133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

staða fjármálastofnana.

[11:10]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Það voru athyglisverðar þær ábendingar sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson dró hér fram, nefnilega þær ábendingar að virtir framamenn frá stjórnarandstöðunni hafi sett fjármálafyrirtæki hér nánast á dauðalista og vilji vísa vel reknum fjármálafyrirtækjum nánast úr landi. Við erum að ræða um þúsundir starfa, við erum að ræða um þá atvinnugrein sem hefur verið í hvað mestri sókn í íslensku atvinnulífi, skapað þúsundir starfa, færir ríkissjóði milljarða í tekjur og sveitarfélögunum milljónatugi. Við hljótum að spyrja: Hvað vakir fyrir leiðandi einstaklingum í stjórnarandstöðunni með slíkum ummælum um mikilvægar atvinnugreinar? Það skyldi þó ekki vera að hér glitti í gamalkunna hugsun, nefnilega þá hugsun að rekstur og góður rekstur fyrirtækja sé af hinu vonda. Þá hljótum við að spyrja: Á að halda áfram núna þegar styttist í kosningar, á þá að halda áfram og leggja inn í kosningar með þessa stefnu? Hvað næst? Það er mikið um útrásarfyrirtæki. Er það þá CCP, er það Marel eða eru það lyfjafyrirtækin? Verða þau næst? Vilja menn losa sig við þessi fyrirtæki, þessa anga út úr íslensku atvinnulífi?

Nú eru kosningar á næstu grösum og það er mjög mikilvægt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hafa talað með þessum hætti geri grein fyrir því hvort þetta sé sú stefna. Er þetta útfærslan á stopp-stopp-stefnunni, rúststefnunni sem leggur íslenskt atvinnulíf aftur í rúst? Það hlýtur að vera krafa okkar að fá að heyra nánari útfærslu á þessum ógætilegu ummælum hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar.