133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

minning tveggja alda afmælis Jóns Sigurðssonar forseta.

704. mál
[22:04]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil í örstuttu máli lýsa fyllsta stuðningi mínum við þessa prýðilegu tillögu sem flutt er hér sameiginlega af öllum formönnum íslensku stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi.

Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur. Þannig stendur Jón Sigurðsson í minningu okkar Íslendinga og það er mjög við hæfi að á 200 ára afmæli hans verði gripið til margvíslegra hátíðarhalda á þeim tímamótum. Sömuleiðis ber að rifja það upp að árið 1911 var Háskóli Íslands settur á stofn beinlínis til þess að minnast einmitt frumkvæðis forseta, sem reyndar á sínum tíma sat hér lengst allra sem gegnt hafa því starfi.

Jón Sigurðsson var forustumaður á hinu endurreista Alþingi Íslendinga. Í minningu allra og hugum allra Íslendinga er hann órjúfanlegt tákn sjálfstæðis okkar, baráttu fyrir fullveldinu og hans ber að minnast með sem mestum sóma. Því vil ég segja að ég fagna þessari tillögu og ég fagna því sérstaklega að sóma hans er sérstök virðing sýnd með því að auk þess sem flokkarnir og forseti þingsins tilnefna í nefndina þá á Hrafnseyrarnefnd jafnframt kost á því að tilnefna einn til þess að sjá um þau verk sem hrint verður í framkvæmd til þess að minnast þessara tímamóta. Það var einmitt á lýðveldisárinu sem sú nefnd var á stofn sett, eða a.m.k. samþykkt á Alþingi þó að hún hafi tekið til starfa árinu síðar, og hún hefur með margvíslegum hætti sýnt þessum syni sínum, eða a.m.k. syni Hrafnseyrar við Arnarfjörð, sóma eins og vera ber.

Ég fagna þessu framtaki þingsins.