133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[22:36]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá sjávarútvegsnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Múla Jónasson og Arndísi Ármann Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Friðrik J. Arngrímsson og Björgólf Jóhannsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Aðalstein Þorsteinsson frá Byggðastofnun, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og útgerðarmennina Gísla Jón Kristjánsson, Arnar Kristjánsson og Hauk Jónsson. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Byggðastofnun, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, Siglingastofnun Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Ísafjarðarbæ, Sveitarfélaginu Skagafirði, Grundarfirði, Húnaþingi vestra, Vestmannaeyjabæ, Akureyrarbæ, Langanesbyggð, Norðurþingi, Reiknistofu fiskmarkaða, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fiskvinnslustöðva, Sjómannasambandi Íslands og Félagi skipstjórnarmanna.

Tilurð frumvarpsins má rekja til nokkurra álita umboðsmanns Alþingis þar sem tilhögun á úthlutun aflaheimilda skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, hefur verið gagnrýnd. Að meginstefnu til fer úthlutun fram í þremur áföngum. Fyrst þarf að ákveða hve mörgum þorskígildistonnum, sem ráðherra hefur samkvæmt lagagreininni til ráðstöfunar, skuli úthlutað. Í annan stað þarf að ákvarða hversu miklar aflaheimildir komi í hlut hvers byggðarlags. Loks þarf að ákveða hvernig staðið skuli að framkvæmd úthlutunar aflaheimilda til einstakra skipa. Á fundum nefndarinnar kom fram að nokkur sátt virðist hafa ríkt um heildarmagn byggðakvótans og ráðstöfun hans til einstakra byggðarlaga en hvort tveggja hefur sjávarútvegsráðherra ákveðið á grundvelli ákveðinna forsendna og að teknu tilliti til þeirra röksemda sem búa að baki byggðakvóta. Á hinn bóginn er það skoðun umboðsmanns að nokkuð hafi skort á að úthlutun byggðakvóta til einstakra skipa hafi farið fram á grundvelli samræmdra reglna sem tryggi jafnræði meðal borgara landsins sem í hlut eiga. Er því haldið fram að sjávarútvegsráðherra hafi án þess að hafa viðhaft nægilegt eftirlit framselt einstökum sveitarstjórnum fullrúmar heimildir til íhlutunar við gerð úthlutunarreglna og töku ákvarðana um endanlega skiptingu aflaheimilda milli fiskiskipa innan byggðarlaga sinna. Slíkt valdaframsal stangist á við framangreinda lagagrein fiskveiðistjórnarlaga þar sem kveðið er á um ábyrgð ráðherra á framkvæmd úthlutunar.

Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er upprunalega sá að færa sveitarstjórnum ákvörðunarvald um úthlutun byggðakvótans til einstakra skipa en þó þannig að sjávarútvegsráðherra er falið að setja reglugerð um almenn samræmd skilyrði úthlutunar sem tekur til alls landsins. Af sjálfu leiðir að frjálst mat sveitarstjórna um þessi efni ræðst þá að miklu leyti af því hversu ítarlegar reglur eru settar í reglugerð og í annan stað í hve miklum mæli ráðherra heimilar sveitarstjórnum svigrúm til að taka mið af staðbundnum aðstæðum við setningu viðbótarskilyrða fyrir úthlutun, sbr. 5. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að ákvarðanir sveitarstjórna um úthlutun byggðakvóta sæti endurskoðun sérhæfðrar úrskurðarnefndar sem þrír einstaklingar eiga sæti í.

Eins og ráða má af framangreindu er frjálst mat sveitarfélaga við úthlutun byggðakvóta til einstakra skipa háð því hversu ítarlegar reglur ráðherra setur. Þá hafa komið fram við umfjöllun nefndarinnar vissar efasemdir um hversu vel sveitarfélögin séu fær um að annast framkvæmd úthlutunar. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur til að mynda bent á að þótt vænta megi að sveitarfélög séu í ljósi staðbundinnar kunnáttu betur til þess fallin að annast verkefnið en ríkisvaldið kunni reynsla sumra sveitarfélaga af úthlutun að valda því að þau séu ekki hlynnt því að taka það að sér.

Framangreindar athugasemdir hafa leitt til þess að nefndin hefur ákveðið, að höfðu samráði við sjávarútvegsráðuneytið, að leggja til nánar tilgreindar breytingar sem miða helst að því að renna tryggari stoðum undir þá framkvæmd sem viðhöfð hefur verið hjá ríkinu í stað þess að færa ákvörðunarvald í þessum efnum til sveitarfélaganna án þess þó að þau glati rétti sínum til íhlutunar.

