133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[13:30]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (frh.):

Frú forseti. Ég held áfram þar sem frá var horfið í ræðu minni um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvörum, 3. umr. Umræðan hefur bæði við 1. og 2. umr. verið mjög athyglisverð og að sjálfsögðu beinst að því sem mestu máli skiptir, að hér er verið að gera langtímasamning um framleiðslu við sauðfjárræktendur inn í framtíðina.

Við segjum í áliti minni hluta landbúnaðarnefndar, sem þrír fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni undirrita, að megináherslan og markmið Samfylkingarinnar sé að stuðningurinn við landbúnaðinn nýtist bændum og íslenskum neytendum. Það er útgangspunktur hjá okkur. Við viljum styðja með beinum hætti við atvinnulíf í dreifbýli. Við viljum styðja með beinum hætti við búvöruframleiðslu og íslenska bændur. Á því leikur enginn vafi. Við í Samfylkingunni styðjum það að gerður sé búvörusamningur sem þessi við bændur og framleiðendur íslenskra búvara. Það er alveg á hreinu. En við viljum að sjálfsögðu hafa aðkomu að því hvernig samningurinn er gerður, hvert innihald hans sé og hvert markmiðið er með samningnum, hvernig við teljum að því sé best náð. Við viljum semja við bændur og við viljum styðja við atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni. Ég er sannfærður um að hér þarf að vera stuðningsfyrirkomulag við byggðir og búvöruframleiðslu. Byggðirnar margar hverjar eru það veikar og standa það höllum fæti að það þarf að styðja við þær.

Ríkisstjórn Íslands hefur brugðist byggðunum með margvíslegum hætti. Þó að ráðist hafi verið í gríðarlega miklar stóriðjuframkvæmdir á einstökum stað, eins og þekkt er fyrir austan, þá hefur dreifbýlið orðið eftir og þau svæði sem eru lakar sett á landinu núna eru þau svæði þar sem sauðfjárræktin t.d. er hvað útbreiddust eins og fyrir norðvestan. Þar er hagvöxturinn frægi mínus 10–30%, en hefur verið á suðvesturhorninu 20% og rúmlega það á tímabili. Þar hefur ekki verið neinn hagvöxtur. Þar hefur verið viðvarandi samdráttur þar sem landbúnaður er aðalatvinnuvegurinn. Mjólkurframleiðslan hefur staðið ágætlega. Á Suðurlandsundirlendinu og sumum hlutum Vesturlands hefur orðið gífurleg samþjöppun hjá mjólkurframleiðendum. Búin hafa stækkað verulega. Áður var, eins og þekkt er, meðalstærð kúabúa um 100–150 þúsund lítra ársframleiðsla af mjólk. Nú eru þessi stærstu bú að framleiða 500, 600, 700 og 800 þúsund lítra af mjólk á ári. Þetta er þróun innan greinarinnar. Um leið er að sjálfsögðu verið að skuldsetja greinina mjög mikið af því að á bak við þetta liggja mikil kvótakaup, sem hlýtur að vera rannsóknarefni í sjálfu sér hvernig það muni leika greinina síðar. Þess vegna verður erfitt að hreyfa við því kerfi því að yngri bændur sem eru að stækka og ætla að búa áfram hafa fjárfest fyrir verulegar fjárhæðir, fyrir milljarða kr. í það heila í kaupum á framleiðsluréttindum, fjárfest í kaupum á ríkisstuðningnum. Þannig er kerfið uppbyggt. Við viljum semja við bændur og styðja við atvinnulíf á landsbyggðinni og við viljum halda og byggja upp sátt á milli neytenda og framleiðenda. Þess vegna á að gera samninga eins og hér eru gerðir og markmiðin eru að sjálfsögðu þau að efla landsbyggðina. Stuðningurinn við landsbyggðina stendur því að mörgu leyti til grundvallar að það sé byggt og búið sé á mörgum svæðum Íslands. Ef stuðningurinn yrði tekinn af í einu vetfangi eða dregið mjög harkalega úr honum mundi það örugglega hafa mjög alvarleg áhrif á byggðina og allar breytingar á stuðningi við byggðir og búvöruframleiðslu þarf að sjálfsögðu að gera í samráði við bændur en það á hins vegar alveg hiklaust að fara í slíkt samráð og þróa stuðninginn áfram.

