133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[16:34]
Hlusta

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti, frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Má Ingólfsson frá landbúnaðarráðuneyti, Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Svein Runólfsson frá Landgræðslu ríkisins og Helga Jóhannesson og Gunnar Gunnarsson frá Vegagerðinni.

Markmið frumvarpsins er að leiðrétta yfirsjónir sem urðu við gerð nýju vatnalaganna, nr. 20/2006, sem taka eiga gildi í haust.

Með hliðsjón af meginreglu eignarréttar, „vötn skulu renna sem að fornu hafa runnið,“ er fasteignareiganda ekki heimilt að breyta vatnsfarvegi nema sérstök heimild standi til þess í lögum. Í 14. og 22. gr. nýju vatnalaganna er fjallað um tiltekin úrræði sem fasteignareigandi getur gripið til þegar árfarvegur breytist af völdum náttúrulegra aðstæðna og þegar yfir vofa spjöll af völdum landbrots eða árennslis vatns og enn fremur um íhlutunarvald ráðherra þegar svo háttar til.

Iðnaðarráðherra verður ætlað að fara með yfirstjórn mála samkvæmt nýju vatnalögunum og mun að þeim óbreyttum vera sá ráðherra sem vísað er til í framangreindum lagagreinum. Þá er ráðgert að Orkustofnun muni sinna veigamiklu stjórnsýslu- og eftirlitshlutverki á grundvelli laganna og ber að tilkynna til hennar um allar framkvæmdir í eða við vötn vegna vatnsnýtingar. Þessi skipan mála er í athugasemdum frumvarpsins ekki talin samræmast að öllu leyti þeirri tilhögun sem mælt er fyrir um í 6. tölul. 9. gr. reglugerðar nr. 3/2004, um Stjórnarráð Íslands, þar sem fram kemur m.a. að landbúnaðarráðherra fari með málefni áveitna, fyrirhleðslna og framræslu.

Meiri hluti nefndarinnar fellst á þau meginsjónarmið sem fram koma í athugasemdum en telur þó ástæðu til að leggja til eftirfarandi breytingar:

1. 1. mgr. 2. gr. verði breytt. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að hugsunin að baki gildistökuákvæði frumvarpsins hafi verið sú að leiðrétta mistök sem urðu þegar eignarnámsheimild landbúnaðarráðherra í 55. gr. gildandi vatnalaga var felld niður við gildistöku laga nr. 64/2003, um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði. Nefndin telur eigi að síður eðlilegra að gildistaka frumvarpsins fari saman við gildistöku nýju vatnalaganna.

2. 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. falli brott. Samþykkt þessa ákvæðis hefði það í för með sér að iðnaðarráðherra fengi rýmkaðar heimildir til eignarnáms í því skyni að annast nauðsynlegar framkvæmdir til vatnsveitugerðar, áveitugerðar, orkunýtingar o.s.frv. sem ekki virðist vera í samræmi við tilgang frumvarpsins.

3. Við 2. gr. bætist nýr töluliður til samræmis við óskir Landgræðslu ríkisins. Landgræðsla ríkisins er umsjónaraðili með gerð fyrirhleðslna samkvæmt lögum um landbrot og er tilgangurinn að veita stofnuninni ákveðið svigrúm til athafna án þess að henni beri að tilkynna um það til Orkustofnunar.

Að lokum skal tekið fram að það er skilningur meiri hluta nefndarinnar að fasteignareigendur fari með þær heimildir sem 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins fjallar um þrátt fyrir að Landgræðsla ríkisins sé undir ákveðnum kringumstæðum framkvæmdaraðili í skilningi laga um varnir gegn landbroti.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Einar Már Sigurðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Drífa Hjartardóttir, Jón Kristjánsson, Gunnar Örlygsson, Birkir J. Jónsson og Guðjón Hjörleifsson.