133. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[00:26]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég held að eðlilegt sé að horfa á atvinnuhagsmuni á þeim svæðum þar sem þessi veiðiréttur var upphaflega nýttur. Þegar ég lagði frumvarpið fram gerði ég ráð fyrir að aflabæturnar hyrfu inn í byggðakvótann. Með því var ég að reyna að opna á það að aflabæturnar yrðu smám saman að raunverulegum byggðakvótum. Það var sú hugsun sem lá að baki. Þá voru uppi efasemdir af hálfu þeirra sem höfðu notið þessara bóta um að það væri nægilega tryggt. Ég féllst á að eðlilegt væri að koma til móts við þau sjónarmið og þess vegna var breytingartillaga, sem sjávarútvegsnefnd hefur flutt, gerð við frumvarpið.

Þeir sem hafa verið að kaupa þessa gömlu rækju- eða skelbáta hafa keypt þá með veiðiréttinum, skel- eða rækjuréttinum, á viðkomandi svæðum. Þar sem verið er að bæta þennan skerta veiðirétt í rækju og skel fá þeir núna aflabætur í þessu formi. Það á við um þetta ár. Hins vegar er möguleiki á því, til að mynda við úthlutun á næsta fiskveiðiári, hver sem mun standa að því, að bregðast við þessu á einhvern hátt. Það er ekki alveg einfalt að gera það vegna þess að menn hafa tekið á sig ákveðnar skuldbindingar miðað við þær reglugerðir sem höfðu verið í gildi þar sem gert var ráð fyrir þessum fyrningum.

Ég held að þetta sé eitt af því sem takast þarf á við. Í hjarta mínu finnst mér það óréttlát úthlutun að sá sem hefur enga byggðarlega hagsmuni af bótunum skuli njóta þeirra. Ég tel því að það sé eitt af þeim verkefnum sem bíður okkar að reyna að taka á þessu. Nú er búið að úthluta, þær úthlutanir fóru fram á þessum grundvelli, án fyrningarinnar. Það er eðlilegt að finna leið út úr því svo að aflabætur tengdar rækju og skel fari inn í þær byggðir þar sem til þeirra var stofnað og þar sem hagsmunir felast í því að þær komi til nota fyrir atvinnulífið.