133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[23:08]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er klukkan að ganga tólf. Mig langaði að spyrja hæstv. forseta hvað hann ætlaði að láta fundinn standa lengi. Ég veit að margir eiga eftir að setja sig á mælendaskrá og aðrir sem eru ekki komnir til þings hefðu gjarnan viljað taka þátt í þessari umræðu, t.d. hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

Við ræðum hér mikilvægt mál, þ.e. byggðakvóta sem er eina vörnin sem eftir er fyrir byggðirnar við sjávarsíðuna sem víða standa illa. Mig langar því að spyrja hvort það sé við hæfi, þegar svo alvarleg mál eru rædd, að hafa þau svo seint dagskrá. Er það með ráðum gert að hafa þetta seint til þess að komast hjá því að umræðan fari fram í dagsljósi og fái þá athygli sem henni ber? Mér finnst staðan víða á landinu það alvarleg að brjóta eigi þessi mál til mergjar í dagsbirtu. Það gengur ekki að ræða sjávarútvegsmálin í kringum miðnættið og hefja jafnvel umræðu um slík mál, sem snúast m.a. um byggðir landsins.

Það er kannski með ráðum gert að haga dagskránni þannig en ég sætti mig ekki við það. Mér finnst þetta ekki við hæfi, sérstaklega þegar fréttir berast, m.a. frá Bakkafirði um að byggðin sé jafnvel að leggjast af vegna þess kerfis sem við erum að ræða. Byggðakvótarnir eru þá eina vörnin og þá má ekki ræða í dagsbirtu. Er hægt að fá svör við því, herra forseti, hvað þessi fundur á að standa lengi yfir?

(Forseti (JónK): Hefur hv. þingmaður lokið máli sínu?)

Nei, ég var nú eiginlega að bíða eftir svari frá hæstv. forseta.

(Forseti (JónK): Ég verð að biðja hv. þingmann að ljúka máli sínu og síðan mun forseti taka til máls.)