133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[23:13]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Nánar tiltekið snýst þetta mál um svokallaðan byggðakvóta.

Áður en ég fer efnislega í að ræða frumvarpið sem hér liggur fyrir langar mig að nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni varðandi það hversu oft við lendum í því að ræða sjávarútvegsmál hér langt inn í nóttina. Þann tíma sem ég hef setið á þingi þá er það frekar regla en undantekning að mál er snerta sjávarútveg eru til umræðu síðla kvölds og oft og tíðum langt inn í nóttina. Því væri gott að sjá á morgun af því að mér skilst að þrjú mál sjávarútvegsráðherra séu til umræðu þá að þau fengju þá röð í dagskránni að það næðist að ræða þau fyrir eftirmiðdaginn og það verði sýnt með uppröðun á dagskrá að ekki sé viljandi verið að setja sjávarútvegsmálin aftast, inn á kvöldið og inn í nóttina. Þetta eru mál sem skipta meira máli en svo að sífellt þurfi að ræða þau í skjóli myrkurs.

Varðandi frumvarpið sem hér liggur fyrir, þá verð ég að segja eins og er, eins og fram kom í ræðu hv. framsögumanns Guðjóns Hjörleifssonar, að frumvarpið er nánast óþekkjanlegt eins og það liggur fyrir eftir vinnu nefndarinnar. Segja má að nánast öllum þeim yfirlýstu markmiðum sem fram komu í því frumvarpi sem lagt var fram og við ræddum við 1. umr. hafi verið breytt og í mjög veigamiklum atriðum. Því má segja að breytingar sem gerðar verða á byggðakvótanum eins og breytingartillögur liggja fyrir núna séu í eðli sínu minni en í því frumvarpi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði fyrir þingið.

Eitt af yfirlýstum markmiðum hæstv. sjávarútvegsráðherra með því að leggja fram frumvarpið var að mæta aðfinnslum sem komið höfðu frá umboðsmanni Alþingis varðandi það að reglur væru ekki nægilega samræmdar við úthlutun á byggðakvóta til einstakra sveitarfélaga. Hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlaði að mæta því með að færa verkefnið til sveitarfélaganna og fela þeim í raun að úthluta byggðakvótanum en þó þannig að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlaði að setja um það allar reglur. Sveitarfélögin hefðu því, eins og ég sagði í stuttu andsvari áðan, verið í hlutverki verktaka þar sem þau hefðu tekið að sér það óvinsæla verkefni sem það oft og tíðum er að úthluta byggðakvóta án þess að geta í raun sjálf sett um það reglur með hvaða hætti þau ætluðu að úthluta þeim kvóta, heldur væru þau bundin af mjög stífum reglum frá hæstv. sjávarútvegsráðherra og hefðu lítið um það að segja en fengju í raun eingöngu það pappírshlutverk að úthluta kvótunum í orði en ekki á borði.

Því er ekki undarlegt að Samtök íslenskra sveitarfélaga geri alvarlegar athugasemdir við það hvernig þessu var stillt upp í frumvarpinu. Það sem meira var og kom á óvart var að í ljós kom að ekkert samráð hafði verið haft við sveitarfélögin eða samtök þeirra í undirbúningi á þessari veigamiklu breytingu. Það kom fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að frumvarpið hefði verið samið og lagt fram á Alþingi án nokkurs samráðs við sambandið. Það er erfitt að gera sér grein fyrir af hverju það hefur gerst og ætla ég ekki hæstv. sjávarútvegsráðherra eða embættismönnum í sjávarútvegsráðuneytinu það að hafa viljandi tekið þá ákvörðun að hafa sveitarfélögin ekki með í ráðum heldur virðist eins og höfundar frumvarpsins hafi talið þetta svo sjálfsagða breytingu að ekki þyrfti að bera hana undir sveitarfélögin eða samtök þeirra.

