133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

staða fjármálastofnana.

[11:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að trúa vinum mínum, hv. þingheimi fyrir því, að ef ég má velja, eins og mér virðist af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins að ég megi velja mér ráðherraembætti, þá kynni eitthvað annað að vera ofar á forgangslista mínum en fjármálaráðuneytið. En ef það er vilji Framsóknarflokksins að ég taki það að mér og feti þar með í fótspor margra góðra manna, þar á meðal Che Guevara á Kúbu, þá skal ég íhuga það fyrir orðastað þeirra.

En af því að ummæli mín voru leidd hér inn í umræðuna er rétt að það komi fram að ég hef sagt að ef ég eða hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir yrðum bankamálaráðherrar yrði leitast við að fara betur með gjaldþrota fólk á Íslandi en hingað til hefur verið gert. Það var nú það eina sem ég sagði í tengslum við bankana.

Svo það liggi alveg ljóst fyrir tel ég að bankarnir séu eitt það glæsilegasta dæmi um breytingar á atvinnulífi Íslendinga og við höfum sagt það í Samfylkingunni að við viljum leggja mikið á okkur til að auka útrásarmöguleika okkar. Þar á meðal að afnema reglugerð hæstv. fjármálaráðherra sem hann setti samkvæmt skipun pólitísks seðlabankastjóra, sem virðist beinlínis miða að því að ýta í burtu fyrirtækjum sem ekki falla í kramið hjá Sjálfstæðisflokknum.

Frú forseti. Af hverju kom hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hingað upp? Hann kom hingað til að þyrla upp moldviðri til að draga athyglina frá því að formaður hans kom hér í gær og fór með ósannindi. Það er mjög sjaldgæft að formaður stjórnmálaflokks, jafnvel þó hann sé reynslulítill, komi hingað og fari beinlínis með ósannindi. Nákvæmlega á þessari stundu er stjórnarandstaðan með einn af sínum viðurkenndu og velmetnu blaðamannafundum til að hrekja þau ósannindi formanns Framsóknarflokksins. Þess vegna kom hv. þingmaður hingað, en hann gleymdi einu. Hann hefði kannski átt að segja frá (Forseti hringir.) síðustu skoðanakönnun sem sýnir samkvæmt (Forseti hringir.) Gallup að (Forseti hringir.) flokkur hans, frú forseti, (Forseti hringir.) er kominn niður í 6,3%, samkvæmt könnun Gallups. (Forseti hringir.)