Eins og ég gat um áður en matarhlé var gert hefur stuðningurinn verið að minnka. Framleiðslutengdi stuðningurinn hefur hlutfallslega minnkað. Hann er líklega einhver 60% af þessum samningi, þ.e. bein framleiðslutenging. Hitt er tengt öðrum þáttum, gæðastýringu og fleiru sem er mjög jákvætt að mínu mati. Ég held að það eigi einmitt að tengja búvöru- og byggðastuðninginn við ýmislegt annað en beina framleiðslu án þess að við hverfum algerlega frá því að framleiðslustyrkja líka. En við eigum að þróa þetta kerfi hiklaust áfram af því að ég tel að til framtíðar litið þurfum við að styðja við byggð og búvöruframleiðslu á Íslandi. Mér blandast ekki hugur um það. Hins vegar er spurningin um hvernig það er gert og hvaða fjárhæðum við verjum til þess. Það er viðfangsefni stjórnmálamannanna og það er það sem við erum að ræða um núna í 3. umr.

Umræðan hefur verið nokkuð athyglisverð. Hér hefur verið farið um víðan völl byggðamálanna eins og eðlilegt er. Þetta er, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður sjálfstæðismanna, sagði við 1. umr. um málið, stærsta einstaka byggðaaðgerðin sem við ráðumst í. Það er þessi tiltekni samningur og því er mjög eðlilegt að við ræðum almennt um stöðuna í byggðamálum og áhrif byggðastuðningsins o.s.frv. og hvernig við getum leitast við að ná okkar ýtrustu markmiðum með byggðastuðningnum, sem eru þau að út um allt Ísland sé öflug byggð sem standi hvað traustustum fótum og auðvitað hlýtur það að vera framtíðarmarkmið okkar að landbúnaðurinn, eins og önnur atvinnustarfsemi á Íslandi, fái þrifist sem best með sem minnstri aðkomu stjórnvalda, að landbúnaðurinn þrífist sem mest og best án stuðnings og á frjálsum markaði. Það er að sjálfsögðu framtíðarmarkmiðið. En það er svo langt frá því að við séum að ná því markmiði vegna þess að á síðustu árum og í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur staðan á þeim svæðum þar sem atvinnulífið hvílir á t.d. sauðfjárrækt, versnað. Þar er hagvöxturinn enginn, þenslan er engin, þar er samdráttur upp á tugi prósentna o.s.frv. Því þarf að styðja við þær byggðir og það þarf hiklaust að styðja við þetta atvinnulíf. Það er það sem við eigum að gera en við eigum að sjálfsögðu að endurskoða það hvernig við náum því markmiði í samráði og sátt við bændur.

Megináhersla og markmið Samfylkingarinnar er að stuðningurinn við landbúnaðinn nýtist bæði bændum og íslenskum neytendum. Við viljum byggja upp sátt og samstöðu um þennan stuðning á milli þeirra sem búa í þéttbýli og dreifbýli. 70% þjóðarinnar býr á suðvesturhorninu og við viljum að sjálfsögðu viðhalda sátt og ná sátt á milli þeirra sem hér búa og þeirra sem búa úti á landi og þeirra sem framleiða. Að sjálfsögðu þarf að vera þokkaleg sátt þarna á milli. Við viljum skapa framþróun í greininni og það sé árangursríkur stuðningur við atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni. Það er algert grundvallarmarkmið. Í nefndaráliti minni hluta segir, með leyfi forseta:

„Samningur sá milli ríkis og Bændasamtaka Íslands frá 25. janúar sl., um starfsskilyrði sauðfjárræktar, sem er grundvöllur þessa frumvarps nær ekki“ ýtrustu [innskot mitt] „markmiðum um aðlögun greinarinnar að innlendum markaði né um nýbreytni í atvinnumálum dreifbýlisins og skilur bændur eftir í óvissu um kjör sín þegar útflutningsskyldu verður aflétt árið 2009. Ekki verður séð að markaðsstarf erlendis skili bændum tekjum fyrir framleiðslu sína og útflutningur því hvorki til hagsbóta fyrir bændur né neytendur.“

