133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[22:55]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu er mjög erfitt annars vegar að halda því fram að menn eigi að auka veiðiskylduna og minnka framsalið og hins vegar að gefa svigrúm hjá nýjum mönnum til að koma inn í greinina. Þetta skarast svolítið og við þurfum að hugsa þetta alveg rétt þannig að öll tannhjól grípi í þessu ferli. En engin launung er á því að oft eru samlegðaráhrif við breytingar, eins og við gerðum á smábátakerfinu. Skipum hefur fækkað, þau hafa stækkað og alveg ljóst, ég held að hv. þm. Jón Bjarnason viti af því í kjördæmi sínu að þar eru stærri skip komin og veiða á fleiri árstímum, það eru ekki sumarveiðar í dag á smáskipum eins og verið hefur.