133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:28]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einhvern tímann var sagt: Segðu sömu lygina aftur og aftur og menn fara að trúa fyrir rest. Þetta er auðvitað málflutningur sem er fyrir neðan allar hellur.

Nú minnist hv. þingmaður á Þingeyjarsýslur. Hér erum við að ræða sauðfjársamning sem mun skipta miklu máli fyrir Þingeyjarsýslur, stuðning til að skapa blómleg bú, öfluga atvinnugrein sem þar á mikinn hljómgrunn. Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir og stjórnarflokkarnir Kárahnjúkavirkjun og stóriðju á Reyðarfirði. Alla daga er verið að skammast yfir því en Austurland hefur risið og þjóðin eignast þar fyrirtæki sem verður góð mjólkurkýr í framtíðinni og mun hafa hag af. Vissulega höfum við reynt margt til þess að efla byggðir landsins og þurfum ekkert að sitja undir svona umræðu.

Sannleikurinn er sá að staða atvinnulífs á Íslandi, um allt land, er auðvitað miklu öflugri en hún var fyrir tólf árum þegar menn fluttu burt af Íslandi. Nú hafa menn þúsundum saman flutt heim og fengið störf í samræmi við sína menntun og sitt hæfi og (Gripið fram í.) sest að úti á landsbyggðinni og hvar sem er. Við skulum átta okkur á að þróunin hefur verið í rétta átt.

Hitt er svo allt annað mál, hv. þingmaður, að það eru alltaf verkefni til að takast á við og hvað kvótakerfið varðar, sem hv. þingmaður er með á heilanum, þá hafa allir flokkar að því komið. Sjávarútvegurinn er mjög sterkur í dag og hefur verið sterkur og verið að efla sig þrátt fyrir þá gengisþróun sem hér hefur verið síðustu árin. Hins vegar þarf auðvitað að skoða þær byggðir sem standa ekki sterkt og það er hið eilífa verkefni sem (Forseti hringir.) við stjórnmálamennirnir erum að fara í.