnu allt að 50 millj. kr. af skattfé. Þetta grefur undan kerfinu og grefur undan þeirri sátt sem þarf að vera um stuðning til bænda.

Ég er sannfærður um að margir gera sér ekki grein fyrir að landsbyggðin skiptir afar miklu máli fyrir hag Reykjavíkur. Það er nefnilega þannig að drjúgur hluti af því skattfé sem tekið er á landsbyggðinni rennur til höfuðborgarinnar. Það er í rauninni ekki nema helmingurinn af því skattfé sem tekið er af landsbyggðinni sem er varið aftur á landsbyggðinni, þannig að það er nettótilflutningur á fjármagni af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Það er í sjálfu sér eðlilegt. Hér eru ýmsar stofnanir, svo sem sjúkrahús og menntastofnanir sem ekki eru á landsbyggðinni. En það þarf að veita landsbyggðinni meira frelsi og því miður hefur Framsóknarflokkurinn algerlega klikkað í því. Eitt skýrasta dæmið er þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa svipt bændur réttinum til að nýta eignarlönd sín.

Ég ræddi áðan um þjóðlendurnar sem hafa valdið mikilli ólgu víða en ég er að tala um að þessir flokkar hafa svipt bændurna réttinum til útræðis. Þetta hefur skaðað byggðir víða. Á Ströndum má nefna að þar hafa bændur haft nytjar af ýmsu. Þar hefur verið sauðfé en síðan hafa menn róið til fiskjar en búið er að taka það af þeim bara til að passa kvótann fyrir vini stjórnarflokkanna, fyrir vini Framsóknarflokksins og vini Sjálfstæðisflokksins. Þeim er alveg sama um þessa bændur sem missa spón úr aski sínum. Þetta skiptir líka afar miklu máli ef frelsi væri, t.d. á norðausturhorninu, fyrir bændur að fá að róa til fiskjar, ég tala ekki um að fá að leggja net fyrir hrognkelsi í fjöruborðinu. Nei, það er búið að taka þetta af þeim og við í Frjálslynda flokknum skiljum ekki hvers vegna, hvers konar mannvonska þetta er.

Ég ræddi þetta einhvern tíma við hæstv. landbúnaðarráðherra og hann taldi það dónaskap að ræða þetta. Ég hef aldrei heyrt það á nokkrum manni að hann telji það vera dónaskap að færa það í tal ef einhver er sviptur eignum sínum. Mér finnst það vera alvarlegt — og ég sé að hæstv. landbúnaðarráðherra er kominn og er ekki seinna vænna því ég er að fara að ljúka ræðu minni — en það er óneitanlega furðulegt að Framsóknarflokkurinn sem kenndi sig einhvern tíma við samvinnuhugsjón og að standa vörð um dreifbýlið skuli standa í því að svipta menn útræðisrétti sínum, svipta menn að fá að nýta eignarlönd sem ná út fyrir stórstraumsfjöruborð, en það gerir Framsóknarflokkurinn og sýnir í rauninni hversu flokkurinn er kominn langt frá uppruna sínum. Hann er mögulega — ég veit ekki hvort hann er Evrópuflokkur en hæstv. landbúnaðarráðherra hefur, ef mig misminnir ekki, talað gegn því meðan sterkir leiðtogar flokksins sem virðast vera komnir jafnvel ofar í valdapíramída flokksins ráða meiru um gang mála þar, svo sem hæstv. utanríkisráðherra sem virðist vera einlægur Evrópusinni, en það væri fróðlegt að fá það hér nánar, hvort hann telji, hæstv. ráðherra, að við munum að einhverju leyti tengjast meira því sambandi eins og raddir koma innan úr Framsóknarflokknum, að menn vilji einlæglega fara þar inn eða skoða inngöngu. Fróðlegt væri að heyra það. En mér finnst það vera alvarlegt að hæstv. ráðherra skuli koma hér og færa fram mál en hann skuli ekki gera það með betri rökum, vera jákvæðari í garð þeirra sem hafa tekið undir að það þurfi að styðja bændur vegna þess að hann hefur ekki staðið vaktina hvað varðar hag dreifbýlisins. Það er mergurinn málsins og má segja að það megi rekja til þeirrar stefnu sem fyrrum hugmyndafræðingur Framsóknarflokksins hefur kynnt í Borgfirðingabók árið 2004 að stefnt skuli að borgríki. Hugmyndafræðingur Framsóknarflokksins sagði að stefnt skyldi að því í merkri grein sem hann ritaði í Borgfirðingabók.

Ég er ekki sammála þessari sýn framsóknarmanna. Þessi hugmyndafræðingur er núna orðinn að formanni flokksins og má sjá þess merki að sú hugmyndafræði hefur verið í gangi um nokkurt skeið. Það er einfaldlega svo að alltaf er grafið meira og meira undan landsbyggðinni. Þetta er mjög sérstakt en þegar maður les þessa grein eftir núverandi formann Framsóknarflokksins, sem er frá árinu 2004, þá fær maður samhengi í hlutina. Þetta er bara stefnan sem var kynnt í orði 2004 og hefur verið á borði nú á síðustu árum. Þetta er einfaldlega stefna flokksins sem við í Frjálslynda flokknum sættum okkur ekki við. Við teljum einfaldlega að skynsamlegt sé að nýta allt landið. Það er skynsamlegt að leyfa bændum að renna fyrir fisk í fjöruborðinu. En Framsóknarflokkurinn er á móti því og hann vill líka taka af þeim eignarlönd og setja í rauninni lönd þeirra í gíslingu eins og hefur komið fram í ákalli landeigenda af Norðausturlandi nýlega. Mér finnst vera sérkennilegt að verða vitni að því að Framsóknarflokkurinn skuli standa í slíkum verkum. En maður er orðinn ýmsu vanur eftir að hafa starfað í fjögur ár á Alþingi, maður er farinn að venjast því að þetta eru verk framsóknarmanna og það virðist ekki skipta neinu máli þó þeir skipti út formanni sínum. Það var formaður áður sem trúði á að safna saman kvóta og atvinnurétti á fárra hendur og það væri lykillinn að því að þjóðinni vegnaði betur. Síðan kalla þeir nýjan formann inn í flokkinn og hann heldur áfram sömu stefnu, þ.e. að reyna að búa til þannig kerfi að atvinnuréttinum sé safnað saman og landsbyggðinni blæðir.

Við í Frjálslynda flokknum höfnum þessu. Við teljum þetta óskynsamlegt og við eigum einfaldlega að snúa af þeirri braut og rökin eru, eins og ég sagði áðan, að það er til hagsældar fyrir borgarbúa að landsbyggðin fái að blómgast og dafna. Það er bara þannig vegna þess, eins og ég sagði, að meiri fjármunir renna af skattfé landsbyggðarinnar og suður á höfuðborgarsvæðið heldur en renna aftur til baka. Sýnt hefur verið fram á það í rannsókn sem gerð var á Bifröst og við í Frjálslynda flokknum viljum fara rækilega í gegnum það og fá þá fram raunverulega sátt um byggðamál og vonandi að hún fáist innan tíðar með nýrri stjórn. Ég verð að segja við íbúa landsbyggðarinnar og sérstaklega sauðfjárbændur að þeir hafa reynt Framsóknarflokkinn allt of lengi. Nú á að leyfa nýjum aðilum að komast að og stjórna þessu miklu betur. Það er miklu auðveldara að gera það en halda áfram í sama gamla framsóknarfarinu.