133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

staða fjármálastofnana.

[11:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er svolítið erfitt að átta sig á málflutningi Framsóknarflokksins þessa dagana. Talsmenn hans segja að menn kjökri undan þessum flokki. Ég held að í rauninni sé ástæða til þess að fella nokkur tár yfir aumkunarverðu hlutskipti þessa stjórnmálaflokks.

Staðreyndin er að sjálfsögðu sú varðandi fjármálastofnanir og banka að við vorum einörðustu talsmenn þess að tryggja í almannaeign a.m.k. einn banka sem kjölfestu í íslensku fjármálalífi. Staðreyndin er sú að þeir eru meira og minna komnir með eignarhaldið út fyrir landsteinana, búnir að koma sér fyrir í skattaparadísum. Þannig er eignarhald í Landsbankanum 70%. Eignarhald í Landsbankanum er komið frá Íslandi og það er að uppistöðu til í skattaparadísum. Straumur – Burðarás, þar er 60% eignarhald komið úr landi. En Framsóknarflokkurinn þjónar lund þeirra auðmanna sem hann hefur nært í stjórnarsetu sinni og það væri ástæða til þess áður en þing fer heim að rifja upp einkavinavæðinguna og spillinguna, sérstaklega þegar Framsóknarflokkurinn afhenti vildarvinum sínum dýrmætar þjóðareignir. Það væri ástæða til að rifja þetta allt saman upp. (Landbrh.: Ómerkilegt.) Hvað er ómerkilegt við þetta, hæstv. landbúnaðarráðherra? (Landbrh.: Tóm lygi.) Ég skal lofa hæstv. landbúnaðarráðherra því að áður en þing fer heim verði þetta rækilega rifjað upp, þá verði spillingarsaga Framsóknarflokksins rækilega rifjuð upp, hvernig hann hefur nært (Forseti hringir.) vildarvini sína á kostnað íslensku þjóðarinnar.