Það að ætla að færa þetta vald eða hlutverk, ég vil kalla það hlutverk frekar en vald því að valdið átti að vera afskaplega lítið í höndum sveitarfélaganna, í hendur sveitarfélaga að úthluta byggðakvótanum er í raun og veru ekki lítið mál og ég skil ósköp vel að forráðamenn sveitarfélaga hafi fengið kaldan hroll þegar þeir lásu í gegnum frumvarpið eins og það lá hér fyrir. Ekki er hægt að óska neinum sveitarstjórnarmanni þess að vera í því hlutverki að úthluta takmörkuðum gæðum eins og hér er um að ræða, að bera á því ábyrgð og þurfa að bera á því ábyrgð gagnvart þeim sem fengju úthlutun án þess í raun að ráða á nokkurn hátt eftir hvaða sjónarmiðum ætti að fara eða eftir hvaða reglum ætti að fara. Það hefði verið eðlilegra ef fela hefði átt þetta sveitarfélögunum að færa þetta þá alfarið til sveitarfélaganna, gera það í samráði við þau og ganga þannig frá lagatexta að úthlutun byggðakvóta væri hlutverk sveitarfélaganna og sveitarfélögin sjálf hefðu þá um það að segja með hvaða hætti þau mundu úthluta þeim kvóta.

Það má svo segja, hafandi í huga álit umboðsmanns Alþingis, að þá hefðu reglur um úthlutun á byggðakvóta í hverju sveitarfélagi fyrir sig kannski getað orðið mjög mismunandi og misræmið, sem þeir sem ætluðu að sækja eftir því að fá til sín byggðakvóta horfðu framan í, meira en er í núverandi lögum. Við sjáum það á mörgum sviðum að sveitarfélög hafa ákveðið vald og þau fara oft og tíðum mismunandi leiðir við að framkvæma lög og reglur og ef allir íbúar viðkomandi sveitarfélags sitja við sama borð þegar kemur að því að úthluta takmörkuðum gæðum þá hafa yfirleitt ekki verið gerðar neinar athugasemdir við það.

Ef þetta hefði farið í þann farveg sem frumvarpið gerði ráð fyrir að sveitarfélögin hefðu það hlutverk að úthluta byggðakvótunum án þess í raun að ráða nokkru um reglurnar, þá hefðu þau verið útsett fyrir þeirri hættu að ábyrgðin væri þeirra jafnvel þótt valdið væri takmarkað og þau gætu þess vegna lent í því að kærur leiddu til skaðabótaskyldu. Við vitum öll að kærur kosta fjármuni og sveitarfélögin hefðu væntanlega þurft að leggja talsverða fjármuni í það að verja ákvarðanir sínar sem hefðu samt verið teknar á grundvelli reglna sem þau hefðu lítið eða ekkert haft um að segja.

Það er því augljóst að frumvarpið bar í sér kostnað fyrir sveitarfélögin og það er nú einu sinni svo að til er samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um að ef leggja á byrðar á sveitarfélögin í landinu beri að kostnaðarmeta slík frumvörp áður en þau eru lögð fram. Því hefði átt að fylgja því frumvarpi sem hér var lagt fram kostnaðarmat um áætlaðan kostnað sveitarfélaganna við framkvæmd þeirra laga. En eins og áður segir var í meðförum nefndarinnar gerð á þessu veigamikil breyting. Þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir gera ekki ráð fyrir að sveitarfélögin úthluti byggðakvótanum heldur muni Fiskistofa gera það í umboði sjávarútvegsráðuneytisins. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra setji reglur eða reglugerð um úthlutun byggðakvótans og það kemur til með að skipta nokkuð miklu máli hvernig sú reglugerð lítur út, bæði um hverjir það eru sem rétt eiga eða geta átt rétt á byggðakvóta og ekki síður um magn og skilyrði fyrir þeim kvóta sem úthlutað er.

Sveitarfélögin hafa í raun hafnað því að taka að sér það hlutverk að vera í verktöku fyrir sjávarútvegsráðuneytið við úthlutun á byggðakvóta en þó er gert ráð fyrir því í þeim breytingum sem nú liggja fyrir að einstök sveitarfélög geti óskað eftir því við ráðherra að settar verði sérstakar reglur varðandi úthlutun byggðakvóta í viðkomandi sveitarfélagi og þurfa þá að færa fram málefnaleg, staðbundin rök fyrir því að svo eigi að gera.