Af þessu tilefni vildi ég einmitt spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvernig liði þessu markaðsstarfi t.d. í Bandaríkjunum. Ég er ekki að varpa rýrð á það því ég held að slíkt markaðsstarf geti vel skilað góðum árangri þegar fram líða stundir. Ég held að menn eigi ekki að láta kjafta sig frá slíku markaðsstarfi ef þeir hafa trú á því á annað borð. Auðvitað á ekki að standa í slíku markaðsstarfi upp á punt eða vera að sóa í það fjármunum ef það er ekki líklegt til að skila neinum árangri. En mér þætti fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra landbúnaðarmála gera stuttlega grein fyrir hvernig staðan er í því starfi, hvað hefur verið lagt til þess, hverju hefur það skilað og hvaða pólitísku væntingar bindur hæstv. ráðherra við markaðsstarfið? Á að halda því áfram? Erum við að horfa á það einhvers staðar lengst inni í framtíðinni? Það þarf ekki að beintengjast útflutningsskyldunni sem slíkri þó margir hengi það saman að með afnámi hennar hafi sú starfsemi verið lögð til hliðar, sem hefur verið að eiga sér stað og þekkt er úr íslenskri þjóðmálaumræðu og það hefur endurspeglast kannski í henni að það eru ekki margir sem hafa mikla trú á þessu, það liggur algerlega fyrir.

Ég hef mjög opinn huga fyrir því að við vinnum markaðsstarf erlendis upp á að það skili bæði bændum og íslensku samfélagi alls konar ábata þegar fram líða stundir. Þetta eru risastórir markaðir, t.d. í Bandaríkjunum, og ef við kæmumst á annað borð inn á hann með einhverjum sómasamlegum hætti gætum við örugglega haft af því verulegan ábata og framleitt fyrir hann. Það er hins vegar spurning hvað sé nóg því að í því samhengi er íslensk sauðfjárrækt að sjálfsögðu agnarsmá í sjálfu sér og spurning hvað við getum staðið undir mikilli framleiðslu o.s.frv. En það er að sjálfsögðu sóknarfæri fyrir greinina. Það er að sjálfsögðu sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað ef við getum komið fullunnum landbúnaðarvörum okkar og framleiðslu erlendis og haft af því verulegan ábata þannig að sá stuðningur sem við erum að ræða um hérna, byggðastuðningur og búvöruframleiðslustuðningur, skili sér með þeim hætti inn í þjóðarbúið aftur, af því að auðvitað skilar þessi stuðningur sér með beinum hætti mjög hratt inn í ríkiskassann aftur. Það er ekki eins og verið sé að sópa þessum fjármunum burt þannig að þeir komi ekki aftur til íslenskrar þjóðar. Þeir koma allir aftur með einum eða öðrum hætti og sumir beint í gegnum virðisaukaskatt o.s.frv.

Forsendurnar fyrir byggðastuðningi eru til staðar. Byggðirnar standa margar hverjar mjög veikt og það er miður. Það þarf að styðja við bakið á þessum atvinnuháttum eins og staðan er núna og við eigum að styðja við bakið á atvinnulífi og nýsköpun á landsbyggðinni með mjög markvissum og markmiðssettum hætti svo hann skili sér klárlega til bæði framleiðenda og neytenda. Þess vegna eigum við óhikað að ræða fyrirkomulagið á stuðningnum þó svo hæstv. landbúnaðarráðherra eigi það til að rjúka upp til handa og fóta í hvert skipti sem minnst er á að þróa eigi byggðastuðninginn á einhvern hátt. Það sem ég er að segja er að við í Samfylkingunni styðjum það að byggðir og búvöruframleiðsla séu studd myndarlega þannig að það skipti máli. En við áskiljum okkur að sjálfsögðu fullan rétt til að ræða það, meira að segja við hæstv. landbúnaðarráðherra hvernig þeim stuðningi sé fyrir komið. Ég tek bara áhættuna af því hvernig hæstv. ráðherra bregst við opnum umræðum um það mál, hvernig eigi að styðja við bakið á íslenskri búvöruframleiðslu.

