133. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[00:31]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að ég er að hefja ræðu mína og klukkan er orðin hálfeitt eftir miðnætti. Mér finnst það vera íhugunarefni þegar við ræðum svo mikilvægt mál, sem úthlutun byggðakvóta er, að þessi tími sé valinn. Ég tel að það sé ekki tilviljun. Það er einfaldlega þannig að hæstv. sjávarútvegsráðherra virðist velja sér þennan tíma. Þetta virðist ekki vera tilviljun ef maður skoðar hvenær sjávarútvegsmál eru rædd í þinginu. Þau virðast nefnilega alltaf vera rædd í myrkri (Gripið fram í: Þau þola ekki dagsljósið.) og þola ekki dagsljósið. Ég vil að hæstv. forseti velti þessu fyrir sér. Ef við skoðum t.d. aðra ráðherra sem geta fært rök fyrir máli sínu en það getur hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki. Það eru engin málefnaleg rök sem hann kemur með fyrir kerfinu. Þess vegna reynir hann að forðast umræðuna og fara með hana inn í myrkrið. Ég get nefnt annan hæstv. ráðherra sem færir rök fyrir máli sínu og gerir það af stolti þó maður sé ekki alltaf sammála honum, það er vinur minn hæstv. dómsmálaráðherra. Hvort sem það eru hlerunarmál eða fangelsismál kemur hann og ræðir þau í dagsljósi en hæstv. sjávarútvegsráðherra velur einhverra hluta vegna þennan tíma. Mín skoðun er sú að það sé vegna þess að hann hefur engin rök fyrir því að halda kvótakerfinu áfram.

Við í Frjálslynda flokknum höfum fyrirvara við málið. Fyrirvarinn lýtur að því að þetta er eina sem er til bjargar, eina viðlagaákvæðið sem er til bjargar í mjög óréttlátu kerfi sem hefur leikið byggðirnar grátt. Mig langar að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann ætli að taka á t.d. þeim vanda sem er uppi á Bakkafirði. Verður tekið á honum með frumvarpinu eða verður það tilviljunum háð hvort það verði gert? Hver er stefna hæstv. ráðherra hvað varðar byggðirnar í kringum landið? Það hefur nefnilega verið þannig að hæstv. ráðherra hefur í gegnum árin verið mikill gagnrýnandi á kerfið. — Er hæstv. ráðherra að hlusta?

(Forseti (BÁ): Forseti mun gera hæstv. ráðherra viðvart um að hv. þingmaður beini orðum til hans.)

Mér finnst hæstv. ráðherra vera brjóstumkennanlegur. Hann hefur verið einn helsti gagnrýnandi kvótakerfisins, gagnrýnt það fyrir hverjar einustu kosningar og lofað að betrumbæta kerfið en eftir kosningar hefur hann svikið það. Hann hefur sagt að hann ætli ekki að styðja ríkisstjórn sem hefur ætlað að halda áfram óbreyttu kvótakerfi en síðan hefur hann svikið það. Mér finnst það vera fyrir neðan allar hellur að manni sem er treyst fyrir landstjórninni skuli koma fram fyrir skjöldu fyrir hverjar einustu kosningar og boða breytingar en síðan rennur hann á rassinn með þau loforð sín og er núna kominn í stól sjávarútvegsráðherra.

Einnig má segja að sama staða sé uppi með formann sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson. Báðir þingmennirnir koma frá byggðum sem muna sitt skeið betra en nú er. Maður hefði haldið að þeim væri kappsmál að breyta kerfinu, leita eftir leiðum hvernig eigi að komast út úr því, skoða allar tillögur sem fram koma í þinginu — í staðinn fyrir að vera að lesa í blöðum — hlýða á ræður af athygli og leggja til að mál séu rædd í dagsljósinu. Þetta er ekki boðlegt og sýnir náttúrlega metnaðarleysi hæstv. sjávarútvegsráðherra að koma umræðum þannig fyrir að þær fari fram að næturlagi. Mér finnst þetta ekki vera boðlegt. Hann sýnir t.d. Bolungarvík og byggðunum hringinn í kringum landið gríðarlega lítilsvirðingu. Maður á ekki orð yfir að hann bjóði upp á þetta vegna þess að fólkið í viðkomandi byggðarlögum lítur á frumvarpið sem von.

Ég ræddi síðast við skipstjóra frá Siglufirði sem spurði um hvernig frumvarpinu miðaði. Ég sagði honum hver staðan væri, að þetta yrði rætt og ég vonaðist til að hægt væri að gera það í dagsljósi þannig að hann gæti fylgst með umræðunum. En það er eins og hæstv. ráðherra þoli ekki að fólk verði vitni að því hversu lítinn rökstuðning hann hefur uppi með því að fylgja kerfinu áfram.