Í stuttu andsvari áðan fór ég yfir það með hv. formanni sjávarútvegsnefndar, Guðjóni Hjörleifssyni, hvaða aðstæður það gætu verið sem kölluðu á slíkar sérreglur. Hv. formaður svaraði því glögglega að það gæti verið að byggðarlög ættu rétt á úthlutun byggðakvóta samkvæmt þeim reglum sem gilda, jafnvel þrátt fyrir að fiskvinnsla væri ekki staðsett í viðkomandi byggðarlagi. Það þýddi að ekki væri hægt að uppfylla reglurnar sem settar eru í frumvarpinu um að landa beri afla í því byggðarlagi þar sem byggðakvóta er úthlutað. Auðvitað gera allir sér grein fyrir því að það er til lítils að landa afla í sveitarfélagi með enga fiskvinnslu og skikka hann í vinnslu á staðnum. Það færi illa með þann fisk ef þannig væri um hnútana búið og því nauðsynlegt að horfa til slíkra málefnalegra aðstæðna og ég held að enginn komi til með að deila um að þannig á það að vera.

Aftur á móti þegar kemur að hinni ástæðunni sem hv. formaður sjávarútvegsnefndar nefndi, um að það gæti verið erfiðleikum bundið að skila tonni á móti tonni til vinnslu í sveitarfélagi vegna fjárhagsaðstæðna þess sem byggðakvótann fengi eða einhverra slíkra aðstæðna, þá verð ég lýsa því yfir að þar ég er að mestu leyti ósammála hv. formanni sjávarúvegsnefndar vegna þess að úthlutun á byggðakvóta er úthlutun á miklum fjármunalegum gæðum.

Það að úthluta einu kílói af byggðakvóta til einhverrar ákveðinnar útgerðar þýðir í raun að verið er að greiða niður kílóið af fiskinum. Ef um þorsk er að ræða er verið að greiða niður eitt kíló af þorski um 170–180 kr. bara við það að úthluta einu kílói af byggðakvóta í þorski til viðkomandi. Það þýðir að útgerðin sem fær úthlutað byggðakvóta er í raun að fá forgjöf sem þessu nemur á aðrar útgerðir sem ekki fá úthlutað byggðakvóta. Með öðrum orðum, ríkið er þá að leggja þeirri útgerð sem fær úthlutun til fjármuni sem ætti að vera hægt að nýta til að leigja til sín kvóta til að uppfylla það skilyrði að landa tonni á móti tonni. Í raun og veru má segja að með því að fá úthlutað byggðakvóta og uppfylla þá skyldu að bæta við tonni frá sjálfum sér sé ríkið með úthlutun kvótans að greiða niður að hálfu allan þann kvóta sem um ræðir, því að byggðakvótinn er að fullu frír, það þarf ekki að leigja hann til sín. Það þarf að leigja eitt kíló á móti kílóinu af byggðakvótanum þannig að í raun er ríkið að veita þeirri útgerð forgjöf sem nemur hálfu verði kvótaleigunnar.

Ég segi bara eins og er að það er mikil spurning hvort sú útgerð sem ekki ræður við það að leggja eitt kíló á móti kílói af byggðakvóta eftir að vera búin að fá þessa forgjöf hefur í raun og veru nokkurn rekstrargrundvöll. Þá er það í raun spurning um hvort verið er að tjalda til meira en einnar nætur með því að úthluta slíkri útgerð byggðakvóta.

Hlutverk byggðakvótans er að reyna að hafa áhrif á það að mæta áföllum sem hafa orðið og eins að byggja upp. Það eru ákvæði í frumvarpinu eins og það var lagt fram, og það er óbreytt í meðförum nefndarinnar, að það geti verið heimilt í ákveðnum tilvikum að úthluta byggðakvóta til þriggja ára. Það er gert með það í huga að hægt sé að horfa til framtíðar og byggja eitthvað upp, að byggðakvótinn skilji eitthvað eftir sig að þremur árum liðnum.

Ég leyfi mér að fullyrða að útgerð sem ekki gæti lagt eitt kíló frá sjálfri sér, þó að hún þurfi að leigja það til sín í vinnslu, á móti kílóinu sem kemur frá byggðakvótanum, byggir ekki á þeim grunni að hún sé að horfa til framtíðar og verði á vetur setjandi. Það er því stór spurning fyrir okkur sem sitjum á þinginu og þá sem koma til með að úthluta þessum byggðakvóta hvort rétt sé að veita þá miklu fjármuni sem felast í kvótanum til slíkra útgerða. Ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé nægilega málefnaleg ástæða til að óska eftir sérmeðferð hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að útgerðarmaður báts eða skips, sem fær úthlutað til sín byggðakvóta, treysti sér ekki fjárhagslega til að leggja kíló á móti kílói.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að sett yrði á laggirnar úrskurðarnefnd sem hægt væri að kæra úthlutanir til. Með þeirri breytingartillögu sem gerð var í meðförum sjávarútvegsnefndar er gert ráð fyrir að leggja af þessa úrskurðarnefnd og að hægt verði að kæra úthlutun Fiskistofu beint til sjávarútvegsráðherra. Ég held að það sé til bóta einfaldlega vegna þess að þegar farið var að skoða hvaða heimildir slík úrskurðarnefnd hefði, ég tala ekki um ef hún tæki til úrskurðar ákvarðanir sveitarstjórna á hverjum stað, þá virtist gæta þar ákveðins misskilnings og úrskurðarnefndin hefði í raun aldrei getað gert neitt annað en að taka ákvörðun um hvort lögum og reglum hefði verið fylgt í einstökum úthlutunum en aldrei getað breytt þeim eða lagt eitthvað annað til eins og virtist vera gert ráð fyrir í frumvarpinu eins og það var lagt fram í upphafi.

