133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[23:00]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Á eftir gefst betra tækifæri en í stuttum andsvörum til að ræða efnisatriði málsins. En ein er sú spurning sem vaknar þegar farið er yfir frumvarpið. Við höfum ekki í höndunum endanlega reglugerð frá sjávarútvegsráðherra, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir að samin verði. Mig langar að spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar, Guðjón Hjörleifsson: Hvaða aðstæður sér hann fyrir sér að réttlæti sérstakar reglur fyrir ákveðin sveitarfélög?

Í áliti umboðsmanns Alþingis var gert ráð fyrir að vera þyrftu almennar reglur fyrir alla. Hér er gert ráð fyrir að hægt sé að veita sérstaka undanþágu og setja sérstakar reglur fyrir ákveðin sveitarfélög ef þau benda á að þau þurfi á því að halda. Mig langar því að spyrja hv. formann hvaða atriði hann sjái fyrir sér að geti kallað á slíkar reglur.