133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[20:59]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Meginatriði þeirrar atburðarásar sem við höfum upplifað í dag er að stjórnarandstaðan er uppvís að því að ganga algerlega á bak orða sinna, svíkja öll sín orð og öll sín ummæli. Hún hélt fjölmiðlafund undir forustu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar 5. mars sl. Þar gerði hún stjórnarflokkunum tilboð. Á fundinum, eins og fram kom í fjölmiðlum, lýsti hún meira að segja nánar inntaki þeirra hugmynda sem hún hafði, og frumvarp okkar formanna stjórnarflokkanna er mjög í samræmi við það. Síðan kemur í ljós að hún getur ekki staðið við eitt einasta orð af því sem hún segir. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Hún ætlar að nota stjórnarskrá (Forseti hringir.) lýðveldisins sem bitbein í pólitísku tafli af fullkomnu ábyrgðarleysi og þess vegna er sneypuför (Gripið fram í.) og óvirðing stjórnarandstöðunnar algjör í þessu máli.

Við hins vegar lýstum því margsinnis yfir að við vildum víðtæka sátt í málinu. Við vildum samstöðu um málið og þess vegna er mjög eðlileg sú atburðarás af okkar hálfu sem verður í dag þegar búið er að setja öll þingstörfin í gíslingu út af þessu. (Gripið fram í.) Sneypa stjórnarandstöðunnar er algjör í þessu (Forseti hringir.) máli.

(Forseti (JónK): Ég ætla að biðja hv. þingmenn að gefa ræðumönnum hljóð.)