133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[16:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi frú forseti. Það frumvarp sem hér er flutt, um varnir gegn landbroti, er í sjálfu sér fyrst og fremst frumvarp til breytinga á svokölluðum vatnalögum. Vatnalögum sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lagði svo ríka áherslu á að koma í gegnum þingið á síðastliðnum vetri, eða fyrir um ári síðan. Þetta er því mjög kyndug leið til að breyta öðrum lögum til þess að ná fram breytingum á nokkrum þáttum vatnalaganna. Þarna eru atriði sem lúta að, eins og hérna hefur verið gerð grein fyrir, breytingu á vatnsfarvegum sem samkvæmt lögum um varnir gegn landbroti heyrðu undir aðra aðila, heyrðu undir landbúnaðarráðuneytið.

En á ákafanum og offorsinu sem var hér á síðastliðnum vetri í að einkavæða vatnið, þar sem iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins gekk fram af miklu kappi í að fá samþykkt lög sem fólu í sér einkavæðinguna á vatni og vatni sem auðlind, þá sást hún ekki fyrir að einhverju leyti og tók undir iðnaðarráðherrann mál sem hafa heyrt undir landbúnaðarráðherra.

Við bentum á þetta í umræðum á Alþingi fyrir ári síðan og ég minnist þess að hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, kom hér í þá umræðu fyrst og benti á það misræmi sem þarna væri á ferðinni, þ.e. að það væri verið að færa rannsóknir og eftirlit og leyfisveitingar hvað varðaði árfarvegi vegna landbrots, vegna fiskgengdar og sitthvað fleira sem heyrði undir landbúnaðarráðherra, undir einkavæðingarlögin um vatn.

Þegar hæstv. landbúnaðarráðherra var spurður þá kom hann af fjöllum og virtist ekki einu sinni sjálfur hafa lesið það lagafrumvarp sem hann stóð þó að sem ráðherra í ríkisstjórn, um einkavæðinguna á vatni, sem var eitt umdeildasta mál á síðastliðnum vetri. Þetta kom honum í opna skjöldu eins og svo margt annað og þingmenn sem hér voru minnast þess hvernig ástatt var hjá hæstv. ráðherra. Þegar iðnaðarráðherra var spurður álits þá minnir mig að iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins fyndist í hæsta máta eðlilegt að öll þessi mál færu undir iðnaðarráðherra.

Við þingmenn stjórnarandstöðunnar buðumst þá til þess að rétta hlut framsóknarráðherrans Guðna Ágústssonar og flytja strax breytingartillögu við vatnalögin sem tryggðu að þessir málaflokkar sem lutu að vatnsfarvegum til áveitna og til verndar landbroti og til fiskgengdar færu aftur undir landbúnaðarráðherra. En hann hafði ekki dug í sér til þess þá og af því varð ekki. Svo er núna gripið til þess af hæstv. landbúnaðarráðherra, og það má því segja honum svona til hróss að á síðustu dögum sínum sem landbúnaðarráðherra vill hann fara að reyna að draga þessa vitleysu í land, vitleysuna sem fór með inn í vatnalögin. (Gripið fram í.) Ja, þegar menn seint og um síðir sýna viðleitni í þá átt, sérstaklega þegar þeir sjá að tími þeirra er útrunninn, þá á að leyfa mönnum að njóta pínulítils sannmælis. Ég geri það, frú forseti. Hann hefur flutt hér frumvarp þar sem kveðið er á um að þau atriði sem fóru undan landbúnaðarráðherra og inn í vatnalög iðnaðarráðherra verði að nokkru leyti flutt til baka.

Í sjálfu sér geri ég ekki efnislegar athugasemdir við það þótt menn reyni að bæta þar úr. En hitt ber að hafa í huga að hér er verið að flytja lagabreytingar við allt önnur lög því hér er verið að flytja tillögu til breytingar á lögum um vatnalögin. Ég vil benda forseta á það og forseti ætti að beita sér í því að svona vinnubrögð séu ekki viðhöfð á þinginu, að láta önnur lög taka yfir ágalla laga sem heyra undir annan ráðherra. En þá er flutt hér frumvarp um að breyta vatnalögunum.

Hefði ekki verið bara eðlilegra að flytja hér breytingartillögu við vatnalögin? Þau lög eru svo meingölluð þó að þau séu ekki enn komin til framkvæmda. Eins og við munum eftir á síðasta þingi var það m.a. fyrir kröfu samstilltrar stjórnarandstöðu, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins hér á þingi að samið var um að gildistöku ákvæða þeirra yrði frestað til, að mig minnir, 1. nóvember 2007, þ.e. eftir næstu kosningar. Jafnframt lýstu þeir þrír flokkar sem stóðu mjög þétt saman hvað þetta mál varðaði, yfir því að það yrði þeirra fyrsta verk að afnema einkavæðinguna á vatnsauðlindinni.

Maður veltir fyrir sér í þessu sambandi að Framsóknarflokkurinn sem hefur nú leitt þessa einkavæðingu, leitt einkavæðinguna í orkumálunum, leitt einkavæðinguna í raforkunni, leitt einkavæðingu vatnsins, var svo að mig minnir að samþykkja á flokksþingi sínu um daginn að nú væri einkavæðingunni lokið. Nú mundu þeir gera hlé á frekari einkavæðingu um sinn að minnsta kosti.

Mér sýnist reyndar allt vera á fullu í þeim efnum. Átti ekki að fara að einkavæða hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og selja það hæstbjóðanda? Í staðinn fyrir að ef ríkið vildi losa sig við hlutinn í Hitaveitu Suðurnesja þá væri hann afhentur viðkomandi sveitarfélögum sem eiga hinn hlutann. Nei, þá er valið að einkavæða það og setja á opinberan markað. Þannig að mér finnst nú ekki fara saman orð hæstv. iðnaðarráðherra og núverandi formanns Framsóknarflokksins annars vegar og hins vegar orð hans á flokksþinginu þegar hann var að tala um að nú ætti að fara að hægja á einkavæðingunni. Einkavæðing Iðnskólans er t.d. á fullu, að því er kom fram máli ráðherra fyrir nokkru síðan, þannig að einkavæðingin er nú á fleygiferð þó að framsóknarmenn segi um eitthvað að það sé ekki einkavæðing, þá er það náttúrlega eins og annað sem þeir segja í þeim efnum.

En hefði ekki verið rétt að taka öll vatnalögin upp núna og við hefðum þá sameinast um að taka einkavæðingarákvæðin alveg út úr vatnalögunum? Ég held að fátt sé þjóðinni óvelkomnara en að við förum að einkavæða vatnið. Að óbreyttu, þ.e. verði þessi ríkisstjórn áfram, þá koma þau lög til framkvæmda sem voru samþykkt á síðasta þingi, þ.e. að auðlindin vatn verði færð í einkaeignarrétt og eignfærð sem slík.

Frú forseti. Lögin sem nú á að setja eru mjög skondin því þetta er þá frumvarp til breytinga á lögum um varnir gegn landbroti sem lúta að vatnalögunum sem eru ekki enn komin til framkvæmda. Það er því verið að flytja tillögu til breytinga á lögum sem ekki eru komin til framkvæmda og koma vonandi aldrei til framkvæmda. Þetta eru mjög skrýtin vinnubrögð af hálfu Alþingis. Ég varpa eiginlega þeirri spurningu til hæstv. forseta, hvort forseti telji það eðlileg vinnubrögð, að vera að flytja hér frumvarp til breytinga á lögum við allt önnur lög, lög sem ekki eru einu sinni komin til framkvæmda og koma vonandi aldrei til framkvæmda. Ég dreg í efa að svona lagað sé nú bara stjórnsýslulega rétt.

Annars ef ég ætti að rifja upp umræðuna um vatnið, um einkavæðingu á vatni, sem fór fram í fyrra, vatnalögin þar sem var kveðið svo á um að allt vatn skuli verða einkaeign, og svo skuli það renna til sjávar. Að allt vatn hvort sem það væri í fljótandi eða föstu formi skyldi getað lotið einkaeignarréttindum. Við gætum svo sem endurtekið (Forseti hringir.) þá umræðu hér, frú forseti. En við getum látið það bíða næstu ræðu minnar.

(Forseti (SAÞ): Forseti hyggst gera hlé á þessum fundi í eina klukkustund og spyr hv. þingmann hvort komið sé að lokum í ræðu hans.)

Tuttugu sekúndur. Frú forseti. Þetta frumvarp sem hér er verið að tala um, breytingu á lögum um varnir gegn landbroti er algjörlega óþarft. Vatnalögin sem slík verða numin úr gildi og þegar þar að kemur og við höfum skipt um ríkisstjórn í vor þá verður þetta allt fært til betri vegar.