133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[23:06]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála þessu. Ég er mjög hrifinn af kvótakerfinu og held að það sé mjög gott. Við stjórnum veiðunum og við þurfum að verja ákveðna stofna. Sumir stofnar eru í lægð og aðrir á leiðinni upp og virkilega gaman að sjá það. Ég held að þessi stjórn okkar byggist líka á að fiskveiðum og fiskvinnslu er stjórnað á ársgrundvelli. Það væri mjög ábyrgðarlaust að veiða villt og opið. Menn mundu einnig veiða fiskinn á skemmri tíma og það mundi bitna á fiskvinnslunni.

Við þingmenn Suðurkjördæmis getum verið ánægðir með að aðilar í okkar kjördæmi ákváðu að lifa í þessu kerfi og vinna samkvæmt því. Þeir hafa verið mjög duglegir að veiða aflaheimildir. Til Vestmannaeyja var að koma nýsmíðað skip frá Póllandi og annað nýtt skip er á leiðinni. Menn eru mjög öflugir þar og svo kemur meiri hreyfing á þetta þegar við erum búin að ná stofnunum upp.