133. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[00:57]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur verið upptekinn við annað en að hlýða á mig. Hann hefur verið of djúpt sokkinn í blaðið sitt. Það sem ég var einmitt að reyna að segja í ræðu minni var að á forsendu Hafrannsóknastofnunar væri svo illa komið fyrir þorskstofninum á forsendum kerfisins sjálfs. Ég met það ekki þannig, ég met það þannig að það sé hægt að veiða miklum mun meira úr stofninum. Það er miklu eðlilegra að við leitum leiða út úr þessu kerfi og skoðum ráðgjöf þeirra manna sem vilja veiða meira. Þeir eru í miklu meiri tengslum við sjómenn. Ég get einmitt tekið undir með sjómönnum, það er hægt að veiða miklu meira úr þessum stofni en gert er. Þetta kerfi gengur ekki upp, langt í frá. Það er út frá kerfinu sjálfu, þessu aflamarki sem er sett af Hafró, sem ég hef miklar efasemdir um og ég get fært mikil og góð rök fyrir því að Hafrannsóknastofnun er á villigötum, ég er sannfærður um að það er hægt að veiða miklu meira úr stofninum en gert er. Ég held að bæði sjómenn og Hafrannsóknastofnun og ég séum engu nær um hvað stofninn er akkúrat stór. Ég held að það sé mikilli óvissu háð. Það skiptir engu máli, herra forseti, að vita hvað stofninn er stór og hvað hann er akkúrat margir fiskar. Það sem skiptir máli við stjórn fiskveiða er vöxturinn en ekki nákvæmlega hvað stofninn er stór. Það hlýtur að vera vöxturinn sem skiptir máli en ekki hvað dýrastofnar eru stórir.