133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[20:55]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur ekkert sjónarspil átt sér stað. Hafi verið sjónarspil á ferðinni var það hinn alræmdi blaðamannafundur stjórnarandstöðunnar hér 5. mars sl. sem hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar hannaði.

Við lögðum fram í góðri trú tillögu sem við héldum að samstaða gæti orðið um. Við gerðum heiðarlega tilraun til að finna lausn sem allir gætu sætt sig við. Það er greinilegt að stjórnarandstaðan hafði ekki áhuga á þeirri lausn þó að hún sé útfærsla á því sem stendur í stjórnarsáttmálanum og búið hafi verið að segja af hálfu stjórnarandstöðunnar að hún gæti fellt sig við slíka lágmarksbreytingu.

Við ætlum ekki að knýja fram stjórnarskrárbreytingu í krafti þess meiri hluta sem við höfum á Alþingi að baki ríkisstjórninni gegn stjórnarandstöðunni. Það ætlum við ekki að gera. Og í ljósi þess að ekki er samstaða um þetta mál og í ljósi þess jafnframt að fram hafa komið margvísleg lögfræðileg sjónarmið, að vísu misvísandi og ekki öll í eina átt, er eðlilegt að menn taki þetta til frekari athugunar í stjórnarskrárnefndinni og fari yfir öll þau sjónarmið sem upp hafa komið og hið nýja efni sem lagt hefur verið fram í sérnefndinni um stjórnarskrármál.

Af þessu drógum við þess vegna þá ályktun, við formenn stjórnarflokkanna, að rétt væri að fara þá leið sem ákveðin var í sérnefndinni í dag. Sú er niðurstaða málsins. Gremja formanns Samfylkingarinnar hlýtur að beinast að þeim sem héldu hér blaðamannafund þann 5. mars og hrundu þessu öllu af stað.