133. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[00:55]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur af hv. þingmanni að ég hafi kosið að ræða þetta frumvarp í kvöld. Ég hefði gjarnan viljað ræða það fyrr í dag og hafði satt að segja vænst þess að við gætum hafist handa við að ræða þetta mál miklu fyrr, miðað við dagskrána eins og hún var sett upp. En umræðan um ýmis önnur dagskrármál varð lengri og þegar kom að þessu máli í dag var ákveðið að taka önnur mál fram fyrir. Það var ekki vegna þess að ég eða aðrir sem stöndum að þessu frumvarpi hefðum kosið það, við vildum gjarnan að þetta mál yrði rætt sem mest og best vegna þess að ég held að þetta sé gott mál sem hefur verið vel unnið í hv. sjávarútvegsnefnd, enda er það þannig að það er að takast um það prýðileg sátt í meðferð þingsins, það standa allir þingflokkar að því og það væri mikill heiður og styrkur fyrir mig sem flutti málið upphaflega, og þá sem standa að því, að það gæti fengið sem mesta og besta athygli. Það var því ekki þannig að ég hefði sérstakan áhuga á því að ræða þetta hérna í kvöld. Ég get hins vegar skilið að hv. þingmaður hefði kosið að það væri rætt hér að kvöldi til vegna þess að hann er að gagnrýna þetta frumvarp þó að flokkur hans standi að því.

Eitt vakti athygli mína í máli hv. þingmanns. Hann sagði það sem hann hefur reyndar sagt mjög oft, að þessi fiskveiðistjórn eða fiskveiðiráðgjöf hafi ekki skilað neinu, einungis áratuga árangursleysi. Þetta var það sem hv. þingmaður sagði. Þetta er út af fyrir sig áhugaverð fullyrðing af hans hálfu en þá vil ég aðeins spyrja hv. þingmann nokkurs. Ég verð mjög var við það í máli starfandi sjómanna að þeir hafa aðra sögu að segja. Þeir telja að staðan með þorskstofninn sé allt önnur og miklu betri en hv. þingmaður segir og t.d. fulltrúar Hafrannsóknastofnunar segja. Þeir telja að þorskstofninn sé mjög vanmetinn, hann vaxi mjög hratt um þessar mundir og sé mun stærri en menn hafa talað um, sérstaklega eins og hv. þingmaður hefur talað. Ég spyr hv. þingmann: Er hann ósammála þessu? Telur hann að þessir sjómenn ofmeti (Forseti hringir.) og tali út í loftið og viti ekkert hvað þeir eru að tala um?