Breytingarnar felast einkum í því að hlutverk Byggðastofnunar skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. fiskveiðistjórnarlaga haldist óbreytt og að Fiskistofa taki að sér í stað sveitarfélaga að úthluta til fiskiskipa aflaheimildum sem koma í hlut einstakra byggðarlaga. Áfram er hins vegar gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um úthlutun aflaheimilda til einstakra byggðarlaga og að þar komi m.a. fram skilgreining á hugtakinu byggðarlag og viðmiðunar- og útreikningsreglur. Þá verði ráðherra heimilað, eins og núgildandi lög gera ráð fyrir, að gefa út reglugerð sem kveður á um hvaða botnfiskstegundir komi til úthlutunar, auk þess sem kveðið verði á um að aflaheimildir sem tilheyra byggðakvótanum skuli skiptast milli tegunda í hlutfalli við leyfilegt heildarmagn í tegundunum.

Enn fremur verði ráðherra falið að gefa út reglugerð fyrir landið allt um samræmd skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan hvers byggðarlags sem þó eru ekki að öllu leyti hin sömu og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Honum verði auk þess heimilt að fallast á tillögur einstakra sveitarstjórna um sérstök skilyrði er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum svo fremi sem þau styðjast við málefnalegar og staðbundnar ástæður og þjóna hagsmunum viðkomandi byggðarlaga. Þá er lagt til að eftir að slíkar tillögur sveitarstjórna hafa borist ráðuneytinu verði því skylt að birta þær með aðgengilegum hætti, t.d. á heimasíðu sinni, eigi síðar en sjö dögum áður en tekin verður afstaða til þess hvort fallist verður á þær eða ekki. Er þetta gert til að gefa þeim sem kunna að hafa ábendingar um efni tillagnanna kost á að kynna sér þær og gera athugasemdir við þær.

Virðulegi forseti. Áfram er gert ráð fyrir að framsal byggðakvóta sé að meginstefnu til óheimilt nema fram fari jöfn skipti á aflaheimildum í þorskígildum talið. Framsalsbannið verður þó að skoða með hliðsjón af þeim áskilnaði sem nefndin leggur til, þ.e. að fiskiskip sem fær úthlutað einu tonni af byggðakvóta hafi landað, eða verði gert skylt að landa, til vinnslu tveimur tonnum innan hlutaðeigandi byggðarlags miðað við þorskígildi (tonn á móti tonni). Ráðherra verði falið að setja nánari reglur um útfærslu löndunar- og vinnsluskyldunnar, auk þess sem honum verður heimilað, að fengnum tillögum sveitarstjórna, að víkja skyldunni til hliðar ef fyrir liggur að sú tilhögun samræmist málefnalegum og staðbundnum þörfum byggðarlags. Þannig getur skyldan orðið meiri eða minni og eftir atvikum fallið niður ef aðstæður eru með þeim hætti. Mætti til að mynda hugsa sér að ráðherra heimilaði tilslakanir ef fiskiskip þyrftu í ríkum mæli að útvega sér aflaheimildir á leigumarkaði til að unnt væri að efna að fullu löndunar- og vinnsluskylduna. Einnig væri hugsanlegt að vikið yrði frá löndunarskyldu og/eða vinnsluskyldu ef engin löndunarstarfsemi eða vinnsla er fyrir hendi innan viðkomandi byggðarlags. Erfitt er að koma auga á allar málefnalegar og staðbundnar þarfir sem réttlætt geta frávik en ráðherra ber undir öllum kringumstæðum að meta þær sjálfstætt með hliðsjón af þeirri meginhugsun að byggðakvóta skuli að jafnaði nýta til þess að ná fram þeim margfeldisáhrifum sem að framan er getið til hagsbóta fyrir byggðarlögin.

Í tengslum við framangreint skal einnig tekið fram að á fundum nefndarinnar var lýst yfir almennri ánægju með þá tilhögun, sem lögð er til í b-lið 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, að aflaheimildum megi ráðstafa til allt að þriggja ára í senn enda er hún til þess fallin að auka á festu í framkvæmd og auðvelda þeim sem fá úthlutað að gera ráðstafanir fram í tímann til hagsbóta fyrir hlutaðeigandi byggðarlög. Forsenda þessa mun þó ávallt vera sú að viðkomandi útgerðir fullnægi skilyrðum úthlutunar á tímabilinu.

Nefndin leggur til að fallið verði frá áformum um að setja á stofn sérstaka úrskurðarnefnd og að í stað þess verði ákvarðanir Fiskistofu kæranlegar til sjávarútvegsráðuneytisins. Kærufrestur verði tvær vikur og það skilyrði sett að úthlutun fari eigi fram fyrr en að því tímamarki liðnu. Jafnframt er lagt til að ráðherra verði heimilt að fresta úthlutun til fiskiskipa í tilteknu byggðarlagi að hluta eða öllu leyti þar til lokið er afgreiðslu á kærum sem borist hafa vegna úthlutunar þar.

Virðulegi forseti. Loks leggur nefndin til tvær breytingar á 3. gr. frumvarpsins. Annars vegar þá að a-liður greinarinnar falli brott sem þýðir að 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. fiskveiðistjórnarlaga helst óbreyttur, auk þess sem ráðherra verði falið að setja reglugerð um ráðstöfun aflaheimilda samkvæmt þessum tölulið. Hins vegar leggur nefndin til breytingu á b-lið greinarinnar sem ætlað er að tryggja að sú ráðstöfun sem þar er mælt fyrir um hafi ekki áhrif á forsendur sem lagðar eru til grundvallar við úthlutun skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna, sbr. og 3. og 4. mgr.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Guðjón A. Kristjánsson og Jón Bjarnason skrifa undir álitið með fyrirvara.

