133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:05]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þennan búfjársamning í 3. umr. og er ástæða til þess að árétta það sem áður hefur verið sagt. Í gær var atkvæðagreiðsla eftir 2. umr. Margir hafa komið að máli við mig síðan og ég hef orðið þess var að það hefur farið fram hjá mjög mörgum um hvað við ræddum og deildum. Ástæða er til að fara í gegnum þetta aftur og ítreka það sem hefur verið sagt þannig að menn megi fá glögga mynd af því sem við erum að ræða. Í gær voru greidd atkvæði um breytingartillögu sem ég hef lagt fram og hún var kolfelld. Ég held að hún hafi fengið fimm eða sex atkvæði. Ég tel nauðsynlegt að fara yfir þetta, virðulegi forseti, mér er málið skylt af því ég flutti tillöguna. Mér er það alveg óskiljanlegt hvernig allur þessi her þingmanna gat sameinast um að vera á móti tillögunni.

Við skulum fara yfir þetta enn og aftur. Við erum að styrkja sauðfjárrækt, sauðfjárrækt sem hefur grundvallarþýðingu fyrir byggð í landinu. Þar sem byggðin er veikust er sauðfjárræktin þýðingarmest. Menn deila um það, og við þekkjum þær deilur, hvort styrkir til sauðfjárræktar séu mikill kostnaður fyrir ríkið og samfélagið eða ekki. Ég hef margsinnis haldið því fram, og er reiðubúinn að halda því fram eins oft og þurfa þykir, að svo sé ekki. Ég tel mig geta fært fyrir því veigamikil rök að ef íslenska ríkið hættir að styðja sauðfjárrækt, með þeim afleiðingum sem öllum mega vera ljósar, kæmu mjög stórir kalblettir í byggð á Íslandi. Það hefði í för með sér meiri kostnað fyrir samfélagið en sem nemur því sem við verjum núna til sauðfjárræktar. Óhemjukostnaður mundi fylgja þeirri upplausn, upplausn samfélags okkar, sem væri þá ekki hægt að koma í veg fyrir. Er nú upplausnin nóg, hélt ég virðulegi forseti, eru nú félagsleg vandamál okkar nóg í þessu gnægtarsamfélagi þó við færum ekki að taka steininn úr með svo heimskulegum aðgerðum.

Þá skulum við fara yfir það um hvað verið er að deila varðandi breytingartillögu mína. Í fyrri búvörusamningum hafði ráðherra heimild til að skylda alla framleiðendur til þess að flytja út ákveðið magn af sauðfjárafurðum á ári. Tilgangurinn mátti vera öllum ljós, til að að forða því að verð félli á innlendum markaði svo mikið að búskapurinn gæti ekki við það unað. Þetta gætum við aldrei gert nema með lagavaldi. Slíkt væri aldrei hægt að gera á öðrum forsendum en þeim vegna þess að allir verða að vera undir þessa sök seldir.

Það hefur komið fram áður, virðulegi forseti, að þessi útflutningsskylda er reiknuð í Genf af WTO sem styrkur, sem jafngildi styrks. Nefndar hafa verið á undanförnum árum 1.600 millj. kr. og 1.800 millj. kr. annað árið. Þetta er reiknaður styrkur. Ríkið hefur hins vegar engan kostnað af þessum útflutningi. Hann er alfarið á kostnað framleiðenda, ríkið kemur þar hvergi nærri. Það er hins vegar rétt að í beintengingunni borgar ríkið á framleitt kjötkíló ef það fullnægir réttum gæðaflokkum, burt séð frá því hvort það er síðan selt innan lands eða utan. En engum dettur í hug að reikna það sem útflutningsstyrki og það gerir það heldur enginn.

Það er rangt, sem víða má heyra og víða má sjá skrifað, þegar menn segja sem svo að landbúnaðurinn eigi að fylgja almennum markaðslögmálum og lifa við það. Það ágæta fólk sem ég þekki svo vel í röðum ungra sjálfstæðismanna hefur margsinnis gert slíkar samþykktir. Það er eflaust fallegt og vel meint en staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að í Vestur-Evrópu, Vesturheimi, er landbúnaður hvergi á frjálsum markaðslögmálum. Í öllum þróuðum löndum styrkja viðkomandi ríkisstjórnir á einn eða annan hátt framleiðslu sína. Þau gera það á mjög mismunandi hátt með mjög mismunandi aðferðum en alls staðar er það gert vegna þess að viðhorfið í öllum þessum ríkjum er hið sama og á Íslandi, að það borgi sig og það beri að styðja innlenda landbúnaðarframleiðslu. Þetta er viðhorf allra ríkja.

