133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[23:04]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að þetta mál skuli bera á góma og ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir það. Í lögunum voru forkaupsréttarákvæði. Ef skip var selt gat sveitarfélag nýtt sér forkaupsrétt innan 30 daga. Ég lenti í því sem bæjarstjóri Vestmannaeyja að hafa milligöngu um að nýta forkaupsrétt varðandi fimm skip. Ekkert sveitarfélag gerði eins mikið af því og við þá. Þetta er mjög vandmeðfarið. Þá eru gerðir sjálfstæðir samningar og ekki er hægt að framselja kaupsamninginn. Síðan gerðist það, þegar menn voru svona harðir að reyna að halda skipum heima í héraði, að þeir stofnuðu hlutafélag í viðkomandi sveitarfélagi og fóru í kringum lögin.

Við ræddum það töluvert úti í Eyjum hvort koma ætti forkaupsréttarákvæðinu inn til sveitarfélaganna, að menn hefðu svigrúm til að halda aflaheimildum heima í héraði. En þeir sem stjórnuðu málum þá vildu það ekki og þetta hefur ekki mikið verið rætt síðan.