Útgangspunkturinn er þessi: Hafa menn pólitíska metnað og pólitískan vilja til að styðja við byggðir og búvöruframleiðslu með beinum hætti? Ef svarið við því er já, eins og það er hjá mér, hljótum við að spyrja næstu spurningar: Hvernig eigum við að koma stuðningnum fyrir og hvað eigum við að verja miklu fjármagni til þess? Það er það sem við eigum að ræða um þegar við höfum svarað hinni spurningunni, að sjálfsögðu. Þess vegna hafa allar umræðurnar, 1., 2. og nú vonandi 3. umr. ef skapast umræða aftur í dag um málið, verið mjög árangursríkar, fínar og málefnalegar milli allra stjórnmálaflokkanna. Hér hafa margir alþingismenn, þingmenn kraga, Reykjavíkur og landsbyggðar tekið mjög málefnalegan þátt í umræðunni. Hér hafa menn ekki farið upp með gífuryrði og skammir um gerð slíks samnings. Hér hefur verið málefnaleg umræða um hvort réttlætanlegt sé að gera svona samning inn í framtíðina og binda hendur ríkisstjórna næstu ára, fjármagnið sem við leggjum til o.s.frv. Það er algerlega sjálfsagt mál að við íslenskir alþingismenn ræðum það með beint og opinskátt hvernig við gerum slíkan samning af því að við fáum samninginn í hendur mjög mótaðan. Hann fer þannig inn í landbúnaðarnefnd. Landbúnaðarnefnd kemur ekki að frumgerð samningsins og síðan komum við að honum í umræðunum núna þremur, og það er hið besta mál.

Þess vegna segi ég, eins og segir í nefndaráliti frá minni hluta landbúnaðarnefndar og þrír alþingismenn Samfylkingarinnar undirrita, með leyfi forseta:

„Samfylkingin styður beinan stuðning við landbúnað en gerir skýra kröfu um árangur, til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur“

Þetta er alger kjarna- og lykilsetning í allri pólitískri umræðu um þetta mál. Við styðjum beinan stuðning við landbúnað en við gerum skýra kröfu um árangur, bæði til hagsbóta fyrir neytendur og framleiðendur. Þetta er algert grundvallaratriði og þetta er útgangspunkturinn. Svo ræðum við um hvernig stuðningnum er fyrir komið. Og eins og við segjum hérna:

„Stuðningurinn verður að skila sér í góðri afkomu bænda og lágu verði til neytenda. Þau markmið vill Samfylkingin tryggja með gerð slíkra samninga.“

Tvíhliða samningur fyrir bændur og neytendur að sjálfsögðu. Ég tel að svona samningur geti vel skilað þeim ábata til hvorra tveggja sem við leggjum hér upp með, neytenda og framleiðenda. Ég er alveg sannfærður um það. Það á ekki að þurfa að stangast á að mínu mati. Þess vegna er svona stuðningur pólitískt réttlætanlegur og pólitískt nauðsynlegur af því að byggðirnar standa veikar margar hverjar og þurfa á stuðningi að halda, atvinnulífið í sveitum. Það er alveg á hreinu. Og breytingar á stuðningsfyrirkomulagi, búvöruvernd eða búvörustuðningi á að sjálfsögðu að gera í samráði við framleiðendurna og bændurna sjálfa, að sjálfsögðu, í samráði við fólkið í sveitunum og dreifbýlinu. Fyrir það fólk erum við að vinna eins og alla aðra Íslendinga.

Samfylkingin vill jafna tækifæri allra Íslendinga til ákveðinna grunngæða, samgangna, menntunar, fjarskipta, heilbrigðisþjónustu og að sjálfsögðu er búvöru- og byggðastuðningurinn partur af því. Hann er partur af stuðningskerfi þjóðfélagsins sem við jafnaðarmenn berjumst fyrir. Við viljum byggja upp stuðnings- og velferðarkerfi sem skilar sér með mjög margvíslegum hætti til baka. Ég er algjörlega sannfærður um að einn af þáttum sem mynda það sem við jafnaðarmenn köllum sáttmála um nýtt jafnvægi á milli landsbyggðar og höfuðborgar er stuðningur við byggðir og búvöruframleiðslu með beinum hætti eins og verið er að ræða hér í dag. Ég er algjörlega sannfærður um það. Þess vegna viljum semja við bændur og þess vegna viljum við styðja við atvinnulíf og framleiðslu í sveitum og í dreifbýli þar sem við getum náð sátt og samstöðu milli neytenda og framleiðenda um það hvernig stuðningnum er komið fyrir, hve miklum fjármunum er varið í hann og hvað við fáum út úr honum. Fyrirkomulag stuðningsins er pólitískt útfærsluatriði sem á að vinna í samráði við bændur.