Við í Frjálslynda flokknum höfum bent á leiðir út úr þessu til að lina þjáningar þorpanna. Við höfum bent á að leyfa einfaldlega handfæraveiðar á minni bátum. Hvers vegna er það ekki gert? Vegna þess að hæstv. ráðherra er hræddur við að raska ró þeirra sem hafa yfir aflaheimildunum að ráða. Þetta gengur svo langt að hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa meira að segja meinað unglingum að veiða í fjöru við sjávarþorp. Þetta er ótrúlegt en satt og þetta er skjalfest. Þess vegna velur einkaframtaksflokkurinn svokallaði að ræða þessi skuggamál í nóttinni. Því miður eru menn ekki að leita eftir leiðum út úr þessu.

Við í Frjálslynda flokknum höfum bent á að skoða kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Það er ekki gert. Færeyingar hafa náð að stýra fiskveiðum sínum með ágætum árangri meðan við förum einhverja leið þar sem er byggt á landskvóta, þar sem fiskur sem dreginn er á Austfjörðum dregst frá því sem má veiða á Vestfjörðum. Kerfið gengur ekki líffræðilega upp og ef menn hefðu einhvern metnað fyrir hönd Austfjarða ættu menn auðvitað að leita leiða til að komast út úr kerfinu. En menn eru svo þægir í bandi þeirra sem hafa yfir aflaheimildum að ráða að þeir leita ekki einu sinni leiða út úr því. Það er átakanlegt.

Eins og ég sagði gengur kerfið út frá einhverjum hagfræðilegum rökum þar sem fiskstofnanir í kringum landið eru eitt mengi, en það hefur sýnt sig að hagrænu rökin hafa ekki gengið upp, enda eru stofnar staðbundnir og það hlýtur að þurfa að stýra veiðum út frá því. Þegar menn lenda í algjöru þroti er þetta stundum afsakað með því að þetta hafi skilað hagræðingu. En það er algjörlega af og frá að einhver hagræðing hafi orðið í greininni vegna þess að það sem gerst hefur er að skuldir útvegsins hafa aukist gríðarlega, þær hafa þrefaldast á rétt rúmum áratug og vel það jafnvel. Síðan hafa runnið gríðarlegir fjármunir út úr greininni. Menn hafa rætt í þinginu um að það séu jafnvel 10 milljarðar á hverju ári sem fara í leigu aflaheimilda. Jafnvel hefur verið slegið á hærri upphæðir. Þetta eru staðreyndir sem ég tel að ábyrgir stjórnmálamenn ættu að leita leiða til að komast út úr. Samt sem áður virðist miklu frekar vera lagt í þá vinnu að koma algjörlega í veg fyrir umræðuna og jafnvel koma í veg fyrir rannsóknir sem geta hnikað hinum veika líffræðilega grunni sem kerfið byggir á.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að einn helsti sérfræðingur Hafró, Björn Steinar Ævarsson, hélt því fram sl. haust í útvarpsviðtali að ef óbreytt kerfi héldi áfram með óbreyttri sókn væri stórhætta á því að þorskurinn dæi út. Þetta voru orð þess sérfræðings sem kerfið byggir á. Þetta gengur ekki upp á forsendum kerfisins. Síðan eru menn með frumvarpinu að stagbæta ónýtt kerfi í stað þess að leita leiða út úr kerfinu og stuðla að rannsóknum sem geta mögulega sýnt fram á að við þurfum ekki að fara í þessi atvinnuhöft, við þurfum þess ekki. Það sem manni finnst átakanlegast er að þeir sem koma í veg fyrir þetta eru einstaklingar sem koma frá byggðum sem hafa farið illa úr kvótakerfinu.