Eins og fram kemur í nefndaráliti því sem hér liggur fyrir frá hv. sjávarútvegsnefnd var yfirlýstur tilgangur frumvarpsins upprunalega að færa sveitarstjórnum ákvörðunarvaldið um úthlutun byggðakvótans. En í ljósi þess að ekki var um neitt frjálst mat sveitarstjórna að ræða í því hvernig þær mundu úthluta þeim kvóta var, í góðu samstarfi í nefndinni og að sjálfsögðu í góðu samstarfi við þá sem lögðu fram frumvarpið, ákveðið að gera breytingartillögur um þetta og ég held að það sé til mikilla bóta að það hafi verið gert.

Eitt sem miklu máli skiptir varðandi frumvarpið sem hér liggur fyrir er heimild ráðherra til að gefa út reglugerð fyrir allt landið um samræmd skilyrði fyrir úthlutun á aflaheimildum. Það væri gott fyrir umfjöllunina í 2. umr. ef hægt væri að upplýsa okkur að einhverju leyti um hvaða meginreglur ráðherra hyggst setja í þeirri reglugerð sem sett verður á grundvelli laganna þegar þar að kemur.

Eitt sem fram kemur í frumvarpinu og er gott er hreint bann við framsali á byggðakvóta. Ég spurði um það við 1. umr. hvort eitthvað hafi verið um sóðaskap í kringum úthlutun á byggðakvótanum og átti þar við hvort um það hefði verið að ræða að útgerðir hefðu fengið úthlutað af byggðakvóta sem þær hefðu síðan ekki nýtt, heldur leigt áfram frá sér og þannig fénýtt byggðakvótann. Af þeim svörum sem fengust var ljóst að einhver grunur hafði verið um slíkt en ekki hafði verið beint í lögunum eins og þau voru hreint bann við framsali. Hér er þó verið að setja slíkt bann og það er algjörlega óheimilt, ef þetta verður að lögum, að framselja byggðakvótann. Þó er gert ráð fyrir að menn geti í jöfnum skiptum skipst á tegundum. Í því kerfi sem við búum við er það eðlileg hagræðingaraðgerð sem mér finnst ekki vera hægt að setja skorður við.

Reglan um að úthluta til þriggja ára í senn við sérstakar aðstæður getur líka verið til bóta. Þó felur hún í sér ákveðna hættu. Við erum að tala um ákveðið magn sem úthlutað er til byggðanna á grundvelli laga um byggðakvóta. Við höfum séð hvernig það hefur þróast. Þetta hefur þróast út í fast kerfi þar sem ákveðnum útreikningsreglum er beitt til að finna út hver réttur hvers byggðarlags er til byggðakvóta. Byggðakvótinn hefur verið minna notaður sem viðlagakvóti til að mæta einhverju óvæntu sem upp kemur, heldur hefur þetta meira og minna farið í það far að þetta eru fastar reglur um hvernig reikna á hlutdeild hvers byggðarlags í þeim byggðakvóta sem á að úthluta. Þannig hefur kvótanum að mestu leyti verið úthlutað. Ef úthluta á til þriggja ára í senn eftir slíkum reglum þýðir það einfaldlega það að uppistöðunni af byggðakvóta næstu þriggja ára verður úthlutað á næstunni og þá verður afskaplega lítið svigrúm innan þeirra greina sem eru í lögunum til að bregðast við nýjum áföllum, til þess að bregðast við með einhvers konar viðlagatryggingu í formi byggðakvóta eins og byggðakvótinn var í sjálfu sér hugsaður í árdögum þess að hann var settur á. Ég held því að við verðum að gera ráð fyrir að skoða það í fullri alvöru að eitthvað af þeim byggðakvóta sem meiningin er að úthluta verði ekki úthlutað til þriggja ára vegna þess að það gæti komið til, þess vegna á næsta fiskveiðiári, að grípa yrði til slíkra fyrninga eða slíkra aflaheimilda sem ekki væri hægt nema fara í það að bæta við kvóta vegna einhvers konar sérstakra ráðstafana.

