133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:30]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem eftir stendur er að meginmarkmið og áherslur okkar með samningsgerðinni og samningum sem þessum er að styðja við landbúnaðinn og ég ítrekaði áðan að Samfylkingin styður beinan stuðning við landbúnaðinn með ákveðnum árangurskröfum til hagsbóta fyrir bæði framleiðendur og neytendur. Ég held að sá ábati komi fram til hvorra tveggja sé rétt á málum haldið. Ég dreg það ekki í efa.

Ég lýsti því hérna áðan hvernig það er algjört grundvallaratriði að mínu mati að styðja við bæði byggð og búvöruframleiðslu á Íslandi. Byggðirnar, margar hverjar, standa veikt og veikar en oft áður og að sjálfsögðu er alvarlegur skortur á samræmdri og öflugri byggðastefnu þótt að sjálfsögðu hafi einnig margt verið gert. Ég held að Háskólinn á Akureyri sé eitt það árangursríkasta sem við höfum gert eins og þingmaðurinn nefndi, það hefur verið ráðist í stórbrotnar stóriðjuframkvæmdir á ákveðnu svæði og svo á eftir að koma í ljós hverju það skilar. Mörg svæði eru auðn í byggðamálum, svæði sem byggja á búvöruframleiðslu einni saman en ekki öðrum atvinnuháttum, ekki hvað síst sauðfjárræktinni, standa hvað veikast. Þar er engin þensla og enginn hagvöxtur, þar er samdráttur og neikvæður hagvöxtur upp á 10–30% á ári. Það er mjög alvarleg staða, og að þessum byggðum er sótt. Þess vegna eigum við að styðja þær byggðir og styrkja myndarlega og frekar að styrkja þær frekar en að draga úr því eins og staðan er núna. Við eigum að sjálfsögðu að ræða hvernig við gerum það. En að útflutningsskylda eða heimild til hennar skipti þar öllu máli tel ég ekki vera en þurfi að rífa í handbremsuna, rífa í neyðarhemilinn verðum við að sjálfsögðu að endurskoða stöðu mála og endurskoða samninginn.

Það stendur eftir að þó svo að þessi hemill sé ekki settur inn með þessum hætti verður bara að taka málið upp í heild sinni komi sú staða upp í greininni sem hv. þingmaðurinn lýsir.