Veltum fyrir okkur hinum líffræðilegu forsendum kerfisins. Fram fóru merkingartilraunir, hæstv. sjávarútvegsráðherra, um miðjan 10. áratug síðustu aldar. Þær leiddu í ljós að reiknireglur kerfisins eru rangar. Það er einfaldlega svo að merktur var ákveðinn fjöldi af þorskum og ef veiðireglan segir til um að 25% veiðist árlega af þeim þorski sem er á slóðinni eða á fiskimiðunum í kringum landið, þá hefði líka 25% af merkjunum átt að skila sér. Það gerðist ekki og þegar merkin hættu að skila sér voru ekki nema 14% af merkjunum sem höfðu komist í hús hjá Hafrannsóknastofnun. Ef ábyrgur sjávarútvegsráðherra hefði heyrt af tilrauninni, eins og ég veit að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur heyrt af, enda hefur þessi merka tilraun verið kynnt, m.a. í fræðiritum Hafró, og síðan hef ég fjallað um þetta, ef hann væri ábyrgur mundi hann skoða þetta en hann gerir það ekki heldur reynir hann að komast hjá umræðum um þetta og leggur jafnvel Hafrannsóknastofnun til að fara hringinn í kringum landið og fara í enn meiri niðurskurð til að kanna það hvort uppbyggingin fari að skila sér sem menn hafa reynt vel á annan áratug að hefur ekki gengið eftir.

Hvernig væri að fara að leita leiða út úr þessu í stað þess að vera að halda í sömu vitleysuna, skoða það? Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að það verði jafnvel skoðað að sjá sveiflur fiskstofna sem eru ekki veiddir til að skoða hver áhrif veiða eru. Hvað hafa veiðar mikil áhrif? Ekki er verið að leita leiða út úr kerfinu heldur miklu frekar verið að setja fleiri og fleiri fisktegundir í kvóta og reyna með öllum mætti að festa kerfið í sessi þó svo að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sé því andsnúinn. Það er auðvitað alvarlegt mál.

Maður veltir fyrir sér ýmsu í sambandi við þessi mál. Hver verða t.d. eftirmæli hæstv. sjávarútvegsráðherra? Ég tel að sagan muni dæma hæstv. sjávarútvegsráðherra mjög hart. Það er átakanlegt að vera búinn að gagnrýna kerfið um áratuga skeið og vera síðan kominn í þá stöðu að geta breytt því, þó hann væri ekki einu sinni að breyta, hæstv. forseti, heldur bara leita leiða út úr þessum ógöngum, þá gerir hann það ekki. Hann jafnvel bregður fæti fyrir þá sem eru í sjálfstæðum rannsóknum og eru ekki alveg tilbúnir að skrifa upp á ýmislegt sem kemur frá Hafrannsóknastofnun sem er stýrt af hagsmunaaðilum. Það er rétt að það komi fram að í stjórn Hafró, vísindastofnunar, eru hagsmunaaðilar sem hafa hag af því að hafa óbreytt kerfi. Það ætti að vera gagnrýnisvert því menn ættu að taka fagnandi allri gagnrýni. Vísindin ganga út á gagnrýna hugsun en ekki að reyna að loka kennisetningar sínar af, heldur miklu frekar að fá gagnrýni og taka það sem er ekki hrakið og fagna miklu frekar gagnrýni. Það er því miður ekki gert og gefur þá þær efasemdir um að um raunveruleg vísindi sé að ræða. Raunveruleg vísindi mundu fagna gagnrýni, þau mundu boða gagnrýnendur á kennisetningarnar til fundar og skoða þær ofan í kjölinn. Það er ekki gert. Það er miklu frekar reynt að loka á umræðuna og sá hugsanagangur smitast því miður yfir í ríkisfjölmiðlana.

Ég get vitnað um að ég benti Ríkisútvarpinu á ákveðinn feil sem var í skýringum þess á því hvað hafði gerst í hafinu í kringum Kanada þegar fiskþurrð var þar snemma á 10. áratugnum. Þegar ég benti Ríkisútvarpinu á þá staðreynd lét það hjá líða að leiðrétta það þó svo að vísindagögn hafi verið send til vitnis um að það hefði rangt fyrir sér. Auðvitað fer maður þá að efast um hvers konar vinnubrögð eru á fjölmiðlunum ef menn leiðrétta ekki það sem rangt er farið með og taka fyrir það sem er satt og rétt og færð eru fullgild rök fyrir og jafnvel vísindapappírar. Þegar ég varð þess áskynja hvers konar vinnubrögð voru á Ríkisútvarpinu, þá datt mér helst í hug DV, því DV hafði þá reglu — þá á ég við gamla DV á tímabili — að leiðrétta ekki neitt jafnvel þó að það vissi að það væri rangt. Það var einmitt það sem kom upp í huga minn þegar ég varð þess áskynja að Ríkisútvarpið vildi ekki leiðrétta. Rúmlega viku seinna var rætt við fiskifræðinginn sem hafði sannarlega rangt fyrir sér. Hann sneri öllu við, og ekki nóg með það heldur hvarf ranga fréttin út af veraldarvefnum. Þetta eru vinnubrögð sem eiga ekki að líðast í ríkisútvarpi og ekki heldur í vestrænu samfélagi. Menn eiga auðvitað að greina frá því ef um leiðréttingu er að ræða og vera ekki að snúa sig út úr hlutunum. Það er því miður þannig að menn eru hræddir við stóru hagsmunina.

