133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[11:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um svokallaðan byggðakvóta sem er, eins og allir vita, í raun og veru viðlagaákvæði í lögunum um stjórn fiskveiða, viðlagaákvæði sem ætlað er að taka á þeim vanda sem skapast í sjávarbyggðum þar sem atvinnubrestur verður af einhverjum orsökum, m.a. vegna þess að veiðiréttarheimildir hafa verið seldar úr byggðarlagi eða veiðiréttur dottið niður í einstöku fisktegundum.

Þó að við í Frjálslynda flokknum séum ekki sammála þessari sjávarútvegsstefnu þá er viðlagaákvæðið um byggðakvótann eina vörn byggðanna og við munum styðja þetta mál en höfum auðvitað þann fyrirvara á að ef þessi aðgerð ætti virkilega að ná tilgangi sínum þyrfti slíkur byggðakvóti að vera miklu stærri, miklu fleiri tonn, ef taka ætti á vanda þeirra fjölmörgu byggða sem hafa farið illa út úr kvótakerfinu og framsalinu þar.