Síðan er það mismunandi hvernig þetta er reiknað. Þeir sem ráða ferðinni um það hvernig reikna skuli eru að sjálfsögðu Evrópusambandið og Bandaríkin. Þau ráða öllu. Þau ráða öllu í þeim útreikningi. Þau koma því auðvitað þannig fyrir að þeirra eigin útflutningsstyrkir eru ekki reiknaðir sem styrkir. Allur sá mikli frumskógur af víkjandi lánum, þessu kerfi í Bandaríkjunum þar sem allir útflytjendur fá víkjandi lán í stórkostlegum stíl, þeir flytja út milljónir og aftur milljónir tonna af landbúnaðarafurðum, er ekki reiknaður sem styrkur. Ekkert af því er reiknað sem styrkur. Af því að það passar ekki Bandaríkjamönnum.

Sama er með Evrópusambandið. Það hefur mjög víðtækt kerfi þar sem það kaupir upp landbúnaðarafurðir í stórkostlegum stíl þegar verð þeirra á innlendum markaði fer niður fyrir fyrir fram ákveðið lágmark. Kaupir allt upp. Síðan er farið með þessa vöru annaðhvort sem þróunaraðstoð, gjafir eða til þess að rugla heimsmarkaðinn. Eru þannig að margra áliti að vinna þriðja heiminum stórkostlegt ógagn með því að rugla verðmyndunina. Ekkert af þessu telst styrkur til landbúnaðar í Evrópu. Ekki ein einasta evra, eins og ég hef áður farið yfir, virðulegi forseti.

Það kerfi sem við höfum notað, þ.e. þessi skylda á útflutningnum til þess að halda uppi verði innan lands, sannarlega rétt, hún er reiknuð sem ígildi styrks. Því hafa fulltrúar landbúnaðarráðuneytisins verið að agnúast yfir. Þeir hafa fyrst og fremst viljað losna við útflutningsskylduna og lagt á það mjög ríka áherslu. Það var meginmarkmið samninganefndar ríkisins að fá útflutningsskylduna út. Hvernig má það vera að þessi mín ágæta ríkisstjórn, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þar sem Guðni Ágústsson, hæstv. landbúnaðarráðherra, fer fyrir landbúnaðarmálum, stendur að slíkri samningsgerð? Hverjum er verið að þjóna með því og hvaða nauð rekur mína ágætu ríkisstjórn til slíkra vinnubragða?

Það sem um er að ræða, virðulegi forseti, svo ég fari enn og aftur yfir það gagnvart breytingartillögunni sem var felld í gær með svo miklum atkvæðamun, er þetta: Breytingartillagan gekk út á það eitt, nákvæmlega það sama og samninganefnd bænda hafði beðið um, að setja varnagla í lögin. Slá þann varnagla í lögin að sú heimild væri til staðar fyrir landbúnaðarráðherra að grípa til þess að skylda til útflutnings ef það væri dómur bændasamtakanna að þannig horfði um verðmyndun, þannig horfði í birgðamálum, að vá væri fyrir dyrum. Þetta var beiðni samninganefndarinnar. Allrar. (Landbrh.: Nei.) Þeir báðu um það, það liggur fyrir skriflega, virðulegi forseti, og skiptir engu máli þó menn mjálmi eitthvert nei hérna, það er hægt að leggja það fram og auglýsa upp á vegg. Þannig að þetta fer nú ekki á milli mála.

Ég vil þá fara yfir það enn og aftur, af hverju var þá þessi breytingartillaga felld? Ég geri það vegna þess að það vildi nú þannig til, virðulegi forseti, að annar hv. þm. Jón Bjarnason hafði nefnilega flutt nokkurn veginn alveg sömu breytingartillöguna, að vísu aðeins öðruvísi orðaða. Við vissum hvorugur um hinn, eins og sagt var. Hún er nokkurn veginn alveg eins. Hún var dregin til baka eftir 3. umr. og kemur nú til atkvæðagreiðslu við 3. umr. Þetta er nokkurn veginn nákvæmlega sama tillagan og því gefst mönnum nú kostur á að greiða aftur atkvæði hafi þeir ekki skilið um hvað þetta var, þ.e. í hið fyrra skipti þegar tillagan var felld.

Tillagan er um þetta. Við vitum að það eru breytingar fram undan, það eru pólitískar yfirlýsingar og við vitum að það mun verða breyting á varðandi innflutning á landbúnaðarafurðum. Við erum í víðtækum samningaviðræðum í Genf, hjá WTO, um þessi heimsviðskipti. Við vitum að það verður þannig að eflaust munu tollar lækka, eflaust munu innflutningshömlur víkja. Þess vegna vitum við það, við vitum ekki hvenær, en við vitum að í framtíðinni er von á slíkum breytingum.