Ég er viss um að hæstv. sjávarútvegsráðherra er hræddur líka. Hann veit að það er ýmislegt rangt í ráðgjöfinni. Það getur ekki annað verið þegar menn eru búnir að vera að byggja upp þorskstofn svo áratugum skiptir og síðan erum við jafnvel að fara í niðurskurð enn á ný. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þingmaður? (Gripið fram í: ... byggðakvótann sem þú varst að ræða?) Byggðakvótinn er hluti af kerfinu sem ég er að ræða og mér finnst að við ættum að verja miklu meiri tíma í að ræða grundvöll kerfisins, hvers vegna við erum á rangri braut. Ég er sannfærður um að ef við mundum einfaldlega leyfa handfæraveiðar væri það miklu árangursríkara en að fara í þessar aðgerðir og leyfa einfaldlega veiðar á minni bátum. Það mundi aldrei ógna nokkurn tímann þorskstofninum eins og talað er um hann.

Hér var minnst á innfjarðarrækjuna og jafnvel má segja um aðra rækjustofna í kringum landið að veitt hefur verið minna en ráðlagt hefur verið. Samt sem áður hafa stofnanir verið að minnka. Það eru því miklu meiri líkur á að veiðarnar hafi minni áhrif en stofnlíkön ganga út á. Það er einmitt það sem ég benti á þegar fiskmerkingar sýna fram á að kannski er verið að veiða 7–8% árlega af veiðistofni en ekki 25%, að það sé miklu hærri náttúrulegur dauði en stofnlíkönin gera ráð fyrir. Auðvitað ætti ábyrgur sjávarútvegsráðherra á hverjum tíma að skoða þau rök en í stað þess er haldið áfram fisktalningunni sem hefur því miður ekki skilað miklu. Ef við værum að tala um að þetta væri að skila meiri heildarafla og uppbyggingarstarfið hefði gengið eftir, þá gætum við verið að ræða einhvern byggðakvóta í alvöru. En þegar við ræðum þetta út frá grunni sem er tóm tjara er manni náttúrlega nóg boðið að standa í því að ræða einhvern byggðakvóta hér og þar þegar kerfið í heild sinni er mjög götótt, vægast satt.

Nú hefur ýsustofninn verið mjög vaxandi og ráðgjöfin á síðasta ári var sú að draga jafnvel úr, veiða minna en einhver aflaregla segði. Það var vegna þess að meðalþyngdin var eitthvað lægri en æskilegt væri. Auðvitað segja öll líffræðileg rök að ef dregur úr vexti fisks, hann vex ekki eins og hann á að sér þó nægilegt æti væri, þá ættum við að veiða meira í stað þess að friða fisk sem vex ekki. Auðvitað eigum við að snúa okkur að því að skoða hlutina út frá líffræðinni en ekki fisktalningu. Eftir áratuga árangursleysi er haldið áfram og jafnvel verið að reyna að bæla niður rannsóknir sjálfstæðra vísindamanna. Stofnuð eru einhver setur, að vísu í Ólafsvík, þar sem ekki er verið að ræða þessar meginspurningar heldur er verið að velta fyrir sér einhverju öðru, hvort plöntusvif sé að aukast eða minnka, en ekki er verið að velta fyrir sér hver meðalþyngd fiskstofnana er. Ef hæstv. sjávarútvegsráðherra væri ábyrgur mundi hann skoða hlutina með gagnrýnum huga og leita leiða út úr kerfinu. En það er ekki gert. Menn eru eins og kerfisþrælar og koma þess vegna með frumvörp sem snúa að því að stagbæta ónýtt kerfi.

Að ýmsu er að huga í kerfinu. Ég vil nefna eitt, vissulega gengur kerfið upp út frá lögfræðilegum sjónarmiðum, að deila út einhverri hlutdeild og mögulega líka út frá einhverri stjórnsýslu. En út frá líffræðinni, að stýra veiðum á fjölmörgum veiðisvæðum hringinn í kringum landið með einum landskvóta, það þarf ekki mikinn snilling til að sjá að það gengur ekki upp. Þetta veit hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hann veit þetta en á erfitt með að færa einhver rök fyrir því hvers vegna eigi að stýra þessu með einum landskvóta og reynir því að forða umræðunni frá kastljósinu og velur þess vegna að ræða byggðamálin að næturlagi.