133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[21:03]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er einhver dapurlegasti dagur sem ég hef verið hér í þinginu. Þetta er ömurleg niðurstaða. Stjórnarflokkarnir lofuðu fólki — eftir hvað? — eftir miklar umræður í aðdraganda síðustu kosninga lofuðu stjórnarflokkarnir því að það skyldi sett ákvæði í stjórnarskrána um sameign á auðlind þjóðarinnar í hafinu. Þetta eru efndirnar.

Þeir höfðu þetta í stjórnarskrárnefnd og sendu þangað fulltrúa sem voru alfarið á móti því að gera þennan hlut. Síðan var málið sett fast í nefndinni. Það var ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn sem gerði það, Framsóknarflokkurinn lét það auðvitað yfir sig ganga vegna þess að í hans röðum er fólk sem vill þetta ekki heldur þó að því hafi verið lofað.

Það er nákvæmlega sama niðurstaðan sem varð núna í sérnefndinni, þar birtist samtrygging Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í þessu máli. Þar var neitunarvald Sjálfstæðisflokksins viðurkennt í málinu, eins og þeir höfðu í stjórnarskrárnefndinni. (Gripið fram í: Samfylkingin …) Fyrir fram var vitað að sú niðurstaða sem var send inn í þingið gæti aldrei gengið. Það vissu sjálfstæðismenn enda hafa þeir hlegið hér í öllum hornum að Framsóknarflokknum. Auðvitað gekk það ekki að lýsa yfir þjóðareign á sauðkindinni eða hænsnunum eins og var þarna. Auðvitað gekk það ekki, það vissu allir. Framsóknarflokkurinn lét það samt yfir sig ganga og aumingjadómurinn fylgir þeim inn í næstu kosningar.

Ég er hræddur um að hæstv. landbúnaðarráðherra eigi erfitt með að útskýra þetta ákvæði sem hann ætlaði að setja í stjórnarskrána um hænsnin og sauðkindina. Þetta er niðurstaðan, þetta eru efndirnar sem fólkinu var lofað fyrir síðustu kosningar. Og það verður örugglega rifjað upp í (Forseti hringir.) aðdraganda kosninganna fram undan.