133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[11:43]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum að greiða atkvæði um byggðakvóta. Það hlýtur þá að leiða hugann að því hvernig ríkisstjórnin hefur staðið við það sem hún ætlaði sér að gera í málefnum sjávarbyggðanna og í sjávarútvegsmálum á kjörtímabilinu. Í stjórnarsáttmálanum átti að styrkja hagsmuni sjávarbyggða — þetta hefur verið svikið. Það átti að styrkja forkaupsréttarákvæði kvóta fyrir sveitarfélög og lögaðila — þetta hefur verið svikið. Það átti að láta veiðigjald renna til sveitarfélaga — þetta hefur verið svikið. Það átti að takmarka framsal frá sveitarfélögum — þetta hefur verið svikið. Það átti að auka byggðakvóta — þetta hefur verið svikið. Línuívilnunin — einungis efnd að hálfu. Það átti að setja auðlindir í stjórnarskrá — það hefur líka verið svikið.

Þetta er árangurinn eftir fjögur ár, virðulegi forseti, núna á að skammta byggðunum eins og skít úr hnefa aðganginn að þeirra eigin auðlindum. Þetta er svívirðuverk, þetta er ekki réttlátt, þetta er ekki sanngjarnt. En, því miður, þetta er neyðarbrauð, (Forseti hringir.) okkur er stillt upp við vegg í þessu máli. Við segjum já í því en eingöngu vegna þess að við viljum reyna að stuðla að því að rétta sjávarbyggðunum þá hjálparhönd sem þær þurfa á að halda.