133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[23:49]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er eðlilegt að gerðar séu sérstakar kröfur vegna verðlagningar á þessum fiski vegna þess að hér er um að ræða byggðalega úthlutun. Hér eru menn að fá í hendurnar aflaheimildir með alveg sérstökum hætti og þeim er ætlað nákvæmlega það sem hv. þingmaður sagði, að reyna að búa til eins mikla byggðalega vigt og hægt er og þess vegna er eðlilegt að gera alveg sérstakar kröfur í þeim efnum.

Ef um það verður að ræða að menn verði ósammála um fiskverðið þá er gert ráð fyrir því að það skuli ekki vera lægra en það verð sem ákveðið er af Verðlagsstofu skiptaverðs eða það sem er algengast við sambærilegar tegundir í viðkomandi byggðarlagi með tilliti til gæða. Ég held því að það sé nokkuð vel séð fyrir þessum hluta málsins.

Það er enn fremur þannig að ef um er að ræða kærur sem koma fram þá munu þær leiða til þess að ekki verður úthlutað byggðakvóta í því byggðarlagi þar sem kærurnar ná til. Það er mjög mikilvægt að þetta sé gert vegna þess að ef kærurnar leiða síðan til þess að það þurfi að endurúthluta þá verða menn auðvitað að hafa möguleika til þess. Það hefur vantað á að þetta væri til staðar og við höfum séð dæmi um það þar sem byggðakvóta hefur verið úthlutað og síðan hafa komið athugasemdir og það hefur ekki verið hægt að endurúthluta.

Ég vil líka vekja athygli á því sem kemur fram í breytingartillögum sjávarútvegsnefndar og það er það ákvæði að eftir að sveitarstjórn hefur gert tillögur sínar til ráðuneytisins þá er gert ráð fyrir því að þær tillögur liggi fyrir með opinberum hætti, m.a. á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins um tiltekinn tíma. Ef menn hafa ástæðu til að gera athugasemdir þá liggja þessar tillögur a.m.k. frammi með opinberum hætti þannig að öllum eigi að vera þær aðgengilegar og að allir hafi sama rétt til þess að gera athugasemdir ef svo ber við.