Hugmyndin sem heyrðist á tímabili um fjögurra ára úthlutun hefði í sjálfu sér verið enn verri, ekki kannski vegna þess að fjögur ár sé langur tími heldur vegna þess að þá hefði í upphafi kjörtímabils verið hægt að úthluta öllum kvóta fram á næsta kjörtímabil sem dæmi. Því þarf að umgangast það af fullri varúð að mega úthluta til þriggja ára. Það á rétt á sér í einstökum tilvikum við einstakar aðstæður en ekki að það verði meginregla að öllum byggðakvótanum núna, af því að það á eftir að úthluta honum, verði rétt fyrir kosningar úthlutað til þriggja ára til að geta sagt: Sjáið þið hvað við erum góðir við byggðirnar. Við úthlutum hér ávísun til þriggja ára og svo og svo mikið magn af fiski þannig að allir sem eru í vandræðum í dag sjái fram á hvað þeir fá til næstu þriggja ára í senn. Ég vona satt að segja að menn beri gæfu til þess að umgangast þriggja ára regluna með því hugarfari að hún sé frekar undantekning til þess að byggja upp vegna ákveðinna aðstæðna á ákveðnum stöðum, en ekki til þess að úthluta meira og minna öllum byggðakvótanum til þriggja ára og þar með er það bara búið og ekki þurfi að hafa áhyggjur af því næstu þrjú árin.

Annað sem er til bóta í þeim breytingartillögum sem liggja fyrir eru tillögur um að ekki verði hætt við að úthluta byggðakvóta vegna aflabrests í skel og rækju. Eftir að hafa farið yfir málefnaleg rök þeirra sem höfðu fengið slíkar úthlutanir á sínum tíma og jafnvel þurft að setja frá sér aflaheimildir til að fá aflaheimildir í skel og rækju, að þá var engin ástæða til þess að ganga fram með þeim hætti sem frumvarpið gerði ráð fyrir, að leggja það af á ákveðnu árabili.

Í samræmi við umsagnir sem komu inn gerir nefndin ráð fyrir að Byggðastofnun komi til með að hafa ákveðið hlutverk áfram. Samkvæmt frumvarpinu átti Byggðastofnun í raun ekki að hafa neitt hlutverk annað en að tilnefna fulltrúa í úrskurðarnefndina sem ákveðið hefur verið að gera tillögur um að leggja af. En nú er gert ráð fyrir að 10. gr. laganna orðist þannig að gert verði ráð fyrir því að Byggðastofnun komi að í samráði við að úthluta til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski. Líka til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Samkvæmt b-lið er heimilt að úthluta aflaheimildum til allt að þriggja ára í senn. Ég minni enn á það sem ég sagði á undan að ég tel að menn þurfi að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar þar að kemur, en er jafnfullviss um að aðstæður muni koma upp á einstökum stöðum sem réttlæta og kalla á þriggja ára úthlutun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt mikið úr þessu. Eins og fram kom hjá hv. formanni sjávarútvegsnefndar var ég staddur á vegum Alþingis á erlendri grundu þegar þetta var tekið úr nefnd og gafst þar af leiðandi ekki tækifæri til að lesa endanlega yfir breytingartillögur eða nefndarálitið eins og það lá fyrir. Þó má segja að eins og umræðurnar voru í nefndinni á þeim fundum sem ég átti kost á að taka þátt í er verið að færa frumvarpið til betri vegar frá því sem áður var og þær breytingar sem lagðar eru til eru til bóta.