Jóhann Ársælsson og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið skrifa hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðjón Ólafur Jónsson, Jón Bjarnason, með fyrirvara, Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara, og Kjartan Ólafsson.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum frá sjávarútvegsnefnd við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

1. Við 1. gr. Greinin orðist svo:

10. gr. laganna orðast svo:

Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski og hann getur ráðstafað þannig:

1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda.

2. Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig:

a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski.

b. Til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Heimilt er að ráðstafa aflaheimildum samkvæmt þessum lið til allt að þriggja ára í senn.

Aflaheimildir samkvæmt þessari grein skulu skiptast milli tegunda í hlutfalli við leyfilegt heildarmagn í tegundunum og skulu dregnar frá leyfðum heildarafla þessara tegunda áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeilda. Í reglugerðum sem ráðherra setur skv. 3. og 4. mgr. skal kveðið á um hvaða botnfiskstegundir komi til úthlutunar.

Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um ráðstöfun aflaheimilda skv. 1. tölul. 1. mgr.

Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um ráðstöfun aflaheimilda skv. 2. tölul. 1. mgr. Þar skal kveðið á um skilgreiningu á byggðarlagi, viðmiðunar- og útreikningsreglur og aðrar reglur um úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga.

Ráðherra setur í reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda skv. 2. tölul. 1. mgr. til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar. Ráðherra getur heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Eftir að slíkar tillögur sveitarstjórna hafa borist skulu þær birtar með aðgengilegum hætti, svo sem á vefsíðu ráðuneytisins, eigi síðar en sjö dögum áður en tekin verður afstaða til þeirra. Fallist ráðherra á tillögur sveitarstjórna um slík skilyrði staðfestir ráðuneytið tillögurnar og auglýsir þær í B-deild Stjórnartíðinda.

Framsal aflaheimilda, sem úthlutað er skv. 2. tölul. 1. mgr., er óheimilt, en þó skulu heimil jöfn skipti á aflaheimildum í þorskígildum talið. Framsal aflaheimilda samkvæmt töluliðnum skal þó vera heimilt hafi fiskiskip efnt löndunar- og vinnsluskyldu í samræmi við 7. mgr.

Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemur í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ráðherra er heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.

Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda, sem koma í hlut einstakra byggðarlaga, til fiskiskipa. Ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessari grein er heimilt að kæra til sjávarútvegsráðuneytisins. Kærufrestur er tvær vikur frá tilkynningu Fiskistofu um úthlutun eða höfnun umsóknar um úthlutun, og skal úthlutun ekki fara fram fyrr en að þeim fresti liðnum. Skal ráðuneytið leggja úrskurð á kærur innan tveggja mánaða. Ráðuneytið getur ákveðið að úthlutun aflaheimilda til skipa í tilteknu byggðarlagi verði frestað að hluta eða öllu leyti þar til það hefur lokið afgreiðslu á kærum sem borist hafa vegna úthlutunar þar.

2. 2. gr. verði 3. gr.

3. Við 3. gr., er verði 2. gr. Greinin orðist svo:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:

Á fiskveiðiárunum 2006/2007, 2007/2008 og 2008/2009 skal ráðstafa hluta þeirra aflaheimilda, sem tilgreindar eru í 1. mgr. 10. gr., til þeirra byggðarlaga sem fengið hafa úthlutað aflaheimildum á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXVI í lögum nr. 38/1990, sem hér segir: 750 þorskígildislestum á fiskveiðiárinu 2006/2007, 500 þorskígildislestum á fiskveiðiárinu 2007/2008 og 250 þorskígildislestum á fiskveiðiárinu 2008/2009 og skulu þær skiptast milli byggðarlaga í sömu hlutföllum og úthlutun samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skiptist á fiskveiðiárinu 2005/2006. Úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessu ákvæði skal ekki hafa áhrif á ákvörðun um ráðstöfun aflaheimilda skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 10. gr., sbr. 3. og 4. mgr. sömu greinar. Um framkvæmd þessa ákvæðis gilda að öðru leyti ákvæði 2. mgr. og 5.–8. mgr. 10. gr. og reglur settar samkvæmt þeim.

Virðulegi forseti. Mikil og góð samstaða var í sjávarútvegsnefnd varðandi þessar breytingartillögur og voru þær einnig unnar í góðri sátt við hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég þakka nefndarmönnum fyrir gott starf í nefndinni og færi sérstakar þakkir hv. þm. Jóni Gunnarssyni sem vann mikið með mér í þessum málum og þessum breytingartillögum en hann var staddur erlendis á vegum Alþingis þegar málið var tekið út.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði frumvarpinu vísað til 3. umr.