133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:32]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna sjónarmiðum hv. þingmanns. Mér finnst þau mjög góð og mjög rétt. Hins vegar skil ég ekki af hverju hann, sem hefur þessa skoðun eins og hann hefur lýst svo ágætlega, vill ekki nota tækifærið sem hann fær núna við lok 3. umr. til að styðja tillögu hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem er nákvæmlega eins og tillagan sem ég flutti hér í gær og var felld. Nú hafa menn tækifæri til að leiðrétta sig. Ekki er verið að taka neina áhættu, það er bara verið að gera samninginn tryggari, það er verið að gera þetta að ósk bænda, það er verið að gera þetta til þess að menn séu þá rórri um afkomu sína og framtíð en þeir eru, það getur aldrei leitt til neins nema til góðs. Ég treysti því og vona að hv. þingmaður sem svo fagurlega mælti og svo réttilega um byggðirnar og landbúnaðinn noti þá tækifærið og styðji tillögu hv. þm. Jóns Bjarnasonar þegar þar að kemur. Ég treysti því og svo að félagar hans og vinir í hans flokki, og ég vona að mjög margir flokksbræðra minna, sjálfstæðismanna, sjái að sér og geri slíkt hið sama við næstu atkvæðagreiðslu.