Það er því ekkert óeðlilegt, virðulegi forseti, að samtök bænda beri nokkurn ugg í brjósti um þróunina. Það er ekkert óeðlilegt við það. Það er líka algerlega kostnaðarlaust af hálfu ríkisins að hafa slíka varnagla. Það kostar ríkið ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ef svartsýnismenn um þróun verðlagsins — og ég segi nú frá því að fyrir liggja ýmsar markaðskannanir á því og markaðsspár, og því miður benda þær til þess að það sé ekki hagstætt íslenskum framleiðendum. Ef þær reynast hins vegar rangar og verðlagið verður þokkalegt þannig að við má lifa á komandi árum, hvað gerir þá til að hafa slíka varnagla í lögunum? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Hann er þá bara þarna og nýtist ekki. Alveg eins og öryggisventill á gufukatli, kemur ekki að sök þó að ketillinn springi aldrei. Menn setja nú slíka ventla á fyrir því. Kemur að engri sök. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti. Hvernig stóð á því að þessi mikli her þingmanna hér í gær gat allur ýtt á rauða takkann?

Tökum dæmi um þann góða flokk Samfylkinguna. Hér áðan var flutt mjög falleg og mjög góð og mjög rétt ræða af hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni þar sem hann fór í gegnum landbúnaðarmálin á óvenjulega viðkvæman og skilningsríkan hátt, í ræðu sem ég þakka sérstaklega fyrir. Hann segir þar að það sé stefna Samfylkingarinnar að bæði bændur og neytendur njóti styrkjanna og það sé um leið skýr krafa að menn nái árangri báðum til hagsbóta.

Hvað hefur nú gengið eftir á undanförnum árum, virðulegi forseti? Við höfum verið að styrkja landbúnaðinn. Við skulum taka mjólkurframleiðsluna fyrst. Í þeim geira báru menn gæfu til þess mjög snemma að veita leyfi til þess að framselja styrkina. Það var mjög þýðingarmikið að veita það leyfi að það væri framsal á styrkjunum enda hafði það í för með sér þann árangur að búin hafa verið styrkjast og vaxa. Mjög mikil hagkvæmni í mjólkurframleiðslunni hefur aukist mjög mikið. Búin eru orðin mjög stór.

Það er auðveldast til að átta sig á því að það hefur sannarlega náðst árangur með því að bera saman verðþróunina t.d. á einum lítra af mjólk og einum lítra af kóka kóla. Sjáið þið hvað kemur þar. Auðvitað hefur landbúnaðurinn verið að stuðla að mjög mikilli hagræðingu. Hann hefur skilað neytendum mjög, mjög mikilli lækkun á raunvirði landbúnaðarafurða. Staðið sig mjög vel.

Sama er um sauðfjárræktina þó að þar hafi þróunin ekki verið jafnskörp og í mjólkurframleiðslunni. Ég kenni því um, virðulegi forseti, fyrst og fremst að þar voru menn lengi vel að þráast við að veita leyfi til að selja eða framselja styrkina sem var mjög nauðsynlegt til að þrýsta á um hagræðinguna. Búa til stór og hagkvæm bú. Það þýðir ekkert nema að horfast í augu við það að það er með stórum og hagkvæmum búum sem við vitum að landbúnaðurinn á að geta þrifist og á að geta staðist samkeppnina, hið gamla búskaparlag með mjög litlum búum og fáum skepnum, það heyrir sögunni til og verður ekki til frambúðar.

Hvernig má þá standa á því að slíkur flokkur sem hv. þm. Björgvin Sigurðsson lýsti svo fagurlega áðan að hefði þessi markmið, hvernig gat slíkur flokkur sameinast um að segja nei við þessari tillögu, að allir ýttu á rautt og sögðu meira að segja frá því að það hafi verið flokkssamþykkt? Til hvers gerðu þeir þessa flokkssamþykkt?

Tillagan gengur út á það að vera öryggisventill ef illa fer í verðþróuninni því þá getur ekki nema tvennt skeð: Annaðhvort að búin gefist upp, (Gripið fram í.) að það skapist hér landauðn í mörgum héruðum sem hefur óskaplegan kostnað fyrir ríkið í för með sér, eða hitt að það kemur nýr pólitískur þrýstingur á að hækka raungildi styrkjanna miklu meira en þeir eru núna. Af hverju getur flokkur eins og Samfylkingin sem hefur svo fagra stefnu eins og hv. þingmaður lýsti, af hverju gat hann þá tekið flokkslega afstöðu til þess að allir skyldu vera á móti þessari tillögu? Hvernig á nokkur maður að geta skilið þetta? (Gripið fram í: Hvað með þinn eigin flokk?)

