133. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[00:22]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að víkja að einu atriði í máli hv. þingmanns sem var að mínu mati efnislegt og rökstutt af hans hálfu þar sem hann vék að hinum svokölluðu rækju- eða skelbátum. Það er alveg rétt að þegar heimildirnar voru á sínum tíma teknar upp var sú ákvörðun tekin af þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra að skerða þær fyrst um þriðjung á ári hverju. Þessu var síðan breytt þegar menn sáu fyrir að ekki væri mikil von til þess að rækjan væri að ná sér á strik í innfjörðunum. Þá var þessi tíu ára skerðingarregla búin til einnig í þeirri von að innan tíu ára væri farið að rétta úr kútnum með rækjuna.

Ég tók hins vegar þá ákvörðun á síðasta hausti, þegar ákveðið var hvað færi í þessa aflabótapotta, að skerða ekki rækjubæturnar. Þær hafa því ekki verið skertar á þessu fiskveiðiári. Það er einfaldlega vegna þess að ég gerði mér grein fyrir því hve fyrningarleiðin er ómöguleg. Ég gerði mér grein fyrir því að fyrningarleiðin sem birtist þarna var að veikja þessar útgerðir. Hún gerði það að verkum að útgerðarmenn gátu ekki skipulagt sig fram í tímann, þeir höfðu ekki lánstraust. Þeir gátu ekki staðið í báðar fætur þegar þeir voru að reyna að skipuleggja sig fram í tímann og leita fjárhagslegrar fyrirgreiðslu til að byggja sig upp. Þetta voru annmarkarnir og ég sá að óvissan um veiðiréttinn var slæm. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að eðlilegt sé að þeir sem hafa veitt fái réttinn til að veiða.

Ég skal viðurkenna að á þessu máli er annmarki sem þarf að horfa til þegar farið verður að skoða þetta til frambúðar. Þegar við vorum að útdeila aflabótunum var það gert í ljósi byggðasjónarmiða. Við gerðum þetta vegna þess að rækjuveiðarnar voru svo mikilvægar fyrir tiltekin sjávarpláss. Núna standa mál hins vegar þannig að hluti af þessum skipum hefur verið seldur burtu en þau fá engu að síður þessar bætur. Það er óviðunandi fyrirkomulag og við þurfum að reyna að ná utan um það.