Öflug byggðastefna er eitt af stærstu baráttumálum okkar jafnaðarmanna fyrir komandi kosningar, að efla mannlíf og atvinnulíf í dreifbýli á Íslandi. Það er eitt af okkar stærstu baráttumálum og eitt af því sem við höfum einsett okkur að gera, förum við í ríkisstjórn eftir sextíu daga, að ráðast í öflugan stuðning við landsbyggðina á Íslandi og móta og byggja upp öfluga byggðastefnu sem unnið er eftir. Byggðastefnu með pólitískum markmiðum sem tekur til allra þátta byggðamála, menntunarmála, heilbrigðismála, samgöngumála, fjarskiptamála — háhraðanettengingar, fjarskiptasamband eru grundvallargæði í dag. Raforkuverðið, stuðningurinn við það sem kallað er flutningskostnaður, þetta þarf allt að skoða, þetta eru allt grundvallarþættir.

Við viljum að bændur og framleiðendur, garðyrkjubændur, njóti lágs raforkuverðs. Það er ekki bara stóriðjan sem á að sitja að tombóluverði á raforku. Að sjálfsögðu eiga íslenskir neytendur og bændur, og ekki síst þeir sem framleiða græna vöru, gróðurhúsabændur, græna stóriðjan sem svo er stundum kölluð, að njóta lágs raforkuverðs. Það er besti búvöru- og byggðastuðningurinn við þá grein. En hér erum við að ræða annan stuðning, en allt tengist þetta með einum eða öðrum hætti. Það þarf líka að gæta að sanngirni og jafnvægi á milli tiltekinna tegunda búvöruframleiðslunnar.

Hér er nefnt að rétt hefði verið við gerð samningsins að taka frekari skref í átt að óframleiðslutengdum stuðningi — sem er þó verulegur og stór skref hafa verið stigin í þá átt. Það eru líklega ekki, eins og ég sagði áðan, nema liðlega 60% af samningnum beintengd við framleiðslu — og gerð samninga um nýsköpun í atvinnustarfsemi í dreifbýli. Þetta segjum við í nefndaráliti. Þetta eru þau pólitísku markmið sem við viljum fá fram með slíkum samningi.

Svo er að sjálfsögðu rætt um það hvort réttlætanlegt sé að binda hendur næstu ríkisstjórnar þrátt fyrir að samningurinn eigi ekki að ganga í gildi fyrr en átta mánuðum eftir að ný ríkisstjórn tekur við völdum í vor. Að því leyti er það ólánleg tímasetning hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að gera þennan samning á lokadögum þingsins þegar nánast enginn tími er til umfjöllunar um hann í landbúnaðarnefnd. Ég efast ekkert um að þar hefur verið vel unnið þann stutta tíma sem gafst. Það efast ég ekkert um. En auðvitað eiga svona stórir samningar sem skipta mjög miklu máli, rétt eins og mjólkurframleiðslusamningurinn sem kom þó inn fyrir nokkrum árum, að koma fyrr inn svo að ekki þurfi að vera ræða þá þegar jafnvel er komið fram yfir síðasta opinbera starfsdag þingsins.

Það sem mestu máli skiptir þó er að ræða um pólitískan metnað og pólitískan vilja til að styðja við byggðir og búvöruframleiðslu á Íslandi. Það er eitt af því sem mestu skiptir að mínu mati í allri stefnumótun okkar jafnaðarmanna í Samfylkingunni fyrir komandi kosningar, að móta og bera fram öfluga byggðastefnu. Byggðastefnu sem nær yfir alla þá þætti sem ég hef nefnt, aðgengi að menntun, öflugt háskólanám úti á landi — hefur verið kallað net háskólastofnana víðs vegar um landið og til þess tekið hve þau svæði þar sem háskólastofnanir hafa náð alvörufótfestu, eins og í Borgarfirði, á Akureyri, á Hvanneyri og víðar, hafa notið þess í miklum mæli. Ég held því að uppbygging slíkra stofnana sé jafnvel enn mikilvægari en við höfum gert okkur grein fyrir á síðustu árum.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi samgangna um allt land, uppbyggingu safn- og tengivega, aðgreiningu akreina á fjölförnustu vegunum o.s.frv. Samgöngur skipta miklu máli. Ég held t.d. að fólksflóttinn frá Vestmannaeyjum, þar sem fækkað hefur um eitt þúsund manns á tíu árum, sé vegna þess að samgöngur á milli lands og Eyja eru hörmulegar á nútímalega vísu. Þær eru einfaldlega ófullnægjandi. Unga fólkið sættir sig ekki við þær. Við verðum að halda öflugu samgönguátaki á lofti. Ég veit að pólitískur vilji er fyrir því í öllum flokkum en það er spurning hve menn setja það framarlega á stefnuskrána og í forgangsröðun ríkisfjármunanna og þeirra peninga sem við getum varið til uppbyggingar á grunnkerfum almannaveitnanna allra. Almannaveiturnar tengjast fjarskiptum að mjög miklu leyti og það er áríðandi að leysa þann vanda sem netsambandsleysið er á stórum svæðum á Íslandi. Þúsundir Íslendinga eru enn þann dag í dag, árið 2007, án háhraðatengingar frá heimili sínu.

Við þurfum líka að gera það sem við samfylkingarmenn höfum sett fram undir liðnum störf án staðsetningar þar sem við ætlum að vista mikinn fjölda opinberra starfa sem verða til á næstu árum hér og hvar um landið, störf sem tengjast ekki staðsetningu á einum stað frekar en öðrum. Vistun slíkra starfa víðs vegar um landið skiptir mjög miklu máli og það er fín innspýting út á land til þeirra byggða sem mest þurfa á því að halda. Það er engin spurning að það er mjög mikilvægt í lítið og fámennt byggðarlag að fá kannski nokkur öflug opinber stöðugildi. Það getur skipt verulega miklu máli. Við þekkjum margfeldisáhrifin sem verða þegar tiltekin fjölbreytni er komin í atvinnusamsetningu á einstaka staði, áhrifin verða strax mjög mikil. Það skiptir því mjög miklu máli að það sé pólitískt markmið ríkisstjórnar að vista störf án staðsetningar hér og hvar um landið.

Við höfum farið yfir pólitísk markmið með þeim stuðningi sem frumvarp um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er. Ég hef komið því skýrt til skila hver stefna Samfylkingarinnar, pólitískur vilji og metnaður, er í málinu. Það er mjög ánægjulegt hvað umræðan hefur orðið bæði málefnaleg og mikil án þess að ganga út í neinar öfgar um mál sem skiptir byggðir landsins að sjálfsögðu miklu máli. Það gefur augaleið. Mörgum þykir stuðningurinn allt of hár o.s.frv. Við þekkjum þá umræðu. Fara þarf fram vönduð og ítarleg umræða um markmið og fyrirkomulag á slíkum stuðningi. Megináhersla og markmið okkar jafnaðarmanna er að stuðningurinn við landbúnaðinn nýtist bændum og íslenskum neytendum, skapi framþróun í greininni, eins og segir í nefndaráliti okkar, og sé árangursríkur stuðningur við atvinnulíf á landsbyggðinni. Það er okkar meginmál. Síðan segir hér, ég ætla að endurtaka það og undirstrika, með leyfi forseta:

„Samfylkingin styður beinan stuðning við landbúnað en gerir skýra kröfu um árangur, til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur. Stuðningurinn verður að skila sér í góðri afkomu bænda og lágu verði til neytenda. Þau markmið vill Samfylkingin tryggja með gerð slíkra samninga.“

Ég er sannfærður um að þessi tvö pólitísku markmið, að efla stöðu, afkomu og hag framleiðenda og sanngjarnt verð til neytenda, fara fullkomlega saman. Þessi tvö markmið á að tvinna saman og ekki á að láta eins og samningurinn komi öðrum við en ekki hinum. Samningurinn snertir alla landsmenn. Við verjum verulegum opinberum fjármunum til búvöru- og byggðastuðnings og þess vegna á að fara fram mjög opinská og hreinskiptin pólitísk umræða um málið. Það gefur augaleið og er algjörlega sjálfsagt mál.