Svo skulum við snúa okkur að mínum eigin flokki. Það er líka alveg rétt. Við skulum fara yfir það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft það sem meginkjörorð í áratugi að það skyldi vera stétt með stétt og byggð með byggð. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á hverjum einasta landsfundi sínum gert það að samþykkja mjög öflugar yfirlýsingar um stuðning við landbúnað Íslands. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum áratugina hér á þinginu staðið að því og verið fordæmdur af mörgum að ætla sér og vilja að standa með íslenskum landbúnaði. Hvernig má það þá vera að þessi flokkur minn gerði í gær það sama og Samfylkingin, að allir þingmenn nema ég ýttu á rauða takkann? Hvernig má þetta vera? Hvað gengur á fyrir fólki? Hvernig hafa menn misskilið þetta svona voðalega?

Ef við tökum þá Framsóknarflokkinn, flokk hins hæstv. landbúnaðarráðherra sem fyrir einhvern misskilning, við skulum segja bara misskilning, hefur leitt okkur út í þessa röngu ákvörðun að neyða bændur í þennan samning og þeir fylgja þá hæstv. ráðherra sínum. Framsóknarflokkurinn er flokkur sem hefur talið það aðalsmerki sitt frá því að hann var stofnaður að hann ætlaði að standa vörð um landbúnaðinn og var reyndar stofnaður um það á sínum tíma. Þeir greiða allir sem einn atkvæði gegn þessari breytingartillögu. Hver einasti þeirra fylgir hæstv. landbúnaðarráðherra í þeirri ógæfu sem hann er búinn að reka þá í.

Hvernig má þetta vera? Ég skil það ekki, virðulegi forseti. En ég bendi mönnum á að það gefst aftur tækifæri í atkvæðagreiðslu við 3. umr., þá verður nákvæmlega eins tillaga borin fram. Það er tillaga hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Ég skora á menn að koma þá og styðja þá tillögu úr því að neyð þeirra í gær byggðist á svo miklum misskilningi eins og sumir þeirra vilja vera láta. Þá gefst tækifæri til þess að leiðrétta það.

Það er ástæða til þess að árétta þetta hér vegna þess að við stöndum frammi fyrir því sem réttilega er sagt, að byggðamál á Íslandi standa allt of veikt og þróun þeirra hefur verið mjög hættuleg þó að vissulega sé það rangt að engin byggðastefna sé á Íslandi. Það er mikil byggðastefna á Íslandi. (HBl: Það þarf nú konu til.) Hún bara dugar ekki til.

Ég hlustaði t.d. í gær á mjög skrýtna frétt. Hún var þannig að rannsóknarnefnd við Háskólann á Akureyri hefði komist að þeirri niðurstöðu að það væri engin byggðastefna á Íslandi. Þetta var rannsóknarhópur við Háskólann á Akureyri. Hvað skyldi nú Háskólinn á Akureyri vera? Háskólinn á Akureyri er frá A til Ö, frá upphafi bara byggðastefna. Ekkert nema byggðastefna og við megum vera stolt af því af því hann hefur staðið sig vel, mjög vel og er kjarnastofnun í að byggja þetta land.

En hann hefði aldrei orðið til nema vegna þess að það eru byggðasjónarmiðin, að standa að því að byggja upp Akureyri, Eyjafjörð, Norðurland og landið allt, sem er grunnhugsunin í því vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir því að byggðirnar fengu ekki staðist öðruvísi en að æðri menntun fengi að þrífast þar. (JBjarn: Pólitísk ákvörðun.) Pólitísk ákvörðun frá upphafi til enda og mun alltaf verða okkur til sóma. Það er hin margslungna byggðastefna sem við verðum að halda og eigum að efla og erum að efla með þessum sauðfjársamningi þrátt fyrir þessi mistök með útflutninginn, við skulum átta okkur á því. Samningurinn á að gilda og við eigum að standa vörð um hann vegna þess að það er mikill sparnaður fyrir ríkið. Það er mjög mikil þörf á því fyrir okkur til að viðhalda okkur hér sem þjóð sem við ættum að vera stolt af og höfum ástæðu til að vera stolt af.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að það gefst tækifæri til að greiða þessu öllu saman atkvæði nú við 3. umr. og þá geta menn áttað sig á því um hvað er að ræða. Þá geta menn áttað sig á því að við erum sannarlega að gera allt sem við getum til að treysta þessar byggðir.