133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[13:55]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einhvers staðar segir: Batnandi manni er best að lifa. Maður sér hvað þessar umræður eru þroskandi. Nú stendur 3. umr. yfir og nú heldur hv. þingmaður bestu ræðu sína um landbúnaðarmál, fer margoft yfir stefnumið Samfylkingarinnar. Maður veit að í húsi þeirra eru margar vistarverur og skiptar skoðanir. En ég fagna þessari ræðu, hún er ólík þeim ræðum sem hv. þingmaður flutti við 1. og 2. umr. Ég fagna því og tek undir margt af því sem fram kom í máli hv. þingmanns.

Hver vegur að heiman er vegurinn heim, segir í fallegum texta. Vissulega spurði hv. þingmaður mig um markaðsstarf í Bandaríkjunum sem fram hefur farið í ein fimm, sex ár og þróast með þeim hætti að Whole Foods-búðirnar hafa mikinn áhuga á því að eiga viðskipti við íslenska bændur og þeir dásama mjög íslenskan fjölskyldubúskap. Það sýnir sig að þar eigum við mikla möguleika, lambakjötið hefur fengið mikla athygli og er selt þar á háu verði sem vonandi skilar því á einhverjum tíma að bændurnir hafi eitthvað út úr því. Skyrið, ostarnir og smjörið er í miklum hávegum haft. Ein dós af skyri er seld út úr búð á Íslandi á 80 kr. en kostar 200 kr. í Bandaríkjunum. Þeir líta á skyrið með sama hætti og við, sem mikla hollustuvöru. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er auðvitað langtímamarkmið. Áformssjóðurinn var stofnaður í framhaldi af því að Íslendingar lögðu allar útflutningsbætur af, fyrstir þjóða í Evrópu. Þetta eru 25 millj. kr. á ári og fara eðlilega ekki allar í þetta verkefni en þær hafa verið eins konar markaðssjóður landbúnaðarins sem ríkið lét landbúnaðinum í hendur.