133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

minning tveggja alda afmælis Jóns Sigurðssonar forseta.

704. mál
[22:08]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil í fáeinum orðum lýsa yfir ánægju með þennan tillöguflutning og stuðningi við ályktunina. Ég held að það sé verðugt verkefni að taka saman efni um Jón Sigurðsson, kannski ekki hvað síst um skoðanir hans og sjónarmið sem hann setti fram og notaði svo vel í þjóðfrelsisbaráttunni, að sannfæra Íslendinga um mátt þeirra og megin og möguleika á að stefna í átt til frelsis sem þjóð og áhersla hans á viðskiptafrelsi og ávinning af því að taka upp breytingar á því sviði frá því sem lengi hafði verið á hér á landi fram að þeim tíma. Ekki síst held ég að mikilvægt sé að leggja áherslu á hugmyndir hans og hugsjónir þegar minnst er tveggja alda afmælis hans.

Í öðru lagi held ég að það sé vel við hæfi að þjóðin sýni staðnum mikla virðingu eins og vert er á þessum tímamótum, bæði með húsbúnaði og öðrum aðbúnaði á staðnum, aðkomu að honum, vegum og öðru sem þarf að vera í góðu lagi til þess að landsmenn og aðrir gestir eigi greiða leið að staðnum. Ég vil stinga því að, virðulegi forseti, vegna þess að að skiptir miklu máli fyrir staðinn að menn hugi mjög vandlega að samgöngumálum, að samgöngum við Hrafnseyri sem eru með þeim hætti að það er mikil þörf á að þar verði breyting á frá því sem nú er, ekki bara hvað varðar vegi sem liggja að staðnum, hvort heldur það er yfir Hrafnseyrarheiði eða inn með firðinum, heldur þarf líka að huga að varanlegri vegagerð sem þingmenn kjördæmisins og hæstv. ríkisstjórn hafa lagt áherslu á í þeirri tillögu að samgönguáætlun sem liggur fyrir þinginu.

Í þriðja lagi held ég, virðulegi forseti, að það sé rétt sem minnst er á í greinargerðinni að tengja hátíðarhöldin við aldarafmæli Háskóla Íslands. Það var jú eitt af merkjum þess að Íslendingar voru að verða sjálfstæð þjóð og sækja sér þann kraft sem þarf til að rísa undir því að flytja heim til Íslands háskólann og menntunina sem var auðvitað að mörgu leyti forsenda þeirra framfara sem síðar urðu og hafa verið samfellt á þeirri öld sem er að verða liðin frá þeim tíma. Grundvöllurinn að framförum og sjálfstæði þjóðarinnar liggur auðvitað mjög mikið í menntuninni og háskólanum sem komið var á fót á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Ég held að það væri verðugt verkefni að huga að því að halda áfram á þeirri braut og huga að háskóla á Vestfjörðum, á Ísafirði, og tengja það við tveggja alda afmæli Jóns Sigurðssonar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en í fjarveru formanns Frjálslynda flokksins, sem er einn af flutningsmönnum, sting ég þessum orðum inn í umræðuna en legg að lokum áherslu á að sem mest verði gert úr því sem ég hygg að sé merkasta framlag Jóns Sigurðssonar sem eru hugmyndir hans og stefnumál sem voru Íslendingum svo mikil hvatning á framfarabraut sinni.