Byggðakvóti er þó og verður aldrei annað en plástur á sár. Plástur á aðstæður sem skapast vegna þess kerfis sem við störfum í. Segja má að byggðakvóti og úthlutun byggðakvóta sé í raun eina úrræðið sem stjórnvöld hafa í því kerfi sem við búum við til að mæta þeim aðstæðum sem geta komið upp, aðstæðum sem enginn sá fyrir eða aðstæðum sem skapast vegna þess að eitt einstakt fyrirtæki eða jafnvel einn einstaklingur tekur ákvörðun um að flytja kvóta í burtu frá sveitarfélagi, annaðhvort með því að flytja fyrirtæki eða selja kvótann í burtu. Það verður að vera til, að mínu mati, einhvers konar tæki til að taka á slíkum aðstæðum meðan við búum við kerfið eins og það er. Ég hef verið talsmaður þess að byggðakvóti þurfi frekar að vera meiri en minni til að mæta slíkum aðstæðum, en jafnframt verið talsmaður þess að byggðakvóti ætti ekki að vera úthlutun sem alltaf byggir á einhvers konar reiknireglu ár eftir ár vegna þess að oft og tíðum vill úthlutun á byggðakvóta við þær aðstæður verða útþynnt. Tiltölulega fá tonn lenda hjá sumum sveitarfélögum, fá tonn sem mjög erfitt getur verið að skipta milli fjölda útgerðarmanna, þess vegna smábáta sem fyrir eru á staðnum. Nær væri því að horfa til þess að mínu viti — jú, plásturinn verður að vera til. Hann á að vera nokkurs konar viðlaga- eða tryggingaratriði til að mæta raunverulegum vanda sem upp kemur og magnið sem úthlutað er á þeim grunni ætti að vera meira en það er í dag, því að þau 12 þús. tonn sem gert er ráð fyrir að úthluta samkvæmt öllum þeim greinum sem fyrir koma — ef ég man rétt eru það rúm 4 þús. tonn sem úthlutað er samkvæmt byggðakvótaviðlagahugsuninni.

Í öllum þeim breytingum sem við horfum á og öllum þeim flutningi á aflaheimildum sem horft er til er þetta ekki stór plástur en eftir sem áður afar verðmætur. Ég hef bent á það héðan úr pontu á hv. Alþingi að miklir fjármunir eru fólgnir í kvótanum fyrir þá sem hann fá. Þess vegna er alveg nauðsynlegt fyrir þá sem úthluta svona takmörkuðum gæðum að horfa til þess að þau raunverulega nýtist til að uppfylla þau markmið sem menn ætluðu sér í upphafi en verði ekki einhvers konar smáviðbótarkvóti sem allir reikna með alltaf að geta fengið úthlutað, því þá er þetta ekki orðið neitt öðruvísi en úthlutun á öðrum kvóta í sjálfu sér. Þá eru bara aðrar reglur sem um það gilda en þetta verður nánast alltaf fast og útreiknað og allir vita að þessi bátur fær 2 tonn og hinn báturinn fær 3 tonn o.s.frv. Það finnst mér ekki hafa verið tilgangur laganna á sínum tíma og tel enn að það eigi ekki að vera tilgangur laganna, en með þeim breytingum sem hér er verið að gera á því frumvarpi sem fram var lagt tel ég þó að þetta sé til bóta þó að fiskveiðistjórnarkerfi og þær breytingar sem verið er að gera á því hljóti alltaf að vera á ábyrgð þess meiri hluta sem situr og leggur breytingarnar fram.

Eftir sem áður hef ég aldrei reynt að komast undan því að ræða málefnalega þær breytingar sem fram koma og hef tekið þátt í störfum sjávarútvegsnefndar með það hugarfar að ég sit þar til að reyna að hafa áhrif á þær breytingar sem verið er að gera. Það hefur tekist ágætlega í góðu samstarfi við formann nefndarinnar og aðra nefndarmenn að ná niðurstöðu um breytingar og held ég að verklag og vinnubrögð í sjávarútvegsnefnd eins og það hefur verið á undanförnum tveimur árum gæti verið mörgum öðrum nefndum Alþingis til eftirbreytni því að ég tel að við séum að ná oft og tíðum betri árangri í þeirri lagasetningu sem verið er að gera vegna þess að menn eru tilbúnir að ræða saman í alvöru, á málefnalegum grunni um breytingar sem nauðsynlegt er að gera en ekki eingöngu verið í hanaslag eða verið að láta líta út fyrir einhvern ágreining sem ekki þarf að láta líta út fyrir. Við eigum að hugsa um þá sem koma til með að starfa eftir þeim lögum sem við setjum og ég held að við höfum verið að bæta frumvarpið fyrir þá.