133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[21:09]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það er vægast sagt mjög sérkennilegt að verða vitni að þessari atburðarás. Hér kom hæstv. iðnaðarráðherra í vikunni og sagði að um grundvallarbreytingu væri að ræða, meiri háttar breytingu. Síðan fóru menn að deila um hvað þetta þýddi. Það komu upp raddir, m.a. úr barka hæstv. umhverfisráðherra, um að þetta væri til þess að koma í veg fyrir að það myndaðist einhver eignarréttur og þess vegna væri nauðsynlegt að setja þetta ákvæði inn í stjórnarskrána.

Svo voru aðrir sem sögðu að þetta væri sýndarákvæði og nú sýnist mér sem stjórnarforingjarnir séu orðnir sammála um að þetta hafi bara verið sýndarákvæði og ákveðið að draga það til baka. En mér finnst að þeir skuldi þjóðinni betri ástæðu fyrir því að draga þetta til baka en að benda á blaðamannafund sem var haldinn áður en þetta ferli þeirra fór í gang. Þetta er fáránlegt og maður spyr sig hvort hæstv. forsætisráðherra ætli að láta taka sig alvarlega — ætlar hann að gera það? — með því að koma með svona skýringu. Mér finnst alveg úr út kortinu að benda á að það sé blaðamannafundur sem fór fram áður en þeir settu fram þetta frumvarp. Hvers konar vitleysa er þetta?

Ég er alveg hættur að skilja þetta og ég vona að hæstv. forsætisráðherra útskýri þetta. Þetta er kannski álíka og efnahagsaðgerðirnar hans, (Forseti hringir.) þegar hann dró úr þenslu á þeim svæðum þar sem ríkti samdráttur